Fara í efni

Taka þessa viku þátt í Ready for the World í Harderwijk

Hópurinn sem er í Harderwijk í Hollandi þessa viku
Hópurinn sem er í Harderwijk í Hollandi þessa viku

Þessa viku eru fjórtán nemendur VMA ásamt kennurunum Valgerði Dögg Jónsdóttur, Jóhannesi Árnasyni og Bryndísi Indu Stefánsdóttur í Morgen College í Harderwijk í Hollandi til þess að taka þátt í Erasmus+ verkefninu Ready for the World. Þriðji skólinn í verkefninu er Randers Social- og sunhedsskole í samnefndri borg á Jótlandi í Danmörku. Nú þegar hafa nemendur og kennarar hist einu sinni, það var í Randers í nóvember á síðasta ári, og annar hluti verkefnisins er þessa viku í Harderwijk í Hollandi.

Í Ready for the World er horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og skoða nemendur skólanna þriggja frá ólíkum sjónarhornum sín samfélög með það að leiðarljósi að leggja fólki lið á ýmsan hátt. Dregin eru fram sérkenni landanna þriggja í þessum efnum.

Í september 2022 er von á nemendum og kennurum Morgen College og Randers Social- og sunhedsskole til Akureyrar og þá verður sjónum beint að íslenskri náttúru og kynnt hvernig við Íslendingar glímum við óblíð náttúruöflin. Kastljósinu verður m.a. beint að sjálfboðaliðastarfi björgunarsveitanna á Ísland,sem er óþekkt í hinum tveimur löndunum.