Fara í efni

Á Erasmus styrk í starfsnámi á hársnyrtistofu í Stokkhólmi

Kormákur Rögnvaldsson og Caroline Nodenswan frá Finnlandi í tívolíinu í Stokkhólmi um síðustu helgi.
Kormákur Rögnvaldsson og Caroline Nodenswan frá Finnlandi í tívolíinu í Stokkhólmi um síðustu helgi.

Einn góðan veðurdag var Kormákur Rögnvaldsson nemandi í hársnyrtiiðn staddur í hádeginu inni á bókasafni VMA. Hann heyrði á tal Dagnýjar, sem sér um erlend samskipti í VMA (er núna í fæðingarorlofi), við nemanda um möguleikann á því að sækja um Erasmus styrk til þess að taka hluta af starfsnámi erlendis. Þetta þótti Kormáki áhugavert og hann ákvað að skoða málið betur. Hitti Dagnýju strax daginn eftir, lýsti áhuga á að sækja um slíkan styrk og þar með var teningnum kastað.

Síðastliðið vor útskrifaðist Kormákur úr hársnyrtiiðn í VMA og nokkrum vikum síðar var hann kominn til Stokkhólms í Svíþjóð í starfsnám á hársnyrtistofu í hjarta borgarinnar. Erasmus styrkurinn greiðir flugið, gistingu og fæði meðan á þriggja og hálfs mánaðar námsdvöl Kormáks stendur.

„Ég er búinn að vera hér í Stokkhólmi í nákvæmlega einn mánuð og líkar mjög vel. Ég er í starfsnámi á flottri stofu sem er nánast í miðbænum og þar starfa átta manns, sjö hársnyrtar og einn í afgreiðslu. Ég er á stofunni að jafnaði sjö tíma á dag, frá kl. 10 til 18 með klukkutíma í mat – Erasmus vinnuvikan er 35 tímar. Að jafnaði er ég kannski með einn kúnna á dag en síðan eru starfsmennirnir að segja mér til og kenna mér ýmislegt nýtt og auk þess kynnist ég markaðssetningu á hárvörum o.fl. Þessi tími hér í Stokkhólmi nýtist mér vel inn í mína ferilbók sem hluti af starfsnáminu sem ég þarf að hafa lokið áður en ég tek sveinsprófið í hársnyrtiiðn. Þessi dvöl hérna úti hefur nú þegar verið mér mjög dýrmæt. Ég hef fengið að kynnast ýmsu nýju í faginu og það hefur auðvitað líka verið mikil lífsreynsla fyrir mig að vinna í nýju umhverfi og eiga í samskiptum á sænsku. Ég fékk tækifæri til þess að læra sænsku í VMA og það hefur nýst mér prýðilega. Ég skil sænskuna þokkalega nema ef um er að ræða einhver tæknileg hugtök.
Ég bý á heimavist þar sem ég hef herbergi, baðherbergi og eldhúskrók. Á heimavistinni er,u krakkar víða að úr heiminum og ég er þegar búinn að kynnast nokkrum. Sumir eru eins og ég á Erasmus styrkjum en aðrir eru meistaranámi eða einhverju allt öðru.
Stokkhólmur er mjög skemmtileg borg og mér líkar eiginlega of vel hér því ég hef alltaf ímyndað mér að ég myndi bara búa á Akureyri! Borgin er afar fjölbreytt og lífleg og ég hef nú þegar haft tækifæri til þess að sjá eitt og annað. Til dæmis er ég búinn að skoða gamla bæinn og höllina og um síðustu helgi var ég í ellefu tíma í tívolí með stelpu frá Finnlandi sem er í starfsnámi hjá mannréttindasamtökum hér og býr líka á heimavistinni.
Ég get ekki annað en verið mjög þakklátur fyrir að hafa fengið þennan Erasmus styrk til þess að koma hingað og læra, þetta hefur nú þegar gefið mér mjög mikið,“ segir Kormákur en í dag, fimmtudaginn 21. september, verður Kormákur með stjórnina á Instagram reikningi VMA og segir okkur af högum sínum í Stokkhólmi.

Til Akureyrar snýr Kormákur aftur 2. desember og þá heldur hann áfram þar sem frá var horfið í vinnu á hársnyrtistofunni Medullu. Sveinspróf í hársnyrtiiðn verður í febrúar 2024 en Kormákur gerir frekar ráð fyrir því að taka það síðar á árinu, hann kjósi að gefa sér lengri tíma í undirbúning fyrir prófið.
En hvað sér Kormákur fyrir sér eftir sveinspróf í hársnyrtiiðn? Hann segist gera ráð fyrir því að vinna um hríð í faginu á Íslandi en síðan komi vel til greina að reyna fyrir sér einhvers staðar utan landssteinanna og safna í reynslupokann. Stokkhólmsdvölin hafi víkkað út sjóndeildarhringinn.