Á jarðýtunni á móti straumnum
Margrét Dana Þórsdóttir setur það síður en svo fyrir sig að sigla á móti straumnum. Hún leggur stund á nám í vélstjórn í VMA, námsbraut þar sem karlar hafa í gegnum tíðina verið í miklum meirihluta. Og svo er enn. En Margrét segist ekki einu sinni leiða hugann að því að hún sé ein af fáum konum í þessu námi, hún sé vön því úr verktakabransanum, sem hún hefur tengst frá blautu barnsbeini, að flestir vinnufélagarnir séu karlar.
Margrét Dana hefur lifað og hrærst í vélaheiminum frá því hún man eftir sér. Hjá fjölskyldufyrirtækinu Skútabergi ehf. hefur Margrét unnið á vélum undanfarin ár og raunar segist hún, eftir að skólinn byrjaði, fara um hverja helgi á suðausturhornið til þess að vinna. Þar kemur Skútaberg, sem undirverktaki fyrir Ístak, að því að byggja upp 17 km vegarkafla á hringveginum.
Áhuginn á vélum og reynslan af því að hafa unnið í þessari atvinnugrein beindu Margréti í að læra vélstjórn. Hún segir að í raun hafi ekkert annað komið til greina. Fyrsta námsárið, veturinn 2022-2023, var hún á brautabrú en síðan fór hún í grunndeild málmiðnaðar, sem er eins árs nám, og loks lá leiðin í vélstjórn. Hún segist ekki hafa ákveðið hversu langt hún fari í vélstjórninni en námið skiptist í fjögur námsstig: A, B, C og D og veitir hvert um sig ákveðin réttindi samkvæmt reglugerð. Lokastig námsins er til D réttinda sem gefur starfsréttindi í stöðu yfirvélstjóra og 1. vélstjóra á skipum með ótakmarkað vélarafl.
Vélstjórnin er blanda af verklegu og bóklegu námi. Þegar við hittum Margréti var hún í kennslustund í málmsuðu hjá Herði Óskarssyni í húsnæði málmiðnbrautar en vélstjórar þurfa að kunna skil á hinum ýmsu suðuaðferðum. Margrét segir að vélstjórnarnámið sé vissulega massíft og krefjandi og því þurfi að leggja mikið á sig. En það sé allt í lagi því námið sé mjög áhugavert og gefandi. Fyrir sig sé bóklegi hlutinn sérstaklega krefjandi því hún glími við bæði les- og talnablindu. En með því að nýta sér öll þau hjálpartæki sem nú séu aðgengileg í tölvuheiminum, til dæmis að fá lesna texta, sé allt hægt og því láti hún les- og talnablinduna ekki stoppa sig. En trúlega þurfi hún að hafa meira fyrir náminu en margur annar. „Ég horfi ekki á þetta sem hindrun, fyrst og fremst er þetta eitthvað sem ég þarf að kljást við og þá bara geri ég það,“ segir Margrét.
Þegar Margrét hafði aldur til tók hún vinnuvélapróf og vinnur því jöfnum höndum á hinum ýmsu vinnuvélum. Jarðýtan segir hún að sé í sérstöku uppáhaldi. En hún þarf að bíða í ríflega tvö ár, þar til hún verður 21 árs, eftir því að taka meiraprófið og fá í kjölfarið réttindi til þess að keyra stærri bifreiðar, þar með talda vöru- og steypubíla.