Fara í efni

1029 nemendur í dagskóla – skráning í fjarnám stendur yfir

Stundatöflur afhentar í Gryfjunni í gær.
Stundatöflur afhentar í Gryfjunni í gær.

Kennsla á vorönn hefst samkvæmt stundaskrá í dag, miðvikudaginn 6. janúar. Við upphaf vorannar eru skráðir nemendur í dagskóla 1029, sem er ríflega hundrað nemendum færra en hófu nám sl. haust í VMA, en jafnan eru töluvert færri nemendur á vorönn en haustönn. Skráning í fjarnám VMA stendur yfir og að sögn Baldvins B. Ringsted, sviðsstjóra verk- og fjarnáms, lýkur henni nk. laugardag, 9. janúar.

Um hundrað nemendur hafa af ýmsum ástæðum horfið frá námi frá því í byrjun haustannar og um jólin voru brautskráðir 111 nemendur. Hins vegar koma nú inn um 110 nýir nemendur og þeir sem eru að koma aftur í skólann eftir hlé á námi og að öllu samanlögðu eru ríflega hundrað færri nemendur núna í upphafi vorannar en þegar kennsla hófst sl. haust. Sem fyrr eru margar af verknámsdeildum skólans þétt setnar. Þetta á til dæmis við um rafiðnaðardeild, vélstjórn og grunndeild málmiðnaðar. Sömuleiðis er vel bókað í byggingadeild.

Eins og jafnan í aðdraganda nýrrar annar hafa áfangastjórarnir Benedikt Barðason og Sigurður Hlynur Sigurðsson haft nóg að gera síðusta daga, raunar alveg síðan fyrir jól, við að púsla saman stundaskrá allra nemenda í dagskóla. Eðli málsins samkvæmt útbjuggu þeir stundaskrá fyrir hvern og einn nemanda í dagskóla, samkvæmt 1029 stundaskrár, sem voru afhentar í gær.

Varðandi mögulegar töflubreytingar fara nemendur til sviðsstjóra og sækja um breytingar (gult blað) og/eða tilkynna úrsagnir (appelsínugult blað) skriflega hjá þeim. Farið verður yfir umsóknir um töflubreytingar daglega og þeim hafnað eða þær samþykktar eftir atvikum og nemendum gerð grein fyrir niðurstöðum í tölvupósti. 
Opið verður fyrir töflubreytingar í dag og á morgun, fimmtudag, kl. 09:00 til kl. 15:30 báða dagana. Nemendur eru beðnir um að kynna sér vel leiðbeiningar um töflubreytingar sem hanga uppi í Gryfjunni og við skrifstofuna og koma undirbúnir til sviðsstjóra. 
Útskriftarnemar fara einnig til sviðsstjóra en þurfa ekki að skila inn skriflegum beiðnum heldur munu fá úrlausn sinna mála á staðnum.