Fara í efni

"Skipulögð óreiða" Styrmis Þórs

Styrmir Þór Sævarsson við
Styrmir Þór Sævarsson við
Eskfirðingurinn Styrmir Þór Sævarsson á mynd vikunnar að þessu sinni. Hann lauk námi af myndlistarkjörsviði listnámsbrautar VMA í desember sl. en er nú starfsmaður Hamborgarafabrikkunnar á Akureyri.

Eskfirðingurinn Styrmir Þór Sævarsson á mynd vikunnar að þessu sinni. Hann lauk námi af myndlistarkjörsviði listnámsbrautar VMA í desember sl. en er nú starfsmaður Hamborgarafabrikkunnar á Akureyri.

„Þegar ég kom hingað í VMA var ég ekki með mótaðar hugmyndir um hvað ég ætlaði að læra. Ég hafði alltaf verið góður í og haft áhuga á að teikna og því varð úr að ég ákvað að fara á listnámsbrautina. Þetta var mjög skemmtilegt nám en það er hins vegar spurning hvort ég held áfram á þessari braut eða fer í eitthvað allt annað. Ég er óráðinn í því og á meðan svo er held ég áfram að vinna. Ég kann vinnunni á Hamborgarafabrikkunni ágætlega en það er kannski ekki hægt að segja að það sé draumastarf til framtíðar að steikja hamborgara.“

Málverkið sem Styrmir Þór sýnir nú við austurinngang VMA nefnir hann „Skipulögð óreiða“ Þetta er akrílverk sem hann segir að sé í raun hans fyrsta málverk því hann hafi fyrst og fremst haft áhuga á því að teikna. „Ég hafði fyrst og fremst verið að teikna andlitsmyndir og myndir af fólki og því langaði mig í þessu málverki að gera eitthvað allt öðruvísi. Í þessu verki er ég að vinna með ýmis mynstur. Ég vann þetta út frá skissum sem ég gerði í öðrum áfanga. Þó svo að formunum virðist vera hér raðað óskipulega saman er þó heilmikil pæling á bak við þetta. Ég vann eitt form eða mynstur í einu og raðaði þessu síðan saman á ákveðinn hátt,“ segir Styrmir Þór Sævarsson.