Fara í efni

Mögulega þarf aðra nálgun

Erna H. Gunnarsdóttir, enskukennari.
Erna H. Gunnarsdóttir, enskukennari.
Erna H. Gunnarsdóttir, enskukennari við VMA, er í námsleyfi á nýhöfnu skólaári og mun nýta það til þess að kynna sér hvaða óhefðbundnar leiðir séu mögulegar í kennslu til þess að koma til móts við þá nemendur sem eiga í erfiðleikum með að meðtaka námsefnið matreiddu með venjubundnum kennsluaðferðum. Fram að áramótum hyggst Erna kynna sér hvernig staðið er að þessum málum í skólum í Bretlandi en eftir áramót mun hún draga saman þær upplýsingar sem hún aflar sér ytra auk þess að heimsækja framhaldsskóla hér á landi.

Erna H. Gunnarsdóttir, enskukennari við VMA, er í námsleyfi á nýhöfnu skólaári og mun nýta það til þess að kynna sér hvaða óhefðbundnar leiðir séu mögulegar í kennslu til þess að koma til móts við þá nemendur sem eiga í erfiðleikum með að meðtaka námsefnið matreiddu með venjubundnum kennsluaðferðum. Fram að áramótum hyggst Erna kynna sér hvernig staðið er að þessum málum í skólum í Bretlandi en eftir áramót mun hún draga saman þær upplýsingar sem hún aflar sér ytra auk þess að heimsækja framhaldsskóla hér á landi.

Verkmenntaskólinn á Akureyri var stofnaður fyrir þrjátíu árum og jafnlengi hefur Erna H. Gunnarsdóttir kennt ensku við skólann. Hún segir að á ári hverju séu alltaf einhverjir nemendur sem eigi í miklum erfiðleikum með að tileinka sér námsefnið, sem aftur leiði til kvíða og jafnvel andúðar á viðkomandi fagi.

„Þetta hef ég ítrekað horft upp á í þau þrjátíu ár sem ég hef kennt ensku og ég veit að þetta á við um fleiri námsgreinar. Augljóslega henta þær kennsluaðferðir sem við viljum kalla hefðbundnar ekki þessum nemendum og það er orðið aðkallandi verkefni að finna aðrar aðferðir, sem við gætum þá kallað óhefðbundnar, sem henta þeim betur. Mögulega þarf aðra nálgun á kennsluna og jafnvel námsmatið. Þetta vil ég skoða í námsleyfinu á þessu skólaári. Ég verð í Bretlandi fram að jólum og mun heimsækja fjölmarga skóla í þeim tilgangi að afla mér upplýsinga um hvernig komið er til móts við slíka nemendur þar, því þetta er ekki bara vandamál í íslenskum framhaldsskólum. Mig langar líka að beina augum að lesskilningi nemenda sem því miður hefur farið þverrandi.  Eftir áramót ætla ég síðan að vinna úr þeim upplýsingum sem ég afla mér ytra, auk þess sem ég hef í hyggju að heimsækja flesta framhaldsskólana á höfuðborgarsvæðinu og ef til vill einnig utan þess. Þó svo að ég sé fyrst og fremst að horfa á enskukennslu og þær hefðbundnu kennsluaðferðir sem þar eru notaðar tel ég að það eigi við um fjölmargar aðrar námsgreinar að nemendur eiga í erfiðleikum með að meðtaka námsefnið með svokallaðri hefðbundinni kennslu,“ segir Erna H. Gunnarsdóttir.