Fara í efni

Heimsókn frá Oppdal - Win-Win

Vikuna 9. - 13. apríl fékk VMA heimsókn frá hópi nemenda, kennara og íþróttaþjálfara frá skólanum í Oppdal í Noregi. Heimsóknin var í tengslum við Erasmus verkefnið „Vin-Vin“ en markmiðið með því verkefni er að bæta lýðheilsu með auknu samstarfi milli lýðheilsu- og/eða íþróttabrauta skólanna og annara aðila í nærsamfélaginu. Liður í því er að fara með nemendahópa í heimsóknir milli landanna í því skyni að nemendur fái að kynnast mismunandi aðstæðum til hreyfingar og iðkunar íþrótta. Áherslan í verkefninu í skólunum í Noregi og Danmörku er á útivist og útiveru en hér á Akureyri er þemað knattspyrna og um hana er VMA í samstarfi við KA. 

Frá Oppdal videregåenda skole komu ellefu nemendur til Akureyrar auk tveggja kennara/þjálfara við skólann og skólastjóra skólans og einnig eru í hópnum tveir þjálfarar frá íþróttafélaginu í Oppdal. Í þessum skóla í Noregi geta nemendur stundað nám á íþróttabraut og þar er mesta áherslan á alpagreinar skíðaíþrótta en einnig knattspyrnu og útiveru almennt. Nemendurnir frá Oppdal sem komu til Akureyrar hafa valið knattspyrnu í námi sínu og áherslan í heimsókninni er því knattspyrna. Nemendur og þjálfarar fóru á æfingar í 2. flokki kk hjá KA og á æfingar hjá Þór/KA. Auk knattspyrnunnar fengu nemendur tækifæri til þess að fara á hestskap, fara í sund og í náttúruskoðunarferð í Mývatnssveit. 

Nemendur af íþrótta- og lýðheilsubraut VMA munu í september nk. fara í heimsóknir til Oppdal og Fjerritslev.