Fara í efni

131 nemandi brautskráður frá VMA

Útskriftarhópurinn í Hofi. Mynd: Páll A. Pálsson.
Útskriftarhópurinn í Hofi. Mynd: Páll A. Pálsson.

Í dag brautskráðist 131 nemandi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri með 151 skírteini – þ.e. 20 nemendur brautskráðust með tvö skírteini. Alls hefur VMA útskrifað 225 nemendur á þessu skólaári, 94 nemendur voru útskrifaðir í desember sl. 

Í upphafi brautskráningarræðu sinnar í dag sagði Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari að dagurinn væri sannur gleðidagur og mikill léttir væri að geta haft brautskráningarathöfnina með þessum hætti í Hofi þó svo að hún tæki óhjákvæmilega mið af sóttvarnareglum.

Sigríður Huld nefndi að hún og aðrir stjórnendur skólans hafi þurft að velta sóttvörnum mikið fyrir sér í vetur og það hafi vart farið fram hjá nemendum.

„Þið hafið örugglega verið komin með nóg af þessum stundum allt of löngu tölvupóstum með flóknum útskýringum um sóttvarnahólf, fjarlægðarmörk, handþvott, sótthreinsun á kennslustofum og grímunotkun. Og vonandi þarf ég aldrei aftur að segja við nemendur VMA að öll hópamyndun sé bönnuð innan veggja skólans. Klisjan um fordæmalausa tíma mun fylgja okkur eitthvað áfram þótt margt í okkar daglega lífi sé að verða líkara því sem við þekktum í lok árs 2019. Á þessari stundu vil ég segja við nemendur VMA: þið hafið staðið ykkur frábærlega í vetur. Þið hafið sýnt dugnað, þrautseigju og æðruleysi í þeim aðstæðum sem við höfum þurft að starfa í. Kennarar og annað starfsfólk skólans á líka miklar þakkir skilið fyrir sitt framlag til nemenda og skólans. Ég vil biðja alla í salnum og hér á sviðinu að klappa fyrir ykkur sjálfum, samnemendum, kennurum og starfsfólki VMA.“ 

Sigríður Huld sagði að sem betur fer hafi félagslíf ekki þurrkast út í vetur vegna Covid. Hæst hafi borið uppfærsla Leikfélags VMA á Grís á Gryfjunni í febrúar og mars og þá hafi Þórduna staðið fyrir minni viðburðum, eins og sóttvarnareglur leyfðu, t.d. hafi bollur verið gefnar á bolludaginn, rafræn árshátíð hafi verið haldin og minniháttar dimmiso nú í lok annar.

„Það verður því verðugt verkefni fyrir nýja stjórn Þórdunu að takast á við félagslífið af fullum krafti næsta haust. Það verður vonandi hægt að halda nýnemahátíð, böll, koma klúbbastarfi í gang og síðast en ekki síst vera saman og ég hreinlega ætlast til að það verði hópamyndanir á göngum skólans og í Gryfjunni. Ég vil þakka stjórn nemendafélagsins Þórdunu fyrir vel unnin störf á þessu skólaári og óska nýrri stjórn velfarnaðar í því krefjandi hlutverki sem hún fær á næsta hausti við að virkja aftur nemendur VMA í félagslífinu.“

Kveðja frá 30 ára brautskráningarnemum
Sú hefð hefur skapast að fulltrúi eldri útskriftarárgangs ávarpi brautskráningarhátíð VMA. Vegna sóttvarna var ákveðið að slíkt yrði ekki gert að þessu sinni. Þess í stað flutti Sigríður Huld eftirfarandi kveðju 30 ára útskriftarnema frá VMA, sem hyggjast halda upp á 30 ára útskriftarafmælið í næsta mánuði og gefa peninga í sjóð fyrir efnaminni nemendur skólans. Kveðja 30 ára brautskráningarnemanna er svohljóðandi:
Við þökkum fyrir þann góða tíma sem við áttum í skólanum og þá fínu menntun sem við hlutum. Við berum ávallt tilfinningar til skólans okkar og berum hag hans fyrir brjósti.

Njótið útskriftardagsins nk. laugardag 29. maí og til hamingju með alla nýju útskriftarnemana ykkar.

131 nemandi brautskráður
Að þessu sinni var 131 nemandi brautskráður frá skólanum. Brautskráninguna önnuðust sviðsstjórarnir Baldvin B. Ringsted, sviðsstjóri verk- og fjarnáms, Harpa Jörundardóttir, sviðsstjóri brautabrúar, starfs- og sérnámsbrautar, og Ómar Kristinsson, sviðsstjóri sjúkraliðabrautar og stúdentsprófsbrauta.

