Fara í efni

Vel heppnað málþing í Hofi

Frummælendur og þátttakendur í pallborði.
Frummælendur og þátttakendur í pallborði.

Það var fín mæting og fróðlegar og skemmtilegar umræður sköpuðust á málþingi sem VMA efndi til í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í gær. Yfirskrift málþingsins var Hlutverk VMA í breyttri heimsmynd – mikilvægi skólans í nærsamfélaginu.

Framsöguerindi fluttu Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, Tryggvi Thayer, menntunar- og framtíðarfræðingur hjá Menntavísindasviði HÍ, og Anna Kristjana Helgadóttir, útskrifaður rafeindavirki frá VMA árið 2021.

Á síðari hluta málþingsins sátu frummælendur í pallborði sem og Haukur Eiríksson, brautarstjóri rafiðnbrautar VMA, Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Kjarnafæðis-Norðlenska, Kristrún Lind Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Ásgarðs, Lára Halldóra Eiríksdóttir, formaður stjórnar Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, og Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

Fundarstjóri var Erla Björg Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri hjá Norðurorku.

Hér eru myndir sem Hilmar Friðjónsson tók á málþinginu:

Myndaalbúm 1
Myndaalbúm 2

Framsöguerindi

Í framsögu sinni rifjaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, upp tíma sinn í framhaldsskóla og sagði með ólíkindum hversu mikið hafi breyst síðan. Það væri þó væntanlega aðeins lítill dropi í hafi þeirra hröðu breytinga sem nú séu að eiga sér stað í samfélaginu og heiminum og eigi eftir að verða á næstu árum. Ráðherra sagði samfélagsbreytingarnar aldrei hafa verið hraðari en nú og mikilvægt sé að skólarnir taki breytingum í takt við þær. Hann nefndi að á OECD-fundi menntamálaráðherra nýverið hafi komið skýrt fram að unga fólkið í dag búi yfir gagnrýnni og skapandi hugsun og þá væri öflug félagsfærni mikilvæg í heimi hraðra breytinga.

Ásmundur Einar sagði ljóst að mikilvægt væri að efla starfs- og tækninám á Íslandi, að því hefði verði unnið og áfram yrði haldið á þeirri braut. Talað væri um þörf á 12 til 16 þúsund fermetrum af nýju húsnæði fyrir starfs- og verknám. Á sama tíma liggi fyrir að framhaldsskólanemum muni í heildina fækka og ætla megi að innan fárra ára verði 20-25 þúsund fermetrar af húsnæði ekki nýttir í bóknámsskólunum.
Ráðherra nefndi að í næstu viku verði lagt fram á Alþingi frumvarp um nýja og breytta Menntamálastofnun sem sé ætlað að starfa með öðrum áherslum í takti við breytt samfélag.
Ásmundur Einar sagði að skólarnir eins og allt samfélagið þurfi að takast á við miklar breytingar á komandi misserum og árum og allt sé þetta risaverkefni sem stjórnvöld þurfi að eiga gott samtal um við skólasamfélagið. Málþingið í Hofi sagði ráðherra vera afar mikilvægt innlegg í þá umræðu og þakkaði hann fyrir þetta framtak. Undir það tóku aðrir sem tóku til máls á máþinginu.  

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, sagði að með þessu málþingi hafi skólinn viljað minna á mikilvægi sitt og um leið efla umræðu um skólann fyrir háskólana og atvinnulífið, frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun. Umfram allt sé mikilvægt að efla nám fyrir nemendur skólans í ljósi breyttrar heimsmyndar og samfélagsbreytinga. Allt kalli þetta á breytta umræðu og nálgun, hvort sem það sé í skólasamfélaginu eða annars staðar.

Sigríður Huld varpaði fram þeim hugleiðingum hvað það myndi þýða fyrir nærsamfélagið ef Verkmenntaskólinn væri ekki á svæðinu, hvert gætu nemendur skólans þá leitað.

Sigríður Huld sagði að í VMA eins og öðrum framhaldsskólum hefði nemendum fækkað að undanförnu. Þetta mætti m.a. rekja til minni árganga, framhaldsskólanemum hafi fækkað vegna styttingar náms til stúdentsprófs og síðan hafi atvinnuástand á hverjum tíma sitt að segja. Þegar vel ári í þjóðfélaginu fækki nemendum og öfugt. Hún sagði um 60% nemenda VMA frá Akureyri, um 20% úr Eyjafirði og 20% annars staðar frá.

