-
Nemendur skulu sækja allar kennslustundir, mæta stundvíslega og undirbúnir, vera virkir og skila verkefnum á tilsettum tíma.
-
Kennari merkir við í upphafi kennslustundar. Komi nemandi eftir að nafnakalli er lokið telst hann koma of seint. Nemandi telst fjarverandi úr kennslustund ef hann kemur eftir að 15 mínútur eru liðnar af kennslustundinni. Sé nemandi fjarverandi í kennslustund hlýtur hann 1 fjarvistarstig. Komi nemandi of seint í kennslustund hlýtur hann ½ fjarvistarstig og fari nemandi án leyfis úr kennslustund áður en henni lýkur hlýtur hann 1 fjarvistarstig.
-
Svigrúm vegna fjarvista miðast við 80% mætingu á önninni. Það þýðir að ef nemandi er fjarverandi meira en 20% í áfanga á önninni telst hann hafa sagt sig frá námi í áfanganum. Veikindi eða önnur forföll ber að tilkynna, hvern dag sem þau standa, fyrir kl. 12:00 samdægurs, í gegnum Innu eða á skrifstofu skólans í síma 464-0300. Æskilegt er að forráðamenn tilkynni veikindi nemenda undir sjálfræðisaldri.
-
Veikindi teljast sem fjarvistir en undir ákveðnum kringumstæðum er heimilt að taka tillit til þeirra. Það er á ábyrgð nemenda að koma skýringum á fjarvistum (t.d. vottorðum vegna lengri veikinda) til sviðsstjóra.
Skólasóknarreglur - Vinnubrögð
Hlutverk kennara
-
Kennarar skrá viðveru í kennslustundum. Viðvera er jafnan skráð í Innu daglega.
-
Ef nemandi er fjarverandi úr kennslustund, merkir kennari við hann sem fjarverandi.
-
Kennarar fylgjast með fjarvistum nemenda sinna og upplýsa nemendur þegar fjarvistir þeirra eru að nálgast það hámark sem skólinn setur.
-
Kennarar gefa nemendum ekki leyfi úr tímum. Leyfi eru aðeins veitt af skólameistara/aðstoðarskólameistara og sviðsstjórum og þá skráð í Innu.
Hlutverk skráðs umsjónarkennara
-
Allir nemendur í dagskóla eru skráðir í umsjón. Nýnemar eru í umsjón hjá sérstökum umsjónarkennurum en aðrir nemendur hjá brautarstjórum og sviðsstjórum.
-
Það er hlutverk umsjónarkennara að fylgjast með mætingum umsjónarnemenda sinna og áminna þá ef þær eru ekki sem skyldi. Sviðsstjórar senda slíkar viðvaranir út á skráð netföng nemenda. Ef nemandi er yngri en 18 ára þá er það jafnframt hlutverk umsjónarkennara að hafa samband við forráðamenn ef ástæða er til.
Hlutverk nemenda
-
Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og þar með viðveru í kennslustundum. Þeir geta fylgst með stöðu sinni í Innu og eiga að þekkja þær reglur sem gilda um skólasókn.
-
Nemendum ber að tilkynna veikindi. Forráðamenn nemenda undir 18 ára og nemendur eldri en 18 ára geta skráð veikindatilkynningar í Innu eða símleiðis á skrifstofu skólans að morgni veikindadags.
-
Frávik frá skólasóknarreglum veitir ekki undanþágu frá námsmatsþáttum áfanga.
Meðferð og úrlausn mála, viðurlög
-
Sviðsstjóri sendir út viðvörun til nemanda í tölvupósti ef hann nálgast viðmið um fjarvistir. Forráðamenn nemenda yngri en 18 ára fá afrit af tölvupóstum. Ef nemandi er kominn fram úr viðmiðum sendir sviðstjóri aðra viðvörun til nemanda um yfirvofandi úrsögn fáist ekki skýringar á fjarvistum. Nemanda býðst að koma til sviðstjóra til að fara yfir stöðuna og skoða hvort nemandinn getur lagt fram gögn/skýringar á fjarvistum sínum. Ef nemandi sinnir ekki þessari boðun er litið svo á að hann hafi engar skýringar á fjarvistum sínum og honum vísað úr áfanga/skóla.
-
Ef fullnægjandi skýringar liggja fyrir getur nemandinn fengið heimild til áframhaldandi setu í áfanganum með ströngum skilyrðum um mætingar til loka annar. Þessi ákvörðun er tekin í samráði við kennara í áfanganum.
Undanþága frá þessum reglum er yfirleitt ekki veitt og þá einungis af skólameistara /aðstoðarskólameistara eða sviðsstjórum.
Uppfært 31. október 2017 (AMJ).