Fara í efni

VMA í evrópsku samstarfsverkefni um að minnka brottfall úr skólum

Fulltrúar skólanna sex í brottfallsverkefninu.
Fulltrúar skólanna sex í brottfallsverkefninu.

VMA er þátttakandi í Erasmus+ verkefni sem nefnist  „Completing secondary education“ og var fyrsti fundur í verkefninu í Axxell framhaldsskólanum í Helsinki í Finnlandi í síðustu viku. Fulltrúar VMA á fundinum voru Sigríður Huld Jónsdóttir aðstoðarskólameistari, Benedikt Barðason áfangastjóri og Ásdís Birgisdóttir námsráðgjafi. Megin áhersla í verkefninu er að finna leiðir til þess að minnka brottfall úr skólum með því  m.a. að skólarnir skiptist á hugmyndum og miðli reynslu sinni milli landa.

Auk VMA taka þátt í þessu verkefni fimm framhaldsskólar í jafnmörgum löndum. Þetta eru:

Charlottenlund í Þrándheimi í Noregi sem er með bæði bók- og verknám og er á margan hátt líkur VMA.
Richards Riemerschmid í Köld í Þýskalandi er verknámsskóli.
Axxell er einn af stærstu verknámskólum Finnlands og er hann fyrir sænskumælandi nemendur. Skólinn er dreifður um allt Finnland – tíu starfsstöðvar í átta sveitarfélögum.
Noorderpoort í Groningen í Hollandi er í senn verknámsskóli, fullorðinsfræðsla og nýbúaskóli.
Tech College Aalborg í Danmörku er einn af stærstu verk- og tækninámsskólum þar í landi.

Margt er líkt með þessum skólum en áherslurnar eru þó mismunandi. Flestir skólanna hafa stúdentsleiðir sem framhald af verknámi en VMA er eini skólinn af þessum sex verkmenntaskólum sem er með stúdentspróf sem undirbúning fyrir akademískt nám í háskóla. Hinir skólarnir eru með áherslu á undirbúning fyrir tækninám eða framhald í viðkomandi iðngrein.

Þetta viðamikla verkefni mun standa út árið 2016 og lýkur með ráðstefnu sem verður í Noregi en hún hefur ekki verið nákvæmlega tímasett. Gert er ráð fyrir sex fundum þar sem fulltrúar skólanna hittist, einum í hverju landi. Næsti samráðsfundur verður haldinn hér í VMA um miðjan apríl á næsta ári.

Sigríður Huld aðstoðarskólameistari segist binda miklar vonir við verkefnið og fyrstu skref þess gefi góð fyrirheit um framhaldið. Hún segir erfitt að segja til um hvað út úr þessari vinnu komi en afar mikilvægt sé fyrir alla skólana sem taka þátt í verkefninu að skiptast á upplýsingum varðandi brottfall nemenda  því þetta vandamál sé þekkt í þeim öllum.

Stella Blöndal í Háskóla Íslands hefur þróað svokallað „Risk Detctor“ kerfi sem VMA hefur nýtt sér með góðum árangri. Fulltrúar VMA kynntu þetta kerfi í Helsinki og þóttu fulltrúum annarra skóla það afar áhugavert. Stefnt er að því að kynna „Risk Detector“ frekar á næsta fundi verkefnisins í VMA í apríl á næsta ári.

Fyrir utan þá fundi í verkefninu sem þegar hafa verið tímasettir á næsta og þarnæsta ári er gert ráð fyrir að fulltrúar frá skólunum sæki hver annan heim til þess að víkka út sjóndeildarhringinn. Þegar hefur verið ákveðið að VMA fái heimsókn frá Noorderpoort í Hollandi á næsta ári.