Hún sagði að mikil og jöfn aðsókn væri á ýmsar starfs- og verknámsbrautir en sérstakt áhyggjuefni væri fækkun nemenda í sjúkraliðanámi. Um væri að ræða afar gott og víðtækt nám sem gefi mikla möguleika og umtalsverður skortur sé á fagmenntuðum sjúkraliðum. Þá nefndi hún að mikill kynjahalli væri á nokkrum brautum – í báðar áttir. Mikil ásókn sé í iðnmeistaranám en það sárvanti kennara í verknámsgreinum og ástæða sé til að hvetja iðnmeistara til þess að verða sér út um réttindi til að kenna og drífa sig í kennslu, þörfin sé mikil. Sigríður Huld nefndi að VMA væri vinnustaður með um 140 stöðugildi, þetta væri stór vinnustaður sem skipti miklu máli fyrir Akureyri, nærsveitir og samfélagið í heild.

Í hinum hröðu tæknibreytingum dagsins í dag með gervigreind o.fl. segir Sigríður Huld að felist mikil tækifæri fyrir skólann. Hraðar breytingar kalli á nýjar námsleiðir og breyttar brautalýsingar og nefndi hún í því sambandi heilbrigðisgreinar og heilsu og vellíðan, nám í þjónustugreinum – t.d. ferðaþjónustu og nauðsyn sé á framhaldsnámi fyrir nemendur í einstaklingsmiðuðu námi. Þá nefndi skólameistari að fjölga þyrfti styttri námsleiðum. En hvað sem öllu líður, sagði skólameistari, að eitt það allra mikilvægasta í skólasamfélagi framtíðarinnar verði að leggja áherslu á siðfræði, samkennd og mennskuna. Horfa verði til sjálfbærni, loftlagsmála og orkuskipta, að tryggja jafnan aðgang allra nemenda að tækni og leggja áherslu á endurmenntun kennara.

Anna Kristjana Helgadóttir, lauk námi í rafeindavirkjun í desember 2021. Hún lét mikið að sér kveða í félagsmálum á námstíma sínum í VMA og var m.a. formaður nemendafélagsins Þórdunu.

Anna Kristjana sagðist hafa valið á sínum tíma að fara í VMA vegna þess að hún kaus áfangakerfið. Byrjaði á matvælabraut en endaði í rafeindavirkjun. Hún sagði það vera mikilvægt fyrir nemendur að hafa möguleika, eins og hún, til þess að geta skipt um námsbrautir enda væru margir nemendur á þessum aldri óráðnir um framtíðina, framhaldsskólaárin séu tími mótunar. 

Fyrir málþingið í Hofi sagðist Anna Kristjana hafa skoðað tölur frá því í september á síðasta ári um hversu margar konur hafi lokið sveinsprófi í iðngreinum. Tölurnar séu sláandi því aðeins 16% þeirra sem hafi lokið sveinsprófi á Íslandi séu konur, þar af 0,46% í pípulögnum, 0,8% í húsasmíði, 1,6% í rafvirkjun og 2,6% í rafeindavirkjun.
Anna Kristjana sagði að upplifun sín af því að vera kona í verknámi í VMA hafi almennt verið jákvæð en hún fór ekki leynt með að það hafi á ýmsan hátt verið erfið tímamót að ljúka námi og fara út á vinnumarkaðinn. Í framhaldsskólanum sé ákveðið öryggi og hún hafi verið í sterkum kjarna og vinahópi í skólanum. Einn góðan veðurdag hafi þessum kafla verið lokið.

Anna sagði mikilvægt að fjölga konum í iðngreinum og það væri líka brýnt að búa nemendur vel undir námslok, það þurfi að sýna þeim fram á að það sé líf eftir framhaldsskólann!

Tryggvi Thayer, menntunar- og framtíðarfræðingur á Nýsköpunarstofu menntunar á Menntunarsviði HÍ, kallaði erindi sitt Breytingaöfl og framtíð menntunar. Hinn rauði þráður í máli hans var að mikilvægt sé að við lögum tæknina að okkar þörfum en ekki að við aðlögumst tækninni. Með öðrum orðum sé alltaf mikilvægt að vera á undan tækninni og nýta hana út frá þörfum hvers og eins.

