Fara í efni

Umsjón og samstarf við heimili

Móttaka nýrra nemenda

Öllum umsóknum um skólavist er svarað skriflega með upplýsingum um skólabyrjun og greiðslu innritunargjalds. Nýnemar fá auk þess upplýsingar um skólareglur. Stundaskrár eru afhentar í skólanum degi áður en kennsla hefst og þá þarf um leið að greiða efnisgjöld fyrir verklega áfanga. Nýnemar fá þá kort af skólanum og kynningarritið Snotru sem hefur að geyma ýmsar upplýsingar um skólann og skólabyrjun.

Á fyrsta skóladegi mæta nýnemar á fund í Gryfjunni þar sem skólameistari tekur á móti þeim. Að því loknu taka umsjónarkennarar við sínum hópum, sýna nemendum skólann, útskýra stundatöflur og fara yfir skólareglur áður en nemendur fara í  fyrstu kennslustundirnar í VMA.

Í fyrstu skólaviku kynnir nemendafélagið Þórduna sitt starf á ýmsan máta. Nýnemar eru teknir inn í skólasamfélagið með einhverjum kvöðum og sprelli sem nær hámarki á busunardegi. Lögð er áhersla á að þetta er til gamans gert og viðfangsefni eiga að vera innan þeirra marka að allir haldi virðingu sinni og góðri líðan! 

Umsjón

Allir kennarar eru umsjónarkennarar. Hlutverk umsjónarkennara er að vera nemendum innan handar um allt er lýtur að skólastarfinu. Nemendur eiga að geta leitað til umsjónarkennara með mál sem tengjast náminu, bæði fagleg mál og fyrirspurnir um skipulag námsbrauta og námsgreina. Til þess að sinna þessu hlutverki sínu hafa allir kennarar auglýsta viðtalstíma. Auk þess taka þeir þátt í aðstoð sem veitt er nemendum vegna námsvals á hverri önn.

Nemendur á fyrsta ári njóta sérstakrar umsjónar. Þeir eru í lífsleikniáfanga einu sinni til tvisvar í viku (misjafnt eftir brautum). Kennarar í lífsleikni eru jafnframt umsjónarkennarar. Þeir fylgjast grannt með líðan og námsstöðu sinna umsjónarnemenda sem og mætingum þeirra og aðstoða þá við námsval fyrir næstu önn. Einu sinni á önn boða þeir nemendur í einstaklingsviðtöl og hafa einnig a.m.k. einu sinni á önn símasamband við heimili þeirra. Auk þessa geta bæði nemendur og foreldrar þeirra leitað til umsjónarkennara með sín mál í viðtalstímum þeirra.

Í byrjun haustannar eru foreldrar nýnema boðaðir á kynningar- og upplýsingafund í skólanum. Fundurinn er haldinn að kvöldi og boðaður í bréfi til foreldra. Á þessum fundi eru stjórnendur skólans, kennslustjórar, námsráðgjafar og forvarnarfulltrúi auk umsjónarkennara. Auk þessa er sent bréf heim til allra nýnema með upplýsingum um viðtalstíma umsjónarkennara, kennslustjóra og annarra stjórnenda skólans. Foreldrar eru hvattir til að nýta sér þessa viðtalstíma og hafa samband við skólann að fyrra bragði.

Önnur umsjón - kennslustjórn

Þeir nemendur sem hafa lokið lífsleikniáföngum eru í umsjón hjá brautarstjórum eða kennslustjórum sínum. Nemendur geta auk þess leitað til kennara með sín mál og jafnframt til kennslustjóra á sinni braut sem hefur yfirumsjón með þeirra námi. Ennfremur geta þeir snúið sér til námsráðgjafa og /eða skólastjórnenda ef þeir svo kjósa. Foreldrar nemenda geta einnig leitað til allra þessara aðila vegna sinna barna. Ef nemandi er orðinn sjálfráða - 18 ára - er skólanum óheimilt að veita foreldrum upplýsingar nema með leyfi nemandans.

Upplýsingar til nemenda

Verkmenntaskólinn notar ýmsar leiðir til að koma upplýsingum til nemenda. Nýnemar fá upplýsingabæklinginn Snotru og námsvísi auk leiðbeininga frá umsjónarkennurum. Aftan á stundaskrám allra nemenda eru upplýsingar sem nauðsynlegt er að kynna sér. Á göngum skólans eru tilkynningatöflur þar sem hengdar eru upp auglýsingar, sömuleiðis er sjónvarpsskjár í Gryfjunni, við Norðurgang og Vesturinngang með tilkynningum. Kallkerfi er í öllum stofum sem skólameistari notar til að koma á framfæri áríðandi upplýsingum. Á heimasíðunni, vma.is, birtast fréttir úr skólastarfinu auk þess sem hún veitir aðgang að öllum upplýsingum um skólann og námið. Próftöflu yfir jóla- og vorpróf er dreift til nemenda og aftan á henni eru nauðsynlegar upplýsingar varðandi próftöku og einkunnaskil. Auk þessa eru reglulegir fundir með skólameistara í Gryfju og fundir vegna námsvals á hverri önn. Nemendur þurfa að fylgjast með þessum upplýsingaleiðum, kynna sér leiðbeiningar og reglur og virða þær.

Loks ber að nefna að einu sinni í mánuði boðar skólameistari alla nemendur á fund í Gryfjunni þar sem hann m.a. kemur á framfæri ýmsum upplýsingum um skólastarfið hverju sinni.

Upplýsingar til foreldra

Foreldrar nemenda undir 18 ára aldri eiga rétt á öllum upplýsingum varðandi skólagöngu barna sinna. Skólinn sendir upplýsingabréf í upphafi haustannar heim til nýnema og einnig eru foreldrar þeirra boðaðir á kynningarfund í skólanum. Þá eru foreldrar hvattir til að skoða þau upplýsingagögn sem nemendur fá í hendur.  Umsjónarkennarar fyrsta árs nema hafa a.m.k. einu sinni á önn samband við heimilin. Foreldrar eru hvattir til að nýta sér viðtalstíma kennara, umsjónarkennara og kennslustjóra til að ræða námsgengi barna sinna.

Skólinn sendir reglulega út fréttabréf til foreldra nemenda sem eru yngri en 18 ára. Foreldrar geta nálgast upplýsingar um námsgengi og mætingar barna sinna með því að nota Innu - upplýsingakerfi framhaldsskóla. Skólanum er ekki heimilt að veita foreldrum eða öðrum aðstandendum upplýsingar um námsgengi nemanda sem orðinn er 18 ára nema að fengnu samþykki nemandans.

Getum við bætt efni síðunnar?