Fara í efni

"Kóngur" er drykkurinn!

Með kórónu á höfði að kynna Kónginn í Gryfjunni.
Með kórónu á höfði að kynna Kónginn í Gryfjunni.

„Kóngur“  er heiti á drykk sem hópur nemenda í áfanga í frumkvöðlafræði ákvað að búa til, markaðssetja og selja. Um er að ræða heilsusamlegan ávaxtadrykk sem inniheldur nýkreista ávexti; ananas, sítrónur, appelsínur, trönuber, sellerí og myntu og er honum ætlað að „hafa bragðbætandi áhrif á safa líkamans“, eins og segir í bæklingi sem nemendurnir hafa tekið saman um drykkinn.  Til þess að hámarka virkni „Kóngs“ segja framleiðendur æskilegt að sniðganga rautt kjöt, kaffi, reykingar, mjólkurvörur og bjór.

Í bæklingnum segir að markmiðið með þessum áfanga í frumkvöðlafræði sé að öðlast þekkingu og reynslu til að stofna sitt eigið fyrirtæki. Nemendur komi með hugmyndir að vöru eða þjónustu, vinni úr þeim, komi rekstrinum í gang, hanni, framleiði og markaðssetji endanlega vöru og í lokin geri þau upp reksturinn.

Haukur Smári Gíslason er einn ellefumenninganna sem standa að „Kóngi“. Hann er nemandi á viðskipta- og hagfræðibraut VMA.
„Þetta er auðvitað alveg bráðhollur drykkur en hann er jafnframt rándýr í framleiðslu. Við fengum flöskurnar og átöppunina gefins hjá bjórverksmiðjunni Kalda á Árskógsströnd en vegna þess hversu dýrt hráefnið er þurfum við að selja flöskuna á 500 krónur sem er of hátt verð.  
Ég segi fyrir mig að þetta verkefni hefur sannarlega farið í reynslubankann og er sá áfangi hér í VMA og í Versló, þar sem ég var tvo síðastliðna vetur, sem ég hef lært mest. Að stofna fyrirtæki og vinna svona náið með öðrum er töluvert erfiðara en ég hafði gert mér grein fyrir. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt og lærdómsríkt ferli og það er auðvitað megin tilgangurinn með þessu öllu,“ segir Haukur Smári.

Hér má sjá fleiri myndir sem tengjast „Kóngi“.

Eins og greint var frá hér á heimasíðunni sl. miðvikudag vann hinn helmingur nemendanna í áfanganum að þróun apps og vefsíðunnar www.launi.is.

Sjónvarpsstöðin N4 fjallaði um bæði þessi verkefni í vikunni og einnig er þar viðtal við kennarann í áfanganum, Helgu Ragnheiði Jósepsdóttur.