Tryggvi nefndi breytingaöfl sem hafi áhrif á okkur til framtíðar. Í fyrsta lagi gagnagnótt (mikið magn gagna), gervigreind (vélar sem greina gögn og taka sjálfstæðar ákvarðanir á grundvelli þeirra), sýndar- og gagnaukinn veruleiki (afmáun skila milli þess raunverulega og stafræna), afefnisvæðing (allt að verða stafrænt), og íklæðanleg/ígræðanleg tækni (samþætt tækni /mannslíkaminn sem upplýsingatæki).

Pallborðið

Fjölmargt áhugavert kom fram í pallborðinu að loknu stuttu kaffihléi og var þar ekki síst nefnd gervigreind og hvernig unnt sé að notast við hana í kennslu í framtíðinni. Tryggvi Thayer varpaði því til mennta- og barnamálaráðherra að mikilvægt væri að tryggja sem fyrst aðgang að Chat GPT 4 (heimur gervigreindar).

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Kjarnafæðis-Norðlenska, lagði á það áherslu að öll menntun nýtist fólki og hún þurfi að vera fjölbreytt. Hann rifjaði upp að hann hafi verið í vélstjórnarnámi í VMA, síðan í verkfræði í háskóla en á vinnumarkaðnum hafi hann tekist á við allt aðra hluti. Þetta segi sína sögu um að menntun af öllum toga nýtist fólki, óháð því hvað það síðan takist á við þegar komið er út á vinnumarkaðinn.

Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, nefndi að 47 þúsund manns starfi í iðnaði á Íslandi. Þar af hafi 13 þúsund störf skapast á síðustu tíu árum, stór hluti í byggingar- og mannvirkjagreinum sem þöndust út eftir fjármálahrunið. Af þessum þrettán þúsund störfum á liðnum áratug sagði Ingólfur að um helmingur væri vinnuafl erlendis frá. Með öðrum orðum væri ekki til vinnuafl í landinu til þess að mæta þessari eftirspurn. Ingólfur sagði stöðugleika í efnahagsmálum á Íslandi það mikilvægasta fyrir vöxt og viðgang iðnaðarins í landinu og fyrir liggi að áfram verði að leggja höfuðáherslu á menntun fólks í verkgreinum.

Haukur Eiríksson, brautarstjóri rafiðnbrautar VMA, sagðist vera frekar bjartsýnn fyrir hönd VMA og það byggi hann á jákvæðum orðum nemenda um skólann. Hann sagði mikil tækifæri til þess að efla námið í skólanum í góðu sambandi við atvinnulífið. Hann nefndi að nauðsynlegt væri að huga enn betur að fólki með annan menningarlegan bakgrunn. Þau þjóðfélög sem muni takast á jákvæðan og uppbyggilegan hátt við þetta muni standa sig vel í framtíðinni.

Kristrún Lind Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Ásgarðs, rifjaði upp að hún hafi verið í VMA fyrir margt löngu og hafi á þeim tíma gert ótrúlega margt skapandi og skemmtilegt sem hluti af Filmumönnum, sem réðust í allskyns kvikmyndaverkefni. Þetta hafi verið sköpun og suðupottur hugmynda eins og hann gerist bestur. Sem kennslufræðingur hvatti Kristrún Lind VMA til dáða og beindi því til skólastjórnenda að útvíkka námið eins og kostur væri og koma þannig til móts við fjölbreyttar og ólíkar þarfir nemenda.

Lára Halldóra Eiríksdóttir, formaður Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, sagði hlutverk VMA í samfélaginu hér á Norðausturlandi vera ótvírætt mjög mikið. Hún nefndi að SSNE hafi lagt áherslu á skólasamfélagið á starfssvæði samtakanna og til marks um það hefðu þau átt gott samstarf við framhaldsskólana á svæðinu um vinnsla kynningarmyndbanda um þá.

Sigríður Huld skólameistari sleit málþinginu og þakkaði fyrir góða og áhugaverða umræðu. Sérstaklega þakkaði hún þeim þátttakendum sem hafi komið um langan veg til þess að taka þátt. Þá þakkaði hún öllum sem hefðu lagt hönd á plóg við undirbúning málþingsins og stuðning við að halda það. Þakkaði hún í því samandi SSNE og Norðurorku fyrir samstarfið. Þá gat hún sérstaklega um Jóhannes Árnason, kennara í VMA, sem hafi lengi haft mikinn áhuga á slíkri umræðu og haldið í gegnum tíðina vel utan um tölfræðileg gögn um VMA.