Fara í efni

Úttekt á námi án aðgreiningar á Íslandi

Í upphafi rýnifundar með nemendum í VMA í gær.
Í upphafi rýnifundar með nemendum í VMA í gær.

Í gær áttu tveir fulltrúar Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir fundi í VMA með í fyrsta lagi fulltrúum þriggja framhaldsskóla, í öðru lagi foreldrum nemenda og í þriðja lagi kennurum og stuðningsaðlum í framhaldsskólunum þremur. Fundirnir voru liður í víðtækri úttekt Evrópumiðstöðvarinnar á námi án aðgreiningar á Íslandi.

Í byrjun nóvember á síðasta ári var undirritaður samstarfssamningur milli Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Jafnframt var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf um úttektina af hálfu fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra og Skólameistarafélags Íslands. 

Á vef mennta- og menntamálaráðuneytsins segir eftirfarandi um áðurnefndan samning við Evrópumiðstöðina: „Markmið úttektarinnar er að styðja við ákvarðanatöku á innleiðingu  og framkvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar með sannreyndri þekkingu og stuðla jafnframt að víðtæku sjálfsmati innan menntakerfisins auk þess að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.  Áhersla verður lögð á að kanna hversu árangursrík innleiðing á menntastefnu um skóla án aðgreiningar  hefur verið í skólakerfinu á Íslandi, meðal annars í samanburði við önnur lönd. Úttektin nær til leik-, grunn- og framhaldsskólastigs. Rýnt verður einnig í fjármögnun vegna skóla án aðgreiningar á vegum ríkis og sveitarfélaga. Úttekin nær til allra hagsmunaaðila skólasamfélagsins, þ.e. til nemenda og fjölskyldna þeirra, starfsfólks skóla, skólaþjónustu og stoðþjónustu hvers konar, rekstraraðila skóla, samtaka kennara, kennaramenntunarstofnana og ráðuneyta. Ráðgert er að úttekin fari fram frá nóvember 2015 til ársloka 2016.“

Hér á landi er hin opinbera stefna að skóli sé án aðgreiningar, þ.e. að allir nemendur eigi rétt á að stunda nám í sínum heimaskóla, óháð líkamlegu og andlegu atgervi þeirra. Skóli án aðgreiningar felur það í sér að hann sé tilbúinn að taka við öllum nemendum og veita þeim menntun við hæfi, óháð fötlun, skerðingum eða sérþörfum. Grunnurinn að þessu er réttindabarátta fatlaðra og hin svokallaða Salamanca-yfirlýsing frá 1994 sem Íslendingar skrifuðu undir. Þessi stefna var þó ekki fest í lög hér á landi fyrr en með lögum um grunnskóla árið 2008.  

Úttektin er gerð þessa viku í fimm sveitarfélögum hér á landi, Reykjavík, Akureyri, Fljótsdalshéraði, Árborg og Borgarbyggð. Skólar í hverju þessara sveitarfélaga eru heimsóttir og haldnir rýnifundir með nokkrum þátttakendum. Slíka fundi voru Verity Donnelly frá Wales og Cristina Popescu, sem er frá Rúmeníu en býr í Frakklandi og starfar sem verkefnastjóri við Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir, með í VMA í gær. Fyrsti fundurinn var með nemendum úr VMA, MA og Menntaskólanum á Tröllaskaga, annar fundurinn var með foreldrum almennra nemenda og einnig nemenda með sérþarfir og komu þeir frá sömu þremur framhaldsskólum í Eyjafirði og loks var fundað með kennurum og stuðningsaðilum í skólunum þremur.