Fara í efni

Vélstjórn er góður grunnur fyrir vélaverkfræði

Þóra Kolbrún Jóhannsdóttir, nemi í vélstjórn.
Þóra Kolbrún Jóhannsdóttir, nemi í vélstjórn.

Fyrr í vetur stóðu fjórtán iðn- og starfsnámsskólar á Íslandi sameiginlega að útgáfu blaðsins 2020, þar sem gerð er grein fyrir starfsnámi fyrir ýmsum hliðum en í þessum fjórtán skólum eru hátt í sextíu námsbrautir. Í haus blaðsins segir eftirfarandi: Nafn blaðsins vísar í sameiginlegt markmið skólanna, skýrt og mælanlegt markmið, að 20% grunnskólanemenda skrái sig í iðn- og verknám frá og með árinu 2020.

2020 var dreift til foreldra og forráðamanna allra nemenda í 8., 9. og 10. bekk á landinu, í samtals um 12.000 eintökum.

Í blaðinu er m.a. viðtal við Þóru Kolbrúnu Jóhannsdóttur úr Hrafnagilshverfinu í Eyjafjarðarsveit, sem stundar nám í vélstjórn í VMA. Viðtalið er eftirfarandi:

„Þegar ég var í grunnskóla Í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit leiddi ég ekki hugann að því að fara í vélstjórnarnám en svo kynnti ég mér hvaða kostir væru í stöðunni og niðurstaðan var að fara í vélstjórn í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Ég sé ekki eftir því. Vélstjórnin sameinar bóklegt nám í raungreinum - stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði -  og verklegt nám, sem var mér framandi, t.d. málmsmíði og málmsuða,“ segir Þóra Kolbrún Jóhannsdóttir, sem hafði ákveðið við lok grunnskóla að hún ætlaði að fara í háskólanám í vélaverkfræði.

Sem grunnur fyrir vélaverkfræðina taldi Þóra Kolbrún að vélstjórnin væri besti kosturinn og hún er sannfærð um að hún hafi veðjað á réttan hest. Hún er nú á sjöttu önn af átta í vélstjórnarnáminu. Fyrsta árið er grunndeild málmiðnaðar sem allir nemendur í málmsmíðagreinum, bifvélavirkjun og vélstjórn taka og síðan tekur vélstjórnin við, lengd námsins ræðst af því hversu víðtækum vélstjórnarréttindum nemendur sækjast eftir. Auk fyrsta ársins í grunndeild málmiðnaðar tekur Þóra Kolbrún þrjú ár í vélstjórninni, námstími hennar í VMA er því fjögur ár og lýkur með stúdentsprófi og C-réttindum í vélstjórn vorið 2021. Í framhaldinu ætlar hún að fara í vélaverkfræði.

Fjölbreytt nám

Þóra Kolbrún sleppti tíunda bekk grunnskóla og fór beint úr níunda bekk í grunndeild málmiðnaðar. „Ég var ekki orðin fimmtán ára gömul þegar ég byrjaði í VMA. Þetta var því mikil áskorun og verklegi hlutinn í grunndeildinni var mér framandi. Engu að síður gekk námið vel og mér fannst það skemmtilegt. Ég er ekki í nokkrum vafa að þetta er mjög góður grunnur fyrir háskólanám, ég hef lært ótrúlega margt um vélar, hönnun véla, kælitækni, vélfræði og margt fleira sem ég tel að muni hjálpa mér í vélaverkfræðinni. Námið er viðamikið og gerir miklar kröfur,“ segir Þóra Kolbrún, sem var í hópi verknámsnemenda af öllu landinu sem fengu á liðnu hausti styrki úr hvatningarsjóði Kviku. Styrkinn, sem nemur einni milljón króna, ætlar Þóra Kolbrún að nýta þegar kemur að háskólanáminu.

Hár ímyndarmúr

Erfiðlega hefur gengið að brjóta niður þann ímyndarmúr að vélstjórn sé bara fyrir vinnugallaklædda vélstjóra til sjós. Þóra Kolbrún segir vélstjórnina vera svo miklu meira og ungt fólk sem horfi til góðrar og hagnýtrar menntunar, hvort sem er til að fara strax út á vinnumarkaðinn að námi loknu eða til að búa sig undir frekara nám, ætti að gefa vélstjórnarnáminu gaum. Kynjahalli hefur verið í vélstjórninni og segir Þóra Kolbrún að það þurfi að breytast, námið sé ekkert síður fyrir stelpur en stráka. Hún vonast til að með aukinni kynningu á þeim starfsmöguleikum sem bjóðist að náminu loknu og hversu góður grunnur það sé fyrir háskólanám velji fleiri stúlkur þessa námsleið. „Ég er oft spurð að því af hverju fleiri stelpur fari ekki í vélstjórn. Ég veit ekki svarið en býst við að líklegasta skýringin sé þessi útbreidda ranga hugmynd um námið og störf að því loknu. Að mínu mati hafa stelpur ekki horft nægilega mikið á vélstjórnina sem raunhæfan valkost. Vonandi breytist það í framtíðinni,“ segir Þóra Kolbrún Jóhannsdóttir.