Fara í efni

105 ára fullveldi fagnað

Í dag, 1. desember 2023, eru 105 ár liðin frá því að Íslendingar náðu samningum við Dani um fullveldi Íslands með konungssambandi við Danmörku. Þar með var einum af mikilvægasta þætti í sjálfstæðisbaráttu Íslands náð. Í þessu fólst líka samningsbundinn réttur þjóðarinnar til að segja upp sambandinu við Dani að aldarfjórðungi liðnum. Og það var gert rúmlega aldarfjórðungi síðar, árið 1944, með stofnun lýðveldis.

Það má sannarlega halda því fram að 1. desember sé ekki ómerkari dagur í sögu þjóðarinnar en þjóðhátíðardagurinn 17. júní. Og það má til sanns vegar færa. Þann 1. desember 1918 voru línurnar lagðar, stóra skrefið var tekið í átt til endanlegs sjálfstæðis. Það vantaði aðeins punktinn yfir i-ið með lýðveldistökunni 1944.

Lengi vel var fullveldi Íslands fagnað þann 1. desember á ýmsan hátt í landinu en minna ber á því á síðari árum. En VMA vill halda deginum á lofti og því klæðast starfsmenn og nemendur betri fötunum í tilefni dagsins.

Gleðilegan fullveldisdag!