Fara í efni

Við gerum öll okkar allra besta

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA.
Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA.

„Það fannst öllum það vera slæmur kostur ef þyrfti að hefja skólastarfið núna á haustönn með lokunum á skólahúsunum. Um tíma óttuðust við að Almannavarnir myndu lækka tölu fólks sem mætti vera í sama rými niður fyrir hundrað en sem betur fer gerðist það ekki. Það hefði gert okkur enn erfiðara um vik að hefja skólastarfið. Þegar fyrir lágu reglur frá yfirvöldum um nánd í skólunum gátum við farið að skipuleggja hvernig við myndum koma starfinu heim og saman. Hugsun okkur var sú að fá nemendur sem mest hér inn í skólahúsin í kennslustundir með hliðsjón af þeim sóttvarnareglum sem við vinnum eftir. Einfaldasta leiðin hefði eflaust verið sú að allir bóknámsáfangar yrðu í fjarnámi en okkur fannst það ekki góður kostur vegna þess að það er mikilvægt að nemendur og kennarar hittist augliti til auglitis í bóknámi jafnt sem verknámi. Staðreyndin er sú að það hentar ekki öllum nemendum að vera alfarið í fjarnámi. Niðurstaðan var því sú að bóknámið er að hluta í staðnámi og að hluta í fjarnámi. Annað atriði sem við lögðum áherslu á var að kenna nýnemunum sem mest hér í skólanum og þeir gætu hitt kennarana sína og þriðja áhersluatriðið var að lágmarka röskun verklegra tíma á verknámsbrautunum.

Fjölmörgu þurftum við að velta fyrir okkur þegar við vorum að skipuleggja upphaf skólastarfsins; hvernig við ættum að sinna sóttvörnum og sótthreinsun sem allra best og hvernig við gætum haldið úti kennslu með fjöldatakmörkum og fjarlægðarmörkum samkvæmt fyrirliggjandi reglum. Niðurstaðan var sú að skipta stórum hópum og hafa stuttar frímínútur til þess að lágmarka hópamyndanir nemenda. Einnig þurfti að hafa í huga að tími gæfist til sótthreinsunar í kennslustofum á milli kennslustunda. Það var okkar niðurstaða að í stað tveggja 40 mínútna kennslustunda yrði ein 70 mínútna kennslustund, tíu mínútur yrðu á milli kennslustunda og langt hádegishlé. Okkur virðist, eftir fyrstu kennsluvikuna, þetta kerfi vera að gefa góða raun. Vissulega hafa komið upp einhverjar brotalamir sem okkur hafa yfirsést í skipulaginu, enda eru stundatöflurnar tæplega ellefu hundruð, en þá hefur verið brugðist við og hlutirnir  færðir til betri vegar.“

Stórt heilbrigðisvandamál
Sigríður Huld segir ánægjulegt að heyra af ríkum skilningi nemenda og forráðamanna þeirra á því fyrirkomulagi sem unnið sé eftir. „Við höfum fengið tölvupósta frá foreldrum þar sem þeir þakka okkur fyrir góða upplýsingagjöf til nemenda og forráðamanna þeirra og að við séum að leggja okkur fram við að halda úti skólastarfi með þeim takmörkunum sem gilda. Kennarar eru mjög ánægðir að geta hitt nemendur sína aftur – flesta hafa þeir ekki hitt síðan í mars – og ég heyri frá þeim að nemendur segja  það sama, að þeir séu ánægðir að geta komið í skólann aftur. En það er vissulega erfitt að þurfa að segja við nemendur að þeir megi ekki hitta vini sína í skólanum, sem er þveröfugt við það sem þeir væru hvattir til þess að gera í eðlilegu árferði, að hitta vini sína og mynda vináttutengsl. Nemendur eiga mikið hrós skilið. Þeir fara almennt eftir leiðbeiningum og taka þátt í sótthreinsun eins og fyrir þá er lagt. Fyrir það ber að þakka. Almennt finnst mér skólastarfið þessa fyrstu daga hafa gengið betur en ég þorði að vona,“ segir Sigríður Huld og bætir við að sl. vetur hafi Covid 19 orsakað mikla röskun í menntun ungs fólks og á meðan veiran sé á sveimi í samfélaginu verði áfram töluverð röskun í skólastarfinu. Því leggist allir á eitt við að stuðla að því að ungt fólk fái eins góða menntun og mögulegt er við breyttar aðstæður.  „Það er alvarlegt heilbrigðisvandamál ef ungt fólk missir mikið úr menntun sinni og það staðfestir Alþjóða heilbrigðismálastofnunin þegar hún segir að stærsta heilbrigðisvandamál heimsins í dag sé einmitt sú röskun á menntun sem Covid hefur valdið.“

Sigríður Huld orðar það svo að óraunhæft sé að ætla að VMA frekar en nokkur annar skóli á Íslandi sé og verði laus við Covid veiruna. Aldrei sé á vísan að róa í þeim efnum en allt sé reynt, m.a. með sóttvörnum og sótthreinsun, að forðast að smit komi upp í skólanum. „Við gerum okkar allra besta í persónulegum sóttvörnum og leggjum ríka áherslu á að hvorki starfsmenn né nemendur séu að mæta í skólann með flensueinkenni. Ef fólk er í minnsta vafa á það skilyrðislaust að hafa samband við heilsugæsluna til að leita ráða og fara þá í sýnatöku ef heilsugæslan metur þörf á því,“ segir Sigríður Huld.

En hvað myndi gerast ef smit kæmi upp í VMA? „Ef upp kæmi smit í stórri stofnun eins og VMA er, með tæplega ellefu hundruð nemendur og um hundrað og fjörutíu starfsmenn, yrði að óverulegu leyti í okkar höndum að ákveða næstu skref. Þá taka Almannavarnir og smitrakningateymið við og þeirra er að ákveða hvernig brugðist yrði við. Við vonum auðvitað að það komi hvorki upp smit hjá okkur né í öðrum framhaldsskólum en ef það kynni að gerast verður að koma í ljós hvernig brugðist yrði við,“ sagði Sigríður Huld.

„Ég er ekki kvíðinn fyrir fyrir þessum vetri vegna þess að ég met það svo að hér á landi sé vel haldið á málum og unnið að fagmennsku í baráttunni við veiruna og heilbrigðiskerfið okkar hefur sýnt að það ræður við aðstæður. Ég hef meiri áhyggjur af því að það muni taka drjúgan tíma fyrir marga nemendur að vinna upp það sem þegar hefur tapast í námsframvindu þeirra.“

Skólameistari á ný eftir námsleyfi
Sigríður Huld kemur nú til starfa á ný sem skólameistari VMA eftir eins árs námsleyfi. Benedikt Barðason, aðstoðarskólameistari, leysti hana af á síðasta skólaári. Frá hausti 2019 til áramóta stundaði Sigríður Huld meistaranám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands og rétt fyrir jólin tók fjölskyldan sig upp og flaug til Ástralíu. Þar hélt Sigríður áfram námi sínu og stundaði það til vors. Auk skólameistarastarfsins vinnur hún nú að lokaritgerð í meistaranáminu. Fjölskyldan flaug aftur heim í lok apríl. Sigríður Huld neitar því ekki að það hafi verið erfitt að fylgjast frá Ástralíu með fréttum af lokunum framhalds- og háskóla á Íslandi í mars sl. vegna Covid 19. Þá hafi hugurinn leitað heim í VMA – til starfsfólks og nemenda. „En það róaði mig að ég vissi að skólinn væri í góðum höndum,“ segir hún.