Fara í efni

Á fullu í undirbúningi fyrir Íslandsmót

Þórgnýr Jónsson, nemandi í húsgagnasmíði.
Þórgnýr Jónsson, nemandi í húsgagnasmíði.
Á morgun, föstudag og laugardag fer fram Íslandsmót iðn- og verkgreina í Kórnum í Kópavogi, þar sem nemendur víðsvegar að spreyta sig á ýmsum verkefnum sem tengjast þeirra fögum. Nokkrir nemendur af verknámsbrautum VMA verða meðal þátttakenda, þar á meðal Fljótamaðurinn Þórgnýr Jónsson, nemandi í húsgagnasmíði, sem hefur síðustu daga verið að undirbúa sig fyrir keppnina.

Á morgun, föstudag og laugardag fer fram Íslandsmót iðn- og verkgreina í Kórnum í Kópavogi, þar sem nemendur víðsvegar að spreyta sig á ýmsum verkefnum sem tengjast þeirra fögum. Nokkrir nemendur af verknámsbrautum VMA verða meðal þátttakenda, þar á meðal Fljótamaðurinn Þórgnýr Jónsson, nemandi í húsgagnasmíði, sem hefur síðustu daga verið að undirbúa sig fyrir keppnina.

Þórgnýr er á átjánda ári og er á fjórðu önn í húsgagnasmíði. Hann segir að kennararnir í byggingadeildinni hafi nefnt það við sig hvort hann væri til í að taka þátt í Íslandsmótinu og hann hafi ákveðið að slá til. „Ég veit satt best að segja ekki mikið um hvernig þetta fer fram, en það kemur í ljós, ég er bara spenntur að taka þátt, það verður fróðlegt að sjá hvort maður klúðrar þessu alvarlega,“ segir Þórgnýr og brosir. „Ég kem til með að smíða svokallaðan tröppustól. Við fengum sendar teikningar að stólnum og ég hef haft tækifæri til þess að æfa mig og finna út hvernig best væri að smíða gripinn. Það verður svo að koma í ljós hvernig mér gengur þegar á hólminn verður komið,“ segir Þórgnýr og bætir við að hann ætli sér fyrst og fremst að hafa nákvæmni og vandvirkni að leiðarljósi í mótinu.

Þórgnýr Jónsson er frá Þrasastöðum í Fljótum – innsta bæ í þeirri snjóþungu sveit. Hann segist lengi hafa verið ákveðinn í því að læra smíðar og húsgagnasmíðin hafi orðið fyrir valinu. Síðar stefni hann á að læra einnig húsasmíði. Hann segist telja það vænlegri leið að byrja á húsgagnasmíðinni, enda krefjist hún vandaðri og nákvæmari vinnubragða og því sé ágætt að vera búinn að tileinka sér slík vinnubrögð þegar tekist verði á við húsasmíðina.

Íslandsmót iðn- og verkgreina er fastur liður hjá félögum og samtökum sem standa að verknámsgreinum og framhaldsskólum með verknámsbrautir.  Að þessu sinni munu um 200 keppendur taka þátt og etja sjúkraliðanemar kappi, einnig verður keppt í kjötiðn, rafvirkjun, rafeindavirkjun, grafískri miðlun, skrúðgarðyrkju, blómaskreytingum, málaraiðn, pípulögnum, trésmíði, bakaraiðn, snyrtifræði, gullsmíði, hársnyrtiiðn, veggfóðrun og dúkalögn, bílamálun, bifreiðasmíði, bifvélavirkjun, leikjaforritun, framreiðslu, matreiðslu, bilanagreiningu kælikerfa, vefhönnun og málmsuðu.

Dagskráin í Kórnum hefst í fyrramálið, fimmtudag, og henni lýkur um miðjan dag á laugardag. Jafnhliða Íslandsmótinu verður haldin í Kórnum fyrsta sameiginlega kynning framhaldsskóla og annarra námsstofnana á starfsemi sinni. Bróðurpartur skólanna er af höfuðborgarsvæðinu, en einnig eru þar með kynningar fjölbrautaskólarnir á Selfossi, Sauðárkróki og í Reykjanesbæ, Menntaskólinn á Ísafirði og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri. Búist er við að um sjö þúsund grunnskólanemar leggi leið sína í Kórinn um helgina til þess að kynna sér starfsemi skólanna og í leiðinni gefst þeim og öðrum gestum tækifæri til þess að fylgjast með Þórgný og öðrum keppendum í Íslandsmóti iðn- og verkgreina.