Skipting brautskráningarnema á brautir var eftirfarandi:

Sérnámsbraut 6
Starfsbraut 3
Húsasmíði 8
Rafvirkjun 19
Stálsmíði 1
Vélvirkjun 3
Vélstjórn 15
Iðnmeistarar 23
Sjúkraliðabraut + stúdentspróf að loknu sjúkraliðanámi 1
Viðbótarnám að loknu verknámi - stúdentspróf 6
Félags- og hugvísindabraut - stúdentspróf 6
Fjölgreinabraut - stúdentspróf 11
Íþrótta- og lýðheilsubraut - stúdentspróf 4
Listnáms- og hönnunarbraut / myndlistarlína - stúdentspróf 16
Náttúruvísindabraut - stúdentspróf 4
Viðskipta- og hagfræðibraut - stúdentspróf 5

Auk 131 brauskráningarnema frá VMA afhenti Sigríður Huld Sighvati Daníels Sighvats, brautskráningarnemanda við Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað prófskírteini sitt frá skólanum. Þannig vildi til að Verkmenntaskóli Austurlands brautskráði nemendur sína um síðustu helgi og á sama tíma var Sighvatur Daníel í sveinsprófsundirbúningi á Akureyri og gat því ekki verið viðstaddur brautskráninguna í Neskaupstað. Því var þess óskað að Sighvatur Daníel gæti tekið við sínu brautskráningarskírteini í Hofi í dag og varð VMA að sjálfsögðu við þeirri ósk. Sigríður Huld skólameistari VMA afhenti Sighvati prófskírteini sitt fyrir hönd Lilju Jóhannesdóttur, skólameistara Verkmenntaskóla Austurlands. 

Verðlaun og viðurkenningar

Davíð Máni Jóhannesson, brautskráningarnemi af starfsbraut
Hlaut verðlaun frá Tónabúðinni fyrir að hafa lagt sig fram í náminu á starfsbraut, fyrir að vera einstaklega jákvæður ásamt því að hafa auðgað mannlífið í skólanum.

Bryndís Eva Stefánsdóttir, nýstúdent af félags- og hugvísindabraut
Hlaut verðlaun úr Minningarsjóði Alberts Sölva Karlssonar, sem var kennari við VMA, fyrir bestan árangur í samfélagsgreinum. Bryndís Eva fékk einnig íslenskuverðlaun sem Penninn Eymundsson gefur og sömuleiðis verðlaun fyrir námsárangur í dönsku sem VMA gefur.

Ólöf Steinunn Sigurðardóttir, nýstúdent af fjölgreinabraut
Hlaut þrautseigjuverðlaun sem Hollvinasamtök VMA gefa. Þessi verðlaun eru veitt nemanda sem hefur sýnt mikla þrautseigju á námstímanum.

Katla María Kristjánsdóttir, nýstúdent af íþrótta- og lýðheilsubraut
Hlaut verðlaun frá Embætti landlæknis fyrir bestan árangur í greinum sem tengjast heilbrigði og lýðheilsu.

Anamaria-Lorena Hagiu, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut
Anamaria hlaut verðlaun sem Slippfélagið gefur fyrir bestan árangur í myndlistargreinum listnámsbrautar. Einnig hlaut hún spænskuverðlaun og í þriðja lagi var Anamaria dúx skólans og fyrir það fékk hún verðlaun sem A4 gefur.

Ásgerður Erla Einarsdóttir Strand, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut
Ásgerður hlaut bæði spænsku- og dönskuverðlaun sem VMA gefur en jafnframt hlaut hún Hvatningarverðlaun VMA sem Terra gefur. Verðlaunin eru veitt nemanda sem hefur verið fyrirmynd í námi, sýnt miklar framfarir í námi, starfað að félagsmálum nemenda, haft jákvæð áhrif á skólasamfélagið eða verið sér, nemendum og skólanum til sóma á einhvern hátt. Ásgerður hefur á námstíma sínum í skólanum sýnt seiglu, mikinn dugnað og elju til að ná markmiðum sínum.

Álfheiður Una Ólafsdóttir, nýstúdent af náttúruvísindabraut
Álfheiður Una hlaut verðlaun frá Háskólanum í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi. Verðlaunin eru veitt í hverjum framhaldsskóla og tilnefna skólarnir nemanda til verðlaunanna. Skal miðað við að tilnefndur nemandi hafi sannað getu sína í raungreinum bæði með vali á krefjandi áföngum og með framúrskarandi árangri. Um er að ræða vegleg bókaverðlaun, auk þess sem verðlaunahafar sem kjósa að hefja nám við Háskólann í Reykjavík, fá niðurfelld skólagjöld fyrstu önnina í námi. 

Katrín Helga Ómarsdóttir, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut
Hlaut verðlaun frá VMA fyrir góðan árangur í dönsku.

