Fara í efni

Spænskan er málið

Auður Inga Ólafsdóttir spænskukennari.
Auður Inga Ólafsdóttir spænskukennari.

Þegar Auður Inga Ólafsdóttir lærði spænsku á sínum tíma til BA-prófs í HÍ leiddi hún ekki hugann að því að hella sér síðar út í spænskukennslu. Raunar fór hún í meistaranám í ferðamálafræðum í Noregi og starfaði í þeirri grein um skeið norður í Alta. Hélt áfram á þeirri braut eftir að hún flutti aftur heim en staldraði stutt við í ferðamálunum, tók u-beygju og fór að kenna spænsku í VMA árið 2005. Síðan eru liðin átján ár.

Auður fæddist í Reykjavík og ólst þar upp. Hún þekkti hins vegar vel til á Akureyri því afi hennar og amma bjuggu þar.

Þegar Auður var að skrifa meistararitgerðina sína í ferðamálafræðum fékk hún ábendingu um lausa stöðu kennara í spænsku við VMA, hún sló til og ætlaði sér bara að staldra stutt við enda var hún á þeim tíma ekki með kennsluréttindi.

Áhugi minn á spænsku kviknaði eftir að ég fór til Spánar sem sjálfboðaliði – sem þá kallaðist alþjóðleg ungmennaskipti. Ég var í Madríd og bjó þar hjá ungri konu, sem var tveimur árum eldri en ég. Hún talaði ekki ensku og því var ekki um annað að ræða en að leggja sig fram um að læra málið. Ég vann síðan um tíma á skrifstofu alþjóðlegra ungmennaskipta í Madríd og þar var sama sagan, öll samskipti voru á spænsku. Þannig lærði ég grunninn í málinu og ég vildi síðar dýpka þekkinguna með því að fara í spænskunám í HÍ. Þar var ég í tvö ár en þriðja árið fór ég á Erasmus styrk til Madrídar og sá tími var mikilvægur hluti af BA-náminu. Ég minnist þess að í Madríd tók ég mjög áhugaverða kúrsa um t.d. listasögu og sögu tungumálsins þar sem við veltum m.a. fyrir okkur hvaðan ýmsir straumar og stefnur komi inn í spænskuna – t.d. úr hebresku og arabísku.
Eftir BA-námið fór ég fyrst í diplómanám í viðskiptafræði. Þetta var fyrir hrun þegar allir vildu læra eitthvað um viðskipti og rekstur. Það voru gríðarlega margir í þessu námi og ég hugsaði með mér að ég hefði ekkert þarna að gera og ákvað þá að fara í tveggja ára meistaranám í ferðamálafræði í Noregi.

Þegar Auður hóf spænskukennslu í VMA var námsefni af skornum skammti en smám saman hefur hún verið að þróa það og byggja upp námsgagnabanka. Hún segir kennsluna hafa þróast með árunum og kóvidfaraldurinn hafi breytt miklu. Þá hafi þurft í auknum mæli að sækja í ýmsar rafrænar lausnir sem hún hafi áfram byggt á og ekki sé ætlunin að fara til baka í þeim efnum. Áherslan sé á talþjálfun sem nýtist nemendum í spænsku málumhverfi frekar en að læra málfræðireglur utan bókar. Auður segist vera vel vakandi yfir öllum þeim gagnvirku tæknilausnum sem bjóðist til þess að gera spænskunámið meira lifandi og áhugaverðara fyrir nemendur og hún sæki sér eitt og annað í kennsluna erlendis frá.

Auður kennir þrjá spænskuáfanga og eru fyrri tveir áfangarnir núna kenndir í dagskóla. Einnig kennir hún spænskuna í fjarnámi VMA. Þriðji áfanginn er kenndur þegar nægilega margir velja hann en spænskan er valfag í skólanum, raunar bundið val á móti þýsku fyrir nemendur á félags- og hugvísindabraut. Með öðrum orðum stendur val nemenda á þeirri braut um að læra annað hvort spænsku eða þýsku sem þriðja tungumál.

Auður segist sjálf ekki hafa verið málfræðimiðaða í tungumálanámi sínu og hún upplifi nemendur sína á sömu blaðsíðu, þeir hafi meiri áhuga á að læra málið til þess að geta notað það á einfaldan hátt.

Í ljósi þess að spænska er útbreiddasta tungumál heims má spyrja sig þeirrar spurningar af hverju sé ekki lögð meiri áhersla á spænsku í íslensku menntakerfi en raun ber vitni. Auður segir það vera góða og gilda spurningu sem hún kunni ekki svar við en hins vegar segir hún marga utan skólakerfisins hafa áhuga á að læra grunninn í tungumálinu og fyrir kóvid hafi hún stundum kennt á spænskunámskeiðum, t.d. hjá Félagi eldri borgara á Akureyri.

Auðvitað á það við um spænskuna eins og aðrar námsgreinar að áhugi nemenda er misjafnlega mikill. Auður segist hugsa kennsluna og sínar kennsluaðferðir út frá því hvernig hún sjálf myndi kjósa að nálgast námið. Hún segist vilja að nemendur séu skapandi í náminu og nálgist það frá ýmsum sjónarhornum. Verkefnin vilji hún hafa fjölbreytt og af ýmsum toga. Að tvinna spænska tónlist inn í námið er ein þeirra kennsluaðferða sem hún noti. Í gegnum tónlistina segir hún unnt að tengja ólíka hluti eins og staði og matarmenningu inn í námið og það sé oft til þess fallið að vekja áhuga nemenda.