Fara í efni

"Móðir jörð" Þórðar Indriða

Þórður Indriði Björnsson við mynd sína.
Þórður Indriði Björnsson við mynd sína.
„Móðir jörð“ er heiti á akrílmynd sem Þórður Indriði Björnsson, nemandi á listnámsbraut, gerði í myndlistaráfanganum MYL 504 á haustönn og nú hefur verið hengd upp á vegg við austurinngang skólans. „Móðir jörð“ er mynd vikunnar.

„Móðir jörð“ er heiti á akrílmynd sem Þórður Indriði Björnsson, nemandi á listnámsbraut, gerði í myndlistaráfanganum MYL 504 á haustönn og nú hefur verið hengd upp á vegg við austurinngang skólans. „Móðir jörð“ er mynd vikunnar.

Þórður Indriði er fæddur og uppalinn á Skagaströnd. Hann segist hafa haft brennandi áhuga á að teikna og skapa hitt og þetta frá því hann man eftir sér. Hann sökkti sér um tíma inn í tölvuheiminn og tókst á við grafíska hönnun og tók að sér strax tólf ára gamall ýmis verkefni fyrir hina og þessa í þeim geira. Sá listræni áhugi sem svífur yfir vötnum á Skagaströnd varð ekki til að draga úr áhuga Þórðar á myndlist því þar hefur um nokkurra ára skeið verið starfrækt listamiðstöð þar sem m.a. erlendir listamenn dvelja tímabundin og vinna að list sinni. Í dag er hann 21 árs gamall og hefur nú þegar haldið tvær einkasýningar á verkum sínum í sínum heimabæ og einnig hefur hann tekið þátt í samsýningum. Til þessa hefur Þórður Indriði fyrst og fremst málað olíuverk og raunar er „Móðir jörð“ fyrsta akrílverkið hans.

En myndlistin er ekki eina listformið sem Þórður Indriði hefur tileinkað sér. Hann hefur einnig fengist við að semja og flytja tónlist og sömuleiðis skrifað. Án þess að upplýsa of mikið segist hann núna vera að skrifa sálfræðitrylli á ensku.  Ekki vill hann kannast við að listamannsgenin megi rekja til forfeðranna, að öðru leyti en því að skáldkonan Guðrún frá Lundi sé langalangamma hans.

Í myndum sínum segist Þórður Indriði oft vera að vinna með eilítið brenglaðar verur þar sem komi við sögu bæði þjáning og tjáning. Hann orðar það svo að það rói sig að munda pensilinn og mála. Hann upplýsir og segir það síður en svo leyndarmál að hann hafi nýverið greinst með geðhvarfasýki. Á vissan hátt hafi greiningin verið honum léttir því nú sjái hann síðustu ár í nýju ljósi og frá því að hann hafi fengið þessa greiningu hafi honum gengið betur að skipuleggja sig og einbeita sér að náminu en áður.

Þórður stefnir á að ljúka náminu í VMA um næstu jól en eftir það er allt óráðið. Framhald í myndlist eða margmiðlun komi til greina, en of snemmt sé að gera áætlanir um slíkt á þessu stigi málsins.