Fara í efni

Ánægjulegt að sjá áherslu VMA á alþjóðleg samskipti

Valgerður Húnbogadóttir starfar á bókasafni VMA með Hönnu Þóreyju Guðmundsdóttur og hefur einnig á s…
Valgerður Húnbogadóttir starfar á bókasafni VMA með Hönnu Þóreyju Guðmundsdóttur og hefur einnig á sinni könnu erlend samstarfsverkefni skólans.

Valgerður Húnbogadóttir kom til starfa í VMA núna í upphafi skólaárs og leysir af í vetur Dagnýju Huldu Valbergsdóttur sem er í fæðingarorlofi. Starf Valgerðar er tvískipt, annars vegar vinnur hún á bókasafninu og hins vegar heldur hún utan um erlend samskipti skólans.

Valgerður er lögfræðingur að mennt, lauk grunnnáminu frá Háskólanum á Akureyri og síðan lá leiðin til Oslóar í Noregi þar sem hún stundaði nám í þjóðarrétti. Að undanförnu hefur Valgerður stundað meistararnám í alþjóða samskiptum við Háskóla Íslands.

Síðustu árin hefur Valgerður búið með fjölskyldu sinni í Reykjavík þar sem hún hefur unnið hjá Vinnumálastofun, Rauða krossinum og síðast Reykjavíkurborg að ýmsum málum er varðar flóttafólk. En þegar hún sá þessa afleysingastöðu í VMA auglýsta ákvað hún að sækja um og hlutirnir gerðust síðan hratt.

Valgerður upplýsir að Akureyri hafi lengi haft aðdráttarafl enda séu þau hjónin bæði frá Akureyri. Síðan þegar þessi möguleiki hafi opnast hafi verið ákveðið að taka stökkið og spennandi tímar séu framundan fyrir fjölskylduna. Í vinnunni í VMA þurfi hún að setja sig inn í fjölmarga nýja hluti. Raunar hafi hún áður komið að alþjóðlegu samstarfi þegar hún starfaði um tíma á vegum EFTA í Brussel en núna sé hún hinum megin við borðið og sæki um styrki til fjármögnunar á erlendum samstarfsverkefnum sem VMA taki þátt í. Valgerður segir ánægjulegt að sjá þessa ríku áherslu VMA á alþjóðlegt samstarf, það sé til marks um víðsýni og framsækni sem skólinn hafi augljóslega að leiðarljósi.

Einn af þeim jákvæðu þáttum sem Valgerður segist sjá með búsetu fjölskyldunnar á Akureyri er nálægðin við skíðasvæðin í bæði Kjarnaskógi og Hlíðarfjalli. Því sé horft með tilhlökkun til komandi skíðavertíðar.