Fara í efni

Síðasta VMA-útskrift Hjalta Jóns í Hofi í dag

Útskriftarhópurinn að lokinni brautskráningu í dag
Útskriftarhópurinn að lokinni brautskráningu í dag

Hjalti Jón Sveinsson, fráfarandi skólameistari VMA, brautskráði nemendur í síðasta skipti frá skólanum við hátíðlega athöfn í Hofi í dag. Að þessu sinni brautskráðust 111 nemendur af hinum ýmsum brautum skólans og voru afhent 130 skírteini. Eins og venja er til var þétt setinn bekkurinn í Hofi í dag, aðstandendur nemenda fjölmenntu til þess að fagna mikilvægum áfanga.

Í ræðu skólameistara kom fram að árið 2015 hafi verið tími mikilla breytinga og þróunar. Nýjar námskrár á bóknámsbrautum hafi tekið gildi eftir mikla undirbúningsvinnu en þær gera ráð fyrir að nemendur geti lokið stúdentsprófi á þremur árum. Hjalti Jón sagði þetta skipulag byggt á því að nemendur uppfylli ákveðin skilyrði og að ekkert tefji námsferil þeirra. „Við gerum eftir sem áður ráð fyrir að hluti nemendahópsins þurfi lengri tíma af ýmsum ástæðum. Hvað verknámið varðar hafa nýjar námskrár þar ekki litið dagsins ljós þó að á þeim vettvangi hafi sitthvað verið gert til þess að flýta fyrir þegar þar að kemur. Ennþá vefst verknámið fyrir yfirvöldum og margir eiga hér hlut að mál sem því miður hafa ekki komið sér saman til dæmis um það hvort unnt sé að stytta námstímann þar eins og í bóknáminu og hvort og hvernig best megi koma hinum ýmsu þáttum verknámsins fyrir. Við skipuleggjum nú nám og námsmat í samræmi við svokölluð hæfniviðmið og hæfniþrep þau sem ný Aðalnámskrá framhaldsskóla gerir ráð fyrir. Af þeim sökum eru ýmsar nálganir og skilningur að breytast þó svo að í grunninn stefnum við alltaf að sama markinu, að skila vel menntuðum einstaklingum hvort sem er til háskólanáms eða til starfa á vinnumarkaði. Sitt sýnist hverjum um styttingu náms til stúdentsprófs og sjálfur hef ég efast mjög um ákvörðun menntamálayfirvalda þess efnis lengi vel. En eftir að hafa tekið þátt í að breyta námskránni og skipuleggja námsbrautir til stúdentsprófs upp á nýtt og átt þess kost að vera hluti af þessu mikla þróunarferli sem átt hefur sér stað í skólanum hefur skoðun mín breyst. Að minnsta kosti er ég sannfærður um að stúdentarnir okkar verða ekki síðri að þremur árum liðnum; þeir gætu jafnvel orðið betri á vissum sviðum, opnari og vonandi ennþá áhugasamari um frekara nám. Sannfæring mín er samt ennþá sú að skynsamlegra hefði verið að leggja áherslu á að brautskrá nemendur 19 ára úr framhaldsskóla – en þó þannig að samanlagt nám þeirra í grunnskóla og framhaldsskóla væri þrettán ár í stað fjórtán. Sumir nemendur gætu verið búnir að ná markmiðum grunnskólans að loknum 9. bekk ef þeim stæði það til boða. Ég tel að við ættum áfram að fjölga þeim nemendum sem koma fyrr upp í framhaldsskóla og hinum sem koma með framhaldsskólaeiningar sem þeir hafa jafnvel þegar öðlast í gegnum fjarnám eða á annan hátt. Af slíku höfum við mjög góða reynslu hér í VMA.“

