Fara í efni

128 nýnemar á vorönn - kynningarfundur í dag kl. 10:30

Nemendur geta sótt stundatöflur sínar í dag milli kl. 08:30 og 11:20 og kennsla hefst síðan kl. 11:25 samkvæmt stundaskrá. Sigurður Hlynur Sigurðsson, annar tveggja áfangastjóra VMA, segir að 1062 stundatöflur verði afhentar í dag sem segir þá til um nemendafjölda í skólanum á vorönn.

Það er í höndum áfangastjóranna að setja saman stundatöflur fyrir hverja önn og eins og nærri má geta er það ekki hrist fram úr erminni, enda skólinn einn af stærstu framhaldsskólum landsins og námsframboðið mikið. Í það heila verður 291 áfangi kenndur á vorönn.

Eins og alltaf er verða töluvert færri nemendur á vorönn en á haustönn. Inn í þessa jöfnu kemur m.a. brottfall sem var með meira móti á liðinni haustönn en það segja áfangastjórar VMA að megi m.a. tengja við betra atvinnuástand í samfélaginu en var fyrstu árin eftir bankahrunið.

Núna í upphafi vorannar eru skráðir 128 nýnemar. Í dag verður kynningarfundur fyrir þá kl. 10:30 til 11:00 í Miðgarði.  Nýnemar eru hvattir til þess að mæta á þann fund til þess að fá nauðsynlegar upplýsingar.

Sem fyrr segir fá nemendur stundaskrár sínar afhentar í dag. Eins og gengur er alltaf eitthvað um breytingar á stundaskrám nemenda. Útskriftarnemar – þ.e. þeir nemendur sem hyggjast útskrifast í vor – hafa forgang með stundatöflubreytingar. En öllum öðrum breytingum verður að vera lokið til og með nk. föstudegi. Þeim nemendum sem óska eftir breytingum á stundatöflum sínum er bent á að hafa samband við kennslustjóra – sjá hér skrá yfir þá. Athugið að í stað Ragnheiðar Þórsdóttur, kennslustjóra á listnámsbraut, sem er í veikindaleyfi, er nemendum á listnámsbraut bent á að hafa samband við Veronique Legros eða Sólveigu Þóru Jónsdóttur, kennara á listnámsbraut. Sigurður áfangastjóri segir að til 16. janúar nk. geti nemendur sagt sig úr áföngum án viðurlaga.

Sem fyrr er námsframboð afar fjölbreytt á vorönn. Á önninni verður í fyrsta skipti boðið upp á hönnunarnámskeið og þar verður m.a. notast við nýja og fullkomna tölvu sem skólinn fékk að gjöf frá Hollvinasamtökum VMA í tengslum við 30 ára afmæli skólans á sl. ári. Óhætt er að segja að mikill áhugi sé á þessu námskeiði því um 40 nemendur eru skráðir á það.