Fara í efni

Að ná árangri í námi

Góðir námshæfileikar auðvelda nemendum að ná settu marki í námi sínu og ósjaldan heyrast þær raddir að námsárangur sé fyrst og fremst háður meðfæddri greind og því sé ekkert við því að gera ef einkunnirnar eru ekki viðeigandi.  Það er hins vegar svo að greindin er hér alls ekki eini úrslitaþátturinn.  Rannsóknir hafa sýnt að fjölmargir þættir hafa þarna áhrif og nemandinn getur haft marga þeirra á valdi sínu leggi hann sig fram við að tileinka sér þá.

Lífsstíll. Í námi skiptir heilbrigður lífsstíll miklu máli  og eru fjórir mikilvægustu þættirnir; svefn, hugarfar, hreyfing og næring.  

Svefn. Mikilvægt er að ná svefnþörfinni sem er 7-9 stundir á sólarhring  en einnig þarf að huga að því að svefnvenjurnar séu reglulegar - háttatími og fótaferðatími eiga ekki að breytast mikið frá degi til dags.

Næring. Morgunmaturinn er ein mikilvægasta máltíð dagsins og prótín og kolvetnaríkur morgunmatur er það sem námsmaðurinn þarf.  Eftir það þarf að hafa í huga að nærast jafnt og þétt í hófi yfir daginn og borða sitt lítið af hverju úr öllum fæðuflokkum. 

Hreyfing: regluleg hreyfing skapar hið mikilvæga jafnvægi hugar og líkama og hún þarf ekki að vera flókin; t.d.  gönguferðir, sund, skokk, hjólreiðar  eða línuskautar.

Hugarfar - jákvætt hugarfar og jákvæðar innri samræður stuðla að tilfinningalegu jafnvægi sem er ein megin forsenda einbeitingar. Mikilvægt er að hver og einn geri sér grein fyrir neikvæðum eigin hugsunum og samræðum og reyni að útiloka þær. 

 

Munum að gera ekki sjálfum okkur það sem við gerum ekki öðrum. 

Ef við höfum þetta í huga stuðlum við að jákvæðum innri samræðum.

 

 Námsvenjur

Námsvenjur eru nátengdar tímaskipulagi og felast í stórum dráttum í því að skipuleggja vinnu sínu vel.  Undirbúa sig fyrir kennslustundir næsta dags; frágangur og úrsvinnsla á glósum  úr kennslustundum þann daginn; ýtarlegur lestur í einstökum greinum, tímastjórnun og ræktun holls lífsstíls.  Töfratæki námsvenjanna er svo upprifjunin.  Rannsóknir hafa sýnt að  eftir fjóra mánuði munum við aðeins 5% af því  sem við erum að læra núna ef við lítum ekki á það aftur.  Hins vegar getum við munað allt að 80% ef við rifjum upp reglulega stutta stund í einu.

Þáttur foreldra

Með hækkuðum sjálfræðisaldri hafa tækifæri foreldra til að fylgjast með námi barna sinna aukist.  Þeir fá sendar heim upplýsingar um mætingu og ástundun á miðri önn og í lok annar.  Einnig geta þeir fengið aðgang að Innu, upplýsingakerfi framhaldsskólanna og fylgst þar með mætingu barna sinna.   Rannsóknir hafa sýnt að stuðningur foreldra getur skipt sköpum  og eru þar sérstaklega eftirtaldir þættir sem skipta máli; námslegur stuðningur foreldra sem og leiðbeiningar þeirra og væntingar.

Ástundun og mætingar

Undirstöður góðs námsárangurs eru svo mætingarnar og ástundunin.  Skólanámið í framhaldsskóla er um 70% af námstíma nemenda og sterkt samband er á milli mætinga og námsárangurs. Því má segja að einfaldasta leiðin til að bæta námsárangur er að mæta vel og vera virkur í kennslustundum.

Yfirfarið 07. september 2018(SHM)

Getum við bætt efni síðunnar?