Dans sem viðmið?
Hjalti Jón nefndi að í vor verði sú breyting að allir nemendur í 10. bekk grunnskóla fái einkunnar sínar gefnar í bókstöfum; A, B+, B, C+, C og D. Gert sé ráð fyrir því að um 80% hópsins fái B eða B+ eða A. Af þeim sökum hafi það verið fullyrt af sérfræðingum Menntamálastofnunar að þetta geti þýtt að þessi 80% nýnema getið hafið  nám í framhaldsskóla uppi á svonefndu öðru hæfniþrepi. „Við skulum nú ekki fara nánar út í þá sálma að sinni en svo mikið er víst að margir óttast að í sumum framhaldsskólum, einkum þeim þar sem umsækjendur eru mun fleiri en skólarnir geta orðið við, geti reynst erfitt að meta frammistöðu umsækjenda. Fram að þessu hafa einkunnir í tölum ráðið því hvort nemendur komast inn í ákveðna skóla eða ekki og tiltölulega auðvelt hefur verið að reikna það út þegar jafnvel aukastafir geta ráðið  úrslitum. Þar eð ég er að taka við skólameistarastöðu við Kvennaskólann í Reykjavík nú um áramótin mun ég að líkindum þurfa að glíma við þennan lúxusvanda í vor. - Til hvaða ráða getum við gripið til að gera upp á milli til dæmis nemenda sem eru allir með A eða B+ í kjarnagreinum um leið og fyllsta jafnræðis sé gætt. Mér dettur til dæmis í hug að prófa mætti þessa nemendur í gjörólíkri námsgrein eins og dansi og láta hæfni þeirra á því sviði skera úr um það hvort Jón eða Gunna, sem bæði eru með A eða B+ komast inn í skólann.

Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla skulu nemendur við lok 10. bekkjar geta:

• samhæft tónlist og hreyfingu með góðri líkamsvitund og líkamsbeitingu og dansað mismunandi dansform sér til ánægju,

• sýnt öryggi og færni til að dansa einn eða sem hluti af pari eða hópi,

• tekið þátt í skapandi vinnuferli í dansi, sett saman einfalt dansverk og valið umgerð við hæfi,

• dansað fyrir framan áhorfendur með tilfinningu fyrir þáttum eins og túlkun, augnsambandi, rými, líkamsbeitingu og kurteisisvenjum,

• valið milli ólíkra dansstíla, prófað sig áfram og tekið sjálfstæðar ákvarðanir í túlkunar- og sköpunarferli út frá eigin þekkingu og leikni í dansi,

• tjáð og túlkað hugmyndir sínar og rætt dans á gagnrýninn hátt, beitt við það viðeigandi orðaforða og sett það í menningar- og sögulegt samhengi.

 Þá vitum við það.“

Erlend samstarfsverkefni
Skólameistari sagði að á haustönn hafimargir starfsmenn og nemendur skólans tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum hvort sem er innan Norðurlandanna eða  á vettvangi Evrópusambandsins á grundvelli aðildar Íslands að EES-samningnum. Fjöldi fólks hafi því verið á faraldsfæti til þess að hitta samstarfsaðila sína á vettvangi skólastarfs. Þá hafi VMA einnig tekið á móti fjölmörgum kennurum, skólastjórnendum og nemendum frá öðrum skólum víðs vegar í Evrópu og hafi vart liðið sú vika að ekki hafi verið hér fleiri eða færri erlendir gestir til lengri eða skemmri tíma.

„Á fimmtudaginn í síðustu viku hlaut evrópska verkefnið Starfsfóstri eða Workmentor, sem Jóhannes Árnason, verkefnisstjóri erlends samstarfs, hefur stýrt fyrir hönd VMA, gæðaviðurkenningu menntaáætlunar Evrópusambandsins Erasmus + í hópi íslenskra verkefna á sviði starfsmenntunar sem ,,fyrirmyndarverkefni”. Verkefnið fjallar um að þróa námskeið fyrir starfsmenn á vinnustöðum sem taka að sér að styðja nema eða nýliða á vinnustað. Auk VMA voru þátttakendur  skólar og stofnanir í Wales, Englandi, Finnlandi, Frakklandi, Hollandi og Noregi. Jóhannes segir ,,starfsfóstra” vera eins konar stuðningsaðila á vinnustöðum, frekar samstarfsmenn en yfirmenn, sem taki á móti nemum sem oft hafa átt undir högg að sækja í námi. Starfsfóstrarnir leiðbeini nemunum og veiti þeim þann stuðning sem þeir þurfa til að ná árangri. Þátttakendurnir völdu og þróuðu efni til að nota á námskeiðum og vinnustofum fyrir tilvonandi starfsfóstra. Slíkir viðburðir voru haldnir í öllum þátttökulöndunum auk þess sem leiðbeiningabæklingur var þýddur á móðurmál heimalanda allra þátttökulandanna.”

