Fara í efni

Markvisst unnið að nýrri skólanámskrá VMA

Hjalti Jón Sveinsson skólameistari.
Hjalti Jón Sveinsson skólameistari.

Fyrir liggur að á þessu ári hvílir mikil vinna á starfsfólki í öllum framhaldskólum landsins við að innleiða nýja námskrá sem gerir meðal annars ráð fyrir að stytta nám til stúdentsprófs í þrjú ár. Hjalti Jón Sveinsson skólameistari segir að þessari vinnu hafi miðað vel í VMA og vill hann hrósa starfsfólki skólans alveg sérstaklega fyrir mikla og góða vinnu við m.a. innleiðingu nýrrar skólanámskrár.

„Ég held að sé óhætt að segja að aldrei áður hafi jafn mikið verið í gangi í framhaldsskólunum og einmitt núna og við þurfum að ljúka þessari vinnu á tiltölulega stuttum tíma,“ segir Hjalti Jón Sveinsson sem jafnframt því að vera skólameistari VMA er formaður bæði Skólameistarafélags Íslands og Félags íslenskra framhaldsskóla. „Næsta haust á að ganga í gildi ný námskrá þar sem meðal annars er gert ráð fyrir þriggja ára námi til stúdentsprófs. Það er stóra breytingin. Hér í VMA höfum við hægt og bítandi unnið að nýrri námskrá. Við höfum þurft að endurskoða alla skólanámskrána sem segir til um hvernig við vinnum hlutina hér í skólanum, þ.e. hvaða markmið við setjum okkur, hvernig við högum kennslunni, námsmatinu o.s.frv. Endurskoðun skólanámskrárinnar hefur tekið mið af þeim breytingum sem eru í farvatninu. Við höfum einnig verið að vinna að nýjum lýsingum á þeim námsbrautum sem við bjóðum upp á hér í VMA, ekki síst námsbrautum til stúdentsprófs, þ.e. hvernig skipulag þeirra verði miðað við að nám til stúdentsprófs taki þrjú ár. Þetta á fyrst og fremst við um náttúrufræðibraut og félagsfræðibraut en einnig tekur þetta til viðskipta- og hagfræðibrautar, íþróttabrautar og listnámsbrautar. Með þessari uppstokkun verða þessar brautir hreinar og klárar námsbrautir til stúdentsprófs. Ef við horfum á þrjár síðastnefndu brautirnar má segja að um hafi verið að ræða starfsnám en síðan hafa nemendur getað bætt við sig áföngum til þess að ljúka stúdentsprófi. Það segir sig sjálft að þegar á sér stað slík stytting á námi til stúdentsprófs verður að sleppa einhverju frá því sem nú er en jafnframt sjáum við fyrir okkur að sérhæfingin í náminu eykst. Við leggjum einnig kapp á að starfs- og verknámið í skólanum fylgi í kjölfarið enda þarf það að lúta sömu lögmálum, t.d. bókhluti verknámsins. Skipulag þess þarf að vera í takti við skipulagið á bóknámsbrautunum. Við erum að opna meira á milli verk- og bóknáms og það er löngu tímabært. Einn af þeim þáttum sem horft er til í þessu sambandi eru svokölluð hæfniþrep – 1., 2. og 3. hæfniþrep. Ákveðinn hluti af stúdentsprófinu þarf að vera á þriðja þrepi – t.d. þarf nemandi á náttúrufræðibraut að vera kominn á þriðja þrep í raungreinum, svo dæmi sé tekið, til þess að ljúka stúdentsprófi. Eitt af því sem við munum taka hér upp í fyrsta skipti er að nemendum sem hafa góðar einkunnir í kjarnagreinum úr grunnskóla er gert kleift að fara beint í framhaldsáfanga í viðkomandi grein þegar þeir koma til okkar. Með þessu móti spara nemendur sér allt að tíu einingar þegar þeir koma hingað og flýta fyrir sér í náminu.
Við gerum einnig ráð fyrir að nemendur sem vilja sérhæfa sig í verkgreinum geti gert það og lokið síðan stúdentsprófi á fjölgreinabraut eða hvað hún kemur til með að heita. Þá þurfa nemendur að ljúka ákveðnum kjarnagreinum en síðan geti þeir sérhæft sig töluvert mikið hafi þeir hug á því að stefna í ákveðnar áttir. Ég held að þetta geti verið leið til þess að styrkja það sem við köllum tækninám og æ fleiri nemendur og foreldrar hafa áhuga á. Að öllu samanlögðu vonast ég til þess að sú uppstokkun sem nú á sér stað verði til þess að það verði einfaldara fyrir nemendur að finna sína leið og jafnframt verði námsbrautirnar markvissari.“

