Fara í efni

287 bækur í bókajólatrénu

Bækurnar í bókajólatrénu reyndust vera 287
Bækurnar í bókajólatrénu reyndust vera 287

Sem fyrr í aðdraganda jóla settu bókaverðirnir á bókasafni skólans, Hanna Þórey og Dagný Hulda, upp bókajólatré á bókasafninu í nóvember. Eins og nafnið gefur til kynna var jólatréð myndað úr bókum, stórum sem smáum. Hanna og Dagný efndu til getraunar um hversu margar bækurnar væru og settu þátttakendur úrlausnir sínar í kassa.

Fjölmargar tillögur bárust og varð niðurstaðan ljós þegar jólatréð var tekið niður núna í janúar og bækurnar taldar. Þær reyndust vera 287. Sá sem giskaði næst réttri tölu var Gabríel Glói Freysson, nemandi í skólanum. Hans ágiskun var 292 bækur eða einungis fimm bókum frá réttu svari. Næst besta ágiskunin var 271 bók eða sextán bókum frá réttri tölu.

Hanna og Dagný höfðu heitið sigurvegaranum í getraunaleiknum bragðaref í verðlaun og við það stóðu þær auðvitað og færðu Gabríel Glóa bragðarefinn sinn inn í kennslustund. Undrunarsvipur færðist yfir andlit sigurvegarans þegar honum voru færð þau tíðindi að hann væri einum bragðaref ríkari - og af hverju.