Félagslífið alltaf jafn mikilvægur þáttur
Skólameistari sagði félagslíf hafa gengið vel á haustönn. Upp úr hafi staðið velheppnuð jafnréttis- og mannréttindavika. Nú sé verið að undirbúa viðburði vorannarinnar; eins og metnaðarfulla sviðsetningu söngleikjar, árshátíð og síðast en ekki síst söngkeppnina sem alltaf njóti mikilla vinsælda. „Okkur hefur blessunarlega tekist að halda vímulausar samkomur í framhaldsskólunum á Akureyri og þykir okkur það í raun ekki lengur í frásögur færandi því að þetta hefur tíðkast svo lengi. Í skólanum okkar er fyrirmyndarfólk. Það má glöggt sjá á því til dæmis hversu byggingin hefur lítið látið á sjá, jafnvel sá hluti hennar sem orðinn er þriggja áratuga gamall. Skólinn er svo vel um genginn að gestum okkar þykir það furðu sæta. Það sýnir glöggt hversu góðu uppeldi nemendur okkar búa að og einnig það að þeir halda í heiðri þær sjálfsögðu umgengnisreglur sem gilda hér. Slíkt ber jafnframt vott um virðingu. Þetta er skemmtilegt samfélag nemenda og starfsfólks og það er trú mín að þeir nemendur sem eru að kveðja okkur hér í dag beri þessa fagurt vitni. Hið sama er að segja um íbúa hinnar sameiginlegu heimavistar MA og VMA. Þar koma saman unglingar af öllum landshornum og búa í sátt og samlyndi. Það er alltaf jafn ánægjulegt að taka þátt í hinu árlega jólahlaðborði þeirra þar sem reiddar eru fram krásir fyrir 350 manns. Sé unnt að tala um menningu eða kúltúr; þá er þetta smfélag gott dæmi sem önnur ungmenni, hvar í  heimi sem er, gætu tekið sér til fyrirmyndar. Þess vegna segi ég alltaf óhikað að nemendur okkar séu til fyrirmyndar og er alltaf jafn stoltur af þeim. Það getum við öll verið. En slíkt þykir yfirleitt ekki í frásögur færandi. Í svo fjölmennu og að mörgu leyti flóknu skólasamfélagi eins og hér  í VMA leynist víða hæfileikafólk sem segist ekki vilja láta á sér bera. Við þurfum að búa svo um hnútana að félagslífið verði aðlaðandi bæði fyrir þetta hæfileikafólk og alla hina – sem ætlað er að njóta þess og taka þátt. Þetta sést best á söngkeppninni þar sem ekki er óalgengt að boðið sé upp á á þriðja tug frábærra tónlistaratriða ár hvert. Slíkra hæfileika, sköpunargleði og menningar viljum við gjarnan njóta við fleiri tækifæri. Og við kennararnir og annað starfsfólk eigum að taka þátt og leggja okkar lóð á vogarskálarnar. Við eigum að styrkja og hvetja nemendur okkar til góðra verka. Þá er þess að geta að fjölmargir nemendur okkar stunda margvíslegar íþróttir og sumir hafa skipað sér í fremstu röð í sínum greinum. Við höfum verið dugleg að vekja athygli á því sem gerist í félagslífinu og ekki síður þeim mörgu tilvikum þar sem nemendur okkar eru að gera það gott utan skólastofunnar.“

