Fara í efni

Sitt lítið af allskonar brauðstriti

Finnur Arnar Arnarson, myndlistarmaður, flytur fyrirlestur sem hann kallar „Sitt lítið af allskonar brauðstriti“ í Ketilhúsinu í dag, föstudaginn 27. september, kl. 15:00. Fyrirlesturinn er á vegum listnámsbrautar VMA og Sjónlistamiðstöðvarinnar. Fyrirlesturinn er annar af fjórum á haustdögum og er hluti af fyrirlestraröð listnámsbrautar VMA og Sjónlistamistöðvarinnar. Aðgangur á fyrirlesturinn er ókeypis og eru allir velkomnir

Finnur Arnar Arnarson, myndlistarmaður, flytur fyrirlestur sem hann kallar „Sitt lítið af allskonar brauðstriti“ í Ketilhúsinu í dag, föstudaginn 27. september, kl. 15:00. Fyrirlesturinn er á vegum listnámsbrautar VMA og Sjónlistamiðstöðvarinnar. Fyrirlesturinn er annar af fjórum á haustdögum og er hluti af fyrirlestraröð listnámsbrautar VMA og Sjónlistamistöðvarinnar.  Aðgangur á fyrirlesturinn er ókeypis og eru allir velkomnir

Í erindi sínu í dag fjallar Finnur um myndlistina og ýmsar aukaverkanir hennar á líf myndlistarmannsins en hann hefur um árabil gert hið hversdagslega að grundvelli listsköpunar sem hann hefur birt í margvíslegu formi s.s. ljósmyndum, innsetningum og í myndbandsverkum. Í nokkrum þeirra hefur hann fjallað um einmanalega og jafnvel örvæntingarfulla tilvist karlmannsins í samtímanum. Í þeim hefur hann sett sjálfan sig í hversdagslegar aðstæður, sem við fyrstu sýn kunna að virðast lítt áhugaverðar, en reynast við nánari skoðun þrungnar spennu og drunga, sem karlmaðurinn ræður illa við. 

Finnur Arnar sýndi í Listasafniu á Akureyri ásamt vini sínum og kollega Þórarni Blöndal í mars 2013 og nefndu þeir sýninguna "Samhengi hlutanna".

Í pistli um sýninguna segir Jóhann S. Bogason: Finnur Arnar sýnir hér nokkur verk sem geta hvert og eitt staðið ein og lifað sínu lífi, en eiga þó í innilegu og nánu samtali. Viðfangsefni sín sækir hann í hversdagslega reynslu sína og setur afraksturinn fram á hógværan og lágstemdan máta. Hér er ekki stokkið fram með hrópum og köllum, né er heldur notast við æpandi liti eða sláandi texta. En viðfangsefni Finns eru allt annað en léttúðleg, því þau varða meginstef í okkar tilvistarlegu vegferð; líf og dauða, sköpun og tortímingu og hinn hverfula tíma sem heldur okkur öllum í ósýnilegum greipum. 

Um sömu sýningu fjallar Guðrún Pálína Guðmundsdóttir á vef Listasafns Akureyrar og í Akureyri vikublaði og segir sérstöðu Finns Arnars í íslenskri myndlist, alla vega meðal karlkyns myndlistarmanna, m.a. byggja á því að hann noti lífshlaup sitt og tilfinningar sem grunn að eigin verkum. Samvinna hans og eiginkonu hans, Áslaugar Thorlacius, og barna þeirra sé einstök á Íslandi, en þau stóðu fyrir eftirminnilegri sýningu í Listasafni ASÍ, 2010.