Fara í efni  

Ýmis þjónusta

Ýmis þjónusta

Bókasafn

Bókasafnið er í vissum skilning samastaður nemenda og starfsfólks skólans. Fólk kemur í mismunandi erindagjörðum en safnið reynir að uppfylla þarfir þeirra sem þangað leita. Það er meginhlutverk safnsins og starfsfólks þess að hjálpa safngestum að nálgast þær upplýsingar sem vantar en jafnframt að skapa þessum aðilum góða aðstöðu til þess að vinna að verkefnum sem tengjast náminu.  Til þess að sinna þessu hlutverki er markvisst unnið að því að auka við safnkostinn, bæta aðstöðuna og styrkja tengsl við önnur bókasöfn á Akureyri og víðar.

Aðgangur að tölvum

Í skólanum eru þrjár kennslustofur þar sem tölvukennsla fer fram. Þetta eru stofur B02, B03 og B04. Þar að auki hafa nemendur aðgang að tölvum í vinnustofu á bókasafni sem og á göngum í B- og C-álmum. Allir nemendur fá aðgang að tölvukerfi skólans í upphafi skólavistar sinnar. Yfirleitt halda nemendur aðgangsorði sínu meðan þeir eru nemendur í skólanum en einstaka sinnum þarf þó að gera breytingar þar á. Aðgangsorð og lykilorð nýrra nemenda eru afhent í tölvu- og vélritunartímum í upphafi annar en eftir það á skrifstofu skólans.

Nemendur þurfa að snúa sér til kerfisstjóra skólans ef upp koma vandamál sem tengjast aðgangi að kerfinu.

Reglur um tölvunotkun hanga uppi í öllum tölvustofunum. Nemendur eru beðnir um að kynna sér þær vandlega.

Skrifstofa

Á skrifstofu skólans geta nemendur fengið upplýsingar um nánast allt sem lýtur að skólastarfinu. Þar geta þeir jafnframt fengið keyptar allar þær kennslubækur og ljósritað efni sem ekki er til sölu í bókabúðum. Starfsfólk skrifstofu tekur þátt í afhendingu stundataflna í upphafi annar, innheimtu þeirra gjalda sem nemendur þurfa að greiða, afgreiðslu aðgangsorða að tölvukerfi til nemenda og svo mætti lengi telja.

Skrifstofan er opin virka daga milli kl. 8:00 og 15:00

Vefsíða VMA

Á vefsíðu skólans geta nemendur nálgast almennar upplýsingar um námið og skólann. Þar er að finna upplýsingar um reglur, námsbrautir og áfanga, starfsfólk, bókasafn og nemendafélag svo eitthvað sé nefnt. Nemendur geta auk þess fengið þar aðgang að vefsíðum ýmissa áfanga, skoðað einkunnir sínar á prófatíma og skoðað námsferil sinn. Slóðin á vefsíðu skólans er http://vma.is.

Á hverjum morgni eru birtar á upplýsingavef skólans auglýsingar sem nýst gætu nemendum. Þar er t.a.m. að finna upplýsingar um það hvort kennsla fellur niður í einhverjum áföngum þann daginn. Upplýsingavefinn geta nemendur skoðað á sjónvarpsskjá í miðrýminu. Eins er hægt að skoða hann úr einkatölvum með því að fara í gegnum vefsíðu VMA eða með því að slá inn slóðina http://hjalti.vma.is

Inna - Upplýsingakerfi framhaldsskóla

Nemendur og forráðamenn þeirra hafa nú aðgang að þeim upplýsingum sem skráðar eru um þá í Innu. Með því að skoða þessar upplýsingar geta nemendur fylgst betur en áður með stöðu sinni í skólanum. Mætingar og fjarvistir nemenda, einkunnir á prófatíma og námsferill er meðal mikilvægra upplýsinga sem nemendur geta skoðað í Innunni þegar þeir þurfa á að halda. Aðgangur forráðamanna að þessum upplýsingum er ekki síður mikilvægur, sérstaklega að skráningum á mætingum og fjarvistum.

Getum við bætt efni síðunnar?

VERKMENNTASKÓLINN Á AKUREYRI

Skrifstofa VMA er opin mánudaga til fimmtudaga frá kl. 08:15-12:10 og frá 12:30-15:00. Á föstudögum er opið frá kl 08:15-13:00.