Fjárhagur framhaldsskólanna og rekstrarumhverfi
Hjalti Jón gerði fjárhag framhaldsskólanna að umtalsefni í ræðu sinni. Sagði hann fagnaðarefni að framhaldsskólakennarar hafi loks fengið umtalsverða launahækkun á síðustu mánuðum og leiðréttingu miðað við aðra hópa innan BHM.  Engu að síður séu skólarnir slippir og snauðir og fái ekki það rekstrarfé sem þeir þurfi á að halda til þess að annast grunnþjónustu. Í kjölfar efnahagshrunsins hafi farið fram mjög mikil hagræðing innan framhaldsskólakerfisins en því miður hafi hagur þeirra ekki vænkast í samræmi við upprisu þjóðlífsins síðustu misserin. Skólarnir fái ekki nægileg framlög til þess að greiða kennurum þau laun sem þeir hafa samið um við ríkið og muni þar  12-15 prósentum. Þá sé heldur ekki tekið tillit til samningsbundins þáttar í kjarasamningi sem geri ráð fyrir aldurstengdum kennsluafslætti  – en sá hópur kennara sem njóti slíkra kjara sé orðinn býsna stór í mörgum framhaldsskólum. Í VMA nemi þessi þáttur 7-8 stöðugildum – eða í kringum 60 milljónum króna á ári. Af þessum sökum þurfi skólarnir að taka fjármuni úr öðrum rekstri til þess að standa í skilum við kennara sína. „Við skólameistarar förum ekki fram á annað en skólarnir fái greitt í samræmi við kjarasamninga, sem fjármálaráðuneytið sjálft hefur gert.  Svo er okkur borið á brýn, m.a. af formanni fjárlaganefndar Alþingis, að við rekum ekki skólana nægilega vel og þess vegna séu þeir nú reknir með halla. Sem formaður Skólameistarafélags Íslands fór ég ásamt meðstjórnarfólki mínu á fund fjárlaganefndar um miðjan nóvember til þess að vekja athygli á rekstrarvanda skólanna og ástæðum hans. Við fengum þar sömu trakteringar og stjórnendur Landspítalans sem fjallað var um í fjölmiðlum fyrir stuttu. Við getum í raun ekki setið undir þessu lengur; en spurningin er sú hvað sé til ráða þegar viðhorf kjörinna fulltrúa á Alþingi eru svo neikvæð sem raun ber vitni og lítill áhugi á því að framhaldsskólar landsins geti sinnt sjálfsagðri grunnþjónustu. ,,Dragið bara úr kennslunni og athugið hvort það dugi ekki til þess að rétta reksturinn við," er sagt í öðru orðinu en í hinu að brýnt sé að nemendur fái þá kennslu og viðurgjörning sem aðalnámskrá mennta- og menningarmálaráðuneytisins gerir ráð fyrir. - Slík er okkar rekstrarparadís,“ sagði Hjalti Jón.

30 ára skóli
Á síðasta starfsári fagnaði VMA 30 ára ára afmæli sínu. Hjalti Jón sagði eitt meginmarkmið skólastarfsins að þjónusta nærsamfélagið á margvíslegan hátt. Til þess þurfi skólinn að vera í góðu sambandi við atvinnulífið á svæðinu og skólinn geri sér á hverjum tíma grein fyrir breytilegum þörfum þess. „Í því sambandi langar mig að segja frá því að fram á þennan dag hefur verið starfandi matvælabraut sem boðið hefur upp á grunnnám matvælagreina, matartæknanám og síðast en ekki síst fullnaðarnám kjötiðnaðarmanna í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu. Lengi  hafa vonir okkar staðið til þess að einn góðan veðurdag yrði baklandið orðið þannig að VMA gæti boðið upp á fullnaðarnám fyrir bæði kokka og þjóna. Í ljósi aukinna umsvifa í ferðaþjónustu og fleiri veitingastaða með svokölluð nemaleyfi eru aðstæður hér norður við ysta haf orðnar slíkar að unnt verður að hefjast handa haustið 2016. Vonandi mun skólinn því bæta úr brýnni þörf fyrir fólk með þessa menntun hér á svæðinu, sem er mjög ánægjulegt. Hingað til hafa nemendur þurft að fara suður í Kópavog til þess að fullmennta sig á þessu sviði og að slíku er ekki hlaupið.“

Góðar minningar
Eins og fram hefur komið tekur Hjalti Jón við starfi skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík um áramót. Hann sagðist eiga góðar minningar frá árum sínum í VMA „Það var mikill heiður á sínum tíma að vera trúað fyrir því að verða skólameistari VMA. Að taka við því góða og mikla búi sem búið var að byggja upp þau fimmtán ár sem liðin voru frá því að skólinn var stofnaður. Stöðug þróun og uppbygging. Að fá að taka við keflinu og halda starfinu áfram. Ég hef reynt að gera mitt besta. Ég á margar góðar minningar í tengslum við störf mín í VMA.  Hæst ber að mínu mati öll þau góðu kynni sem ég hef átt við nemendur skólans fyrr og síðar og það frábæra starfsfólk sem skólinn hefur á að skipa. Þá hefur það veitt mér ómælda ánægju að fá á tilfinninguna hversu skólinn er mikils metinn í nærsamfélagi sínu og á landsvísu og að fá að kynnast þeim fjölmörgu einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum sem skólinn hefur átt samstarf við. Ég er forsjóninni þakklátur fyrir að hafa átt þess kost að kynnast þessu fjölbreytta námi sem hér er boðið upp á og þá ekki síst verknáminu. Þetta hefur þroskað mig og styrkt og breytt viðhorfum mínum. Ég mun fara með gott veganesti héðan. Eftir 21 árs veru hér á Norðulandi er ég orðinn landsbyggðarmaður af lífi og sál og vonandi mun það lita störf mín næstu árin við bakka Reykjavíkurtjarnar.“