Hera Jóhanna Heiðmar Finnbogadótir, nýstúdent af viðskipta- og hagfræðibraut
Hlaut verðlaun frá SBA-Norðurleið fyrir framúrskarandi árangur í ensku.

Magnús Njáll Árnason, húsasmiður
Hlaut verðlaun frá Byggiðn fyrir bestan árangur í byggingagreinum. Einnig fékk hann hamar að gjöf frá Byko eins og allir aðrir nemendur sem voru að ljúka húsasmíði. Sigríður Huld skólameistari þakkaði Byko sérstaklega fyrir samstarf við skólann í vetur en nemendur í byggingagreinum byggðu tvö smáhýsi í vetur í samstarfi við Byko. 

Hafþór Helgi Þórisson, rafvirki
Hlaut verðlaun frá Ískraft fyrir bestan árangur í rafvirkjun.

Kristján Elínór Helgason, vélstjóri
Hlaut verðlaun frá Félagi málmiðnaðarmanna Akureyri fyrir bestan árangur í faggreinum vélstjórnar.

Örn Arnarson, vélstjóri
Hlaut verðlaun frá Félagi málmiðnaðarmanna Akureyri fyrir bestan árangur í faggreinum vélstjórnar.

Þóra Kolbrún Jóhannsdóttir, vélstjóri
Hlaut verðlaun frá Pennanum Eymundsson fyrir góðan árangur í íslensku.

Aldís Lilja Sigurðardóttir, María Björk Jónsdóttir, Valur Freyr Sveinsson, Katla María Kristjánsdóttir, Katrín Helga Ómarsdóttir og Örn Smári Jónsson
Fengu afhenta blómvendi frá VMA fyrir framlag sitt til félagsmála í skólanum og hafa þannig unnið ríkulega í þágu samnemenda sinna. Fjögur af fimm framangreindum veittu blómvöndunum viðtöku, Örn Smári var fjarverandi.

Tónlistaratriði
Þrjú tónlistaratriði voru flutt við brautskráninguna. Davíð Máni Jóhannesson, brautskráningarnemi á starfsbraut, spilaði frumsamið lag á gítar, Manti´s prey, Dagbjört Nótt Jónsdóttir, nemandi í háriðn, söng lagið Enginn eins og þú við undirleik Péturs Guðjónssonar og María Björk Jónsdóttir nýstúdent af félags- og hugvísindabraut söng lagið Þó líði ár og öld við gítarundirleik Vals Freys Sveinssonar, brautskráningarnema í vélstjórn.

Valur Freyr Sveinsson, sem útskrifaðist af vélstjórnarbraut, flutti ræðu brautskráningarnema.

Brosið með hjartanu!
Í lok brautskráningarinnar beindi Sigríður Huld orðum sínum að nemendum og sagði:

„Jæja, kæru brautskráningarnemendur, til hamingju með árangurinn - þið eruð öll sigurvegarar. Þið hafið náð takmarki ykkar. Sum ykkar hafið þurft að leggja á ykkur mikla vinnu, blóð, svita og tár til að ná þessum áfanga en það dugði til því hér eruð þið nú. Verið stolt af árangri ykkar og horfið björtum augum til framtíðar. Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með tungumálið okkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldum ykkar og vinum og því samferðarfólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. En fyrst og fremst, berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni. Ég vona að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar í VMA. Þótt covid hafi markað skólagöngu ykkar síðustu þrjár annir vona ég að þið hafið náð því sem sagt er um þessi svokölluðu framhaldsskólaár að þá kynnumst við oft og tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt - þótt leiðir skilji á vissan hátt nú við brautskráningu. Viðhaldið vináttunni hvert til annars. Takk fyrir að velja VMA sem ykkar skóla, verið stolt og til hamingju.“

Og til starfsmanna VMA sagði Sigríður Huld: „Takk öll fyrir samstarfið, dugnaðinn og stuðninginn á þessu skólaári og ég vil sérstaklega þakka Benedikt Barðasyni aðstoðarskólameistara og Hrafnhildi Haraldsdóttur rekstrar- og fjármálastjóra fyrir vel unnin störf fyrir hönd nemenda og starfsmanna skólans. Að stjórna skóla eins og VMA er ekki einnar konu verk, samheldinn starfsmannahóp þarf líka til og það er þakkarvert að vinna með starfsmannahópnum í VMA. Ég er afar stolt af samstarfsfólki mínu, fyrir fagmennsku þeirra og umhyggju fyrir nemendum og þeim gildum sem skólinn stendur fyrir. Kærar þakkir öll fyrir samstarfið í vetur. 
Ég vona að þið eigið öll gleðiríkan dag og hátíðlegt kvöld framundan. Til hamingju öll og munum að brosa með hjartanu.“