Fara í efni

Bifvélavirkjun heillar

Máni Mýrmann Þorsteinsson.
Máni Mýrmann Þorsteinsson.

„Það kom einhvern veginn ekkert annað til greina en að fara í bifvélavirkjun,“ segir Stöðfirðingurinn Máni Mýrmann Þorsteinsson, sem nú er á annarri önn í bifvélavirkjuninni í VMA. Hann lauk tíunda bekk Stöðvarfjarðarskóla vorið 2018 og um haustið lá leiðin til Akureyrar þar sem hann fór í grunndeild málmiðnaðar. Grunndeildin tekur eitt ár og henni þarf að ljúka áður en farið er í bifvélavirkjun.

„Ég lauk grunndeildinni vorið 2019 og sótti þá hjá nokkrum fyrirtækjum á Akureyri um að komast á samning í bifvélavirkjun. Ég fékk samning hjá Toyota á Akureyri og lauk samningstímanum þar. Ég notaði því tímann eftir grunndeildina til þess að vinna á verkstæði og ljúka samningstímanum áður en ég byrjaði síðan í fagnáminu hér sl. haust,“ segir Máni.

„Þegar ég var lítill vissi ég ekki hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór en ég var mikið að brasa með föður mínum, sem er rútubílstjóri, við allskyns bílaviðgerðir og í kjölfarið fór ég að fá áhuga á þessu. Það kom vissulega til greina að fara í vélstjórn en reynsla mín af sjóveiki gerði það að verkum að ég ákvað að velja bifvélavirkjunina og sé ekki eftir því.“

Að lokinni þessari önn á Máni tvær annir eftir í faggreinum bifvélavirkjunar áður en hann getur farið í sveinspróf og fengið starfsréttindi. Með öðrum orðum; námið tekur í heildina sex annir – tvær annir í grunndeild málmiðnaðar og fjórar annir í bifvélavirkjun auk tólf mánaða starfsþjálfunar á vinnustað.

Þegar litið var í kennslustund til Braga Finnbogasonar, sem hefur umsjón með náminu í bifvélavirkjun í VMA, voru Máni og samnemendur hans að rífa í sundur drif og setja þau saman aftur. Máni segir þetta mjög lærdómsríkt og skemmtilegt.