Fara í efni

30 ára VMA-nemar rifjuðu upp gömul kynni

Nemendur ásamt þremur kennurum fyrir utan VMA.
Nemendur ásamt þremur kennurum fyrir utan VMA.

Vorið 1985 brautskráðist fyrsti hópur stúdenta frá Verkmenntaskólanum á Akureyri og að sjálfsögðu brautskráðist þá einnig hópur verknámsnema, rétt eins og nú. Brautskráningin fór fram í Akureyrarkirkju. Þrjátíu ár eru liðin og af því tilefni hittust nokkrir úr þessum 30 ára afmælishópi í dag, á brautskráningardegi VMA, til þess að gleðjast og rifja upp gamlar minningar.

Á meðfylgjandi mynd sem var tekin við þetta tækifæri við VMA í dag eru 30 ára júbílantarnir og með þeim á myndinni eru þrír kennarar; Baldvin Bjarnason, Hálfdán Örnólfsson og Benedikt Bragason. Þeir tveir síðarnefndu eru ennþá starfandi kennarar við VMA.

Við brautskráningu VMA í Hofi í dag flutti Anna Halldóra Sigtryggsdóttir ávarp fyrir hönd þessa hóps 30 ára VMA-nema. Eftirfarandi er ávarp hennar:

Skólameistari, útskriftarnemar, kennarar og aðrir gestir.

Komið þið sæl og innilega til hamingju með daginn, sérstaklega þið útskriftarnemar.

Mér finnst svo stutt síðan ég stóð í ykkar sporum þann 1. júní 1985 en það eru samt 30 ár síðan. Ég ætlaði að vera með húfuna mína en hún var of lítil, eins tók ég fram stúdentsdraktina mína og var hún einnig of lítil, það hefur greinilega margt breyst á þessum 30 árum.

Við vorum fyrsti hópurinn sem útskrifuðumst sem stúdentar frá VMA en að sjálfsögðu útskrifuðust fleiri nemendur af ýmsum verknámsbrautum eins og núna.

Við sem útskrifuðumst þá upplifðum öðruvísi tíma og skólagöngu en þið gerið í dag.

Því miður tengdumst við of lítið öðrum nemendum skólans.  VMA var byggður á eldri skólum, Vélskóladeild á Akureyri frá Vélskóla Íslands og Iðnskóla Akureyrar ásamt Húsmæðraskólanum á Akureyri og framhaldsdeildum Gagnfræðaskóla Akureyrar.  Við sem vorum á viðskiptabraut byrjuðum í framhaldsdeildum Gaggans en svo varð VMA allt í einu til. 

Við vorum í bekkjum sem voru saman í öllum fögum og þess vegna vorum við aldrei í íslensku með nemendum af mörgum brautum. Við kynntumst öðrum í bekknum vel en ekki eins mikið hinum nemendunum í skólanum.

Við sem vorum á viðskiptabrautinni vorum á flakki milli húsa, vorum í Gagganum  sem er núna Brekkuskóli, Íþróttahöllinni og Iðnskólanum við Þórunnarstræti ( Icelandair Hótel) og vil ég meina að við höfum verið í mjög góðu formi eftir að hlaupa á milli húsanna á milli tíma og í eyðum.   Þá var bílaeign nemenda ekki eins mikil og í dag og við þurftum að notast við tvo jafnfljóta – og töldum það ekki eftir okkur.  Í löngu frímínútunum var oft farið niður í bæ í gömlu góðu Ísbúðina (sem núna er La Vita Bella) og vorum við vinkonurnar t.d. vanar að fá okkur Mix og pylsubrauð með öllu og svo var gengið upp Gilið aftur. Eins fórum við í sjoppu sem var staðsett hér í Skólastígnum. Stutt að fara.

Á  þessum árum var verið að byggja Verkmenntaskólann þar sem hann er nú og gekk ég því aldrei í Verkmenntaskólann eins og hann er í dag.

Ég sé hér nokkra virðulega kennara sem kenndu okkur og hafa haldið tryggð við skólann og svo eru samnemendur orðnir kennslustjórar og brautarstjórar við  skólann sinn.

Tengsl mín við skólann hafa haldist þar sem ég hef lagt til þrjá nemendur í hópinn hjá gamla skólanum mínum. Og upplifað mjög góðar stundir við útskriftir þeirra. Hafa þau öll verið mjög ánægð með veru sína  hér.  VMA er ekki bara samsafn eldri skóla heldur fjölbreyttur skóli sem getur boðið upp á margvíslegt nám.  Vonandi munuð þið sjá jafnmiklar breytingar á skólanum eftir 30 ár eins og ég sé núna.

Fyrir hönd 30 ára útskriftarnema viljum við færa skólanum smá gjöf sem er innlegg í  sjóð Hollvinasamtaka VMA.  Ég vil biðja Hjalta Jón skólameistara að taka við henni.

Kærar þakkir og enn og aftur til hamingju með daginn.