Fara í efni

Vel heppnað Evrópuverkefni í VMA

Þátttakendur í verkefninu voru frá sex löndum.
Þátttakendur í verkefninu voru frá sex löndum.

Í dag, föstudaginn 27. maí, lauk Erasmus + verkefninu ElEcoTeam í VMA. Í því, sem í stórum dráttum tekur til sjálfbærni, samvinnu og tækni, taka nemendur og kennarar rafdeildar VMA þátt en einnig voru þátttakendur frá Hollandi, Spáni (Kanaríeyjum), Ungverjalandi, Tyrklandi og Slóveníu. Fulltrúar þátttökuþjóðanna hafa í samvinnu kennara og nemenda unnið frá sl. mánudegi að fjórum áhugaverðum tæknilausnum þar sem sjálfbærnin er höfð að leiðarljósi. Í dag lauk verkefninu með formlegum hætti í Gryfjunni og afrakstur vinnunnar var sýndur. Þessu verkefni, sem er viðamikið og afar áhugavert, er stýrt af VMA.

Allar þátttökuþjóðirnar verða sóttar heim. Fyrsti hluti verkefnisins var í Tyrklandi í mars sl., nú lauk öðrum hluta í VMA og sá þriðji verður í haust á Kanaríeyjum. Þangað fara fulltrúar nemenda og kennarar rafdeildar. Síðar verða sambærilegir endurfundir í Hollandi, Ungverjalandi og Slóveníu.

Vitaskuld er í afar mörg horn að líta við skipulagningu slíks verkefnis en hún var fyrst og fremst í höndum kennara rafdeildar VMA og Dagnýjar Huldu Valbergsdóttur, sem heldur utan um erlend samskipti í VMA. Haukur Eiríksson, brautarstjóri rafdeildar, segir að undirbúningur fyrir þessa viku hafi hafist fyrir mörgum mánuðum.

Haukur segir að heimsóknin til Tyrklands núna á vorönn hafi auðveldað undirbúning þessa verkefnis í VMA. „Áður en við fórum til Tyrklands vorum við farnir að hugsa um hvaða verkefni við vildum að yrðu unnin hérna og við sendum síðan verkefnalýsingar út með góðum fyrirvara. Þegar upp er staðið teljum við að vel hafi tekist til með verkefnavalið og bæði nemendum og kennurum hafi þótt þau vera áhugaverð. Við erum ánægð með það,“ segir Haukur.

Verkefnin sem nemendurnir unnu þessa daga í VMA eru:

1. Smart Hydroponic system: Arduino, programming, electronics .
(Sjálfbær ræktun í vatni, stýrð með smátölvu og snjallbúnaði).

2. Smart control for a hot tub: IoT (Internet of Things)
(Snjallstýring /raddstýring á heitum potti til orkusparnaðar).

3. Peltier modules as power source : Electronics, research and design.
(Rannsókn á notkun Peltier eininga sem aflgjafa, hitastraumur býr til rafmagn).

4. Cone machine, tree seed extractor: Recycle washing machine into “pine cones” seeds collector.
(Gamalli þvottavél breytt í könglafræsafnara).

Að hverju verkefni unnu 6-8 nemendur, einn til tveir frá hverju þátttökulandi. Vinnan hófst sl. mánudag og punkturinn yfir i-ið var settur með kynningu á lokaverkefnunum í dag. Síðastliðinn miðvikudag fóru þátttakendur í náttúruskoðunarferð austur í Aðaldal og Mývatnssveit. Farið var í Laxárvirkjun og Kröfluvirkun og skoðaðir áhugaverðir staðir í Mývatnssveit. Deginum lauk að sjálfsögðu í Jarðböðunum.

„Markmiðið hjá okkur var að hafa vinnuna ekki of stífa og formfasta en leggja áherslu á samtalið milli nemenda og kennara. Í gær, á uppstigningardag, vorum við með fyrirlestra um hvað við erum að gera í okkar kennslu í rafdeildinni í VMA með því m.a. að sýna ólík verkefni sem við leggjum fyrir nemendur. Það urðu heilmiklar og skemmtilegar umræður út frá þessu og þátttökulöndin deildu hugmyndum og reynslu úr sínu skólaumhverfi. Það er mjög mikilvægt í svona verkefni,“ segir Haukur.

En hver er stærsti ávinningurinn fyrir VMA að taka þátt í slíku Erasmus + Evrópuverkefni? Haukur segir það mikla og góða reynslu fyrir kennara í rafdeildinni að undirbúa og skipuleggja slíka vinnuviku. „Og fyrir nemendur okkar er ómetanlegt að fá tækifæri til þess að starfa að verkefnum með jafnöldrum sínum frá öðrum löndum sem hafa annan bakgrunn og menningu. Ef við horfum á þetta verkefni eru m.a. þátttakendur frá Tyrklandi, austasta hluta Evrópu og frá Íslandi og Kanaríeyjum, vestasta hluta álfunnar. Svona verkefni skapar tengsl milli kennara þátttökuþjóðanna og það sama á við um nemendur,“ segir Haukur.

Tæplega 40 manns komu til Akureyrar frá hinum fimm þátttökuþjóðunum. Rafiðnaðarsambandið lagði verkefninu lið með myndarlegum hætti með því að láta nokkrum þátttökuþjóðanna í té orlofsíbúðir á meðan á dvölinni stóð á Akureyri.