Yfirgripsmikil vinna
Hjalti Jón segir að það sé langt í frá einfalt mál að stokka upp námsfyrirkomulag í skóla eins og Verkmenntaskólanum á Akureyri. „Það er vissulega á margan hátt flókið mál enda eru námsbrautirnar margar og ólíkar. Hvað stúdentsprófið varðar höfum við haft fjölmarga nemendur sem hafa lokið stúdentsprófi á þremur eða þremur og hálfu ári en aðrir hafa lokið því á fjórum árum. Í desember sl. útskrifuðust til dæmis þónokkuð margir nemendur með stúdentspróf eftir þriggja og hálfs árs nám í skólanum.“
Það liggur fyrir að skólaárið mun lengjast um nokkra daga og skil á milli prófa og kennslu verða ekki eins skörp og áður, prófatíminn mun styttast sem aftur þýðir að fleiri dagar gefast til kennslu. „Þó svo að okkur hafi borið skylda til þess að vera með próf í tvær til þrjár vikur á hvorri önn hefur áherslan á lokapróf verið að minnka en jafnframt hefur áhersla á símat allan veturinn verið að aukast. Námsmatið verður þannig fjölbreyttara sem ég tel að sé af hinu góða. Og minni áhersla á lokapróf gefur möguleika á því að við fáum fleiri daga til kennslu,“ segir Hjalti Jón.
Hann segir fulla ástæðu til þess að hrósa starfsfólki VMA fyrir frábæra vinnu við endurskoðun skólanámskrár og gerð nýrra námsbrautalýsinga. „Við erum núna að vinna í áfangalýsingunum og þegar á allt er litið finnst mér starfsfólk hér, bæði í bóknámsdeildum og verknámsdeildum, hafa lyft grettistaki, þetta hefur að mínu mati gengið vonum framar. Á þessum tímapunkti er ég bjartsýnn á framhaldið,“ segir Hjalti Jón. Í næstu viku, nánar tiltekið miðvikudaginn 14. janúar, munu kennarar og stjórnendur skólans vinna að stefnumótun nýrrar skólanámskrár undir stjórn Önnu Maríu Jónsdóttur, verkefnastjóra skólanámskrár, og af þeim sökum mun kennsla falla niður þann dag.
„Við þurfum að vinna þetta hratt því samkvæmt fyrirmælum mennta- og menningarmálaráðuneytisins þurfum við að skila af okkur námsbrauta- og áfangalýsingum eigi síðar en 1. mars næstkomandi ef við ætlum okkur að taka upp nýju námskrána næsta haust og að því erum við að stefna. Við höfum miðað okkar vinnu við að þessar breytingar taki gildi næsta haust. Verkmenntaskólinn á Akureyri er einn af stærstu framhaldsskólum landsins, stærsti fjölbrauta- og verknámsskólinn utan Reykjavíkursvæðisins og jafnframt sá fjölbreyttasti og því er horft mjög til okkar. Við reynum að vera í fararbroddi og í þeirri vinnu sem nú stendur yfir varðandi námskrána finnst mér við vera það. Við fylgjumst einnig vel með því sem hefur verið unnið í öðrum skólum, til dæmis hefur verið unnið mjög gott starf í þessum efnum í Tækniskólanum í Reykjavík og við fáum í næstu viku heimsókn fulltrúa frá Kvennaskólanum í Reykjavík, þar sem unnið hefur verið með nýja námskrá sem tilraunaverkefni. Þar hafa nú þegar tveir árgangar útskrifast með stúdentspróf á þremur árum og það hefur gengið mjög vel, það ég best veit.“

Ekki verið að gengisfella stúdentsprófið
Þær raddir hafa oft heyrst að með því að stytta nám til stúdentsprófs sé verið að gengisfella stúdentsprófið. Hjalti Jón er því ekki sammála. „Það tel ég ekki vera. Við sem höfum verið að vinna í þessu af fullum krafti sjáum nýja möguleika eða sóknarfæri felast í þessari uppstokkun. Ég get sagt fyrir sjálfan mig að hugmyndir mínar um framhaldsskólann hafa breyst mikið á síðustu þremur árum og ég tel alls ekki að þær breytingar sem eru boðaðar með styttingu náms til stúdentsprófs séu til þess fallnar að gengisfella það. Hins vegar er það ekkert launungarmál að ég hefði viljað sjá aðra leið farna til þess að stytta nám til stúdentsprófs. Ég tel að vænlegasta leiðin hefði verið að gefa fleiri nemendum kost á því að koma í framhaldsskólann beint úr 9. bekk grunnskóla. Almennt hefði ég viljað sjá meiri sveigjanleika bæði í grunn- og framhaldsskólanum. En engu að síður er það svo að stytting náms til stúdentsprófs gefur duglegum og einbeittum nemendum tækifæri til þess að ljúka námi sínu á skemmri tíma og jafnframt að taka yfirgripsmikið nám til undirbúnings því fagi sem þeir stefna á í háskóla, því við megum ekki gleyma því að stúdentsprófið er hugsað sem undirbúningur fyrir nám í háskóla. Í nýju námsbrautarlýsingum okkar höfum við haft hliðsjón af kröfum háskólanna í hinum ýmsu greinum. Núna eru háskólarnir loksins farnir að gefa skýrar en áður til kynna hvaða kröfur þeir gera og þá er mikilvægt fyrir okkur í framhaldsskólunum að geta gefið okkar nemendum greinargóðar leiðbeiningar um hvaða undirbúningi þeir verða að hafa lokið til þess að innritast í tilteknar greinar í háskóla.“

Breytingar taki gildi haustið 2015
Að óbreyttu mun því kennsla hefjast samkvæmt nýrri námskrá næsta haust í VMA. Sem fyrr segir þarf skólinn að skila af sér breyttum námsbrauta- og áfangalýsingum eigi síðar en 1. mars nk. til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Hjalti Jón væntir þess að ráðuneytið komi til með að vinna málið hratt því VMA hafi ekki heimild til þess að kynna breytt námsfyrirkomulag á haustönn 2015 fyrr en grænt ljós fáist frá ráðuneytinu. „Auðvitað hefðu nemendur sem nú eru í 10. bekk grunnskóla helst þurft að fá kynningu á námsbrautunum strax sl. haust en sú kynning er því miður ekki möguleg fyrr en ráðuneytið hefur gefið okkur heimild til þess að hefja hana,“ segir Hjalti Jón Sveinsson.