Brautskráð um 3500 nemendur VMA
Hjalti Jón sagði að hann hefði brautskráð um 3500 nemendur VMA á þeim tíma sem hann hafi verið skólameistari. „Þegar ég ákvað að sækja um starf skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík sá ég mér leik á borði að ef ég fengi það starf þá gæti ég lokað hringnum á starfsferli mínum – en ég hóf kennsluferil minn í þessum gamla skóla við Fríkirkjuveginn. Það er nokkuð síðan að ýmsir fóru að spyrja mig að því hvað ég ætti orðið langt í eftirlaunin og hvort ég ætlaði mér ekki að hætta að vinna fljótlega og setjast jafnvel í hinn marglofaða helga stein. Mér finnst ég eiga nóg eftir af elju og áhuga og hlakka til að takast á við ný verkefni. En talandi um aldur þá get ég ekki neitað því að ég hef orðið fyrir nettu aldurssjokki nokkrum sinnum á undanförnum mánuðum. - Ég var einu sinni sem oftar staddur í höfuðborginni á dögunum og tók leigubíl frá heimili mínu og út á flugvöll á leið minni til Akureyrar. Sem ég rétti leigubílstjóranum, sem var kannski svona um fertugt,  debetkortið mitt þá sagði hann: ,,Heyrðu; eldri borgarar í Kópavogi og Garðabæ eru komnir með sérstök kort." ,,Jæja," sagði ég. ,,Já," sagði hann, ,,þú ættir kannski bara að flytja í Garðabæinn."

Brautskráning og viðurkenningar
Baldvin B. Ringsted, sviðsstjóri verk- og fjarnáms og Ómar Kristinsson, sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta, afhentu nemendum prófskírteini sín.
Að vanda fengu nokkrir nemendur verðlaun og viðurkenningar fyrir námsárangur og fleira:

Saga Snorradóttir - verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í textílgreinum á Listnámsbraut. Gefandi er Kvennasamband Eyjafjarðar.

Filippía Svava Gautadóttir - verðlaun fyrir bestan árangur í myndlistargreinumá Listnámsbraut. Gefandi er Slippfélagið. Filippía hlaut einnig viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í dönsku. Gefandi er danska sendiráðið á Íslandi. Sömuleiðis hlaut hún sérstaka viðurkenningu fyrir að hafa náðbestum árangri á stúdentsprófi. Gefandi er Gámaþjónustu Norðurlands.

Helga Kristjánsdóttir - verðlaun fyrir bestan árangur í hjúkrunargreinumá sjúkraliðabraut. Gefandi er Sjúkrahúsið á Akureyri.

Daði Petersson - verðlaun fyrir bestan árangur á lokaprófi í rafvirkjun. Gefandi er Ískraft á Akureyri.

Jóhann Birgisson - verðlaun fyrir bestan árangur á sveinsprófi út úr skóla í rafeindavirkjun. Gefandi er Rönning á Akureyri.

Valgeir Hugi Halldórsson - verðlaunfyrir bestan árangur í faggreinum bifvélavirkjunar. Gefandi er Bílanaust á Akureyri.

Sigrún Ísey Jörgensdóttir - viðurkenning fyrir bestan árangur í fagreinumháriðnar. Gefandi er Þórborg ehf.

Höskuldur Sveinn Björnsson, vélstjóri með meiru - sérstök viðurkenning skólameistara fyrir að vera fyrirmyndar skólaþegn. Fyrir góðan árangur í námi en um leið fyrir kurteisi og samviskusemi í starfi.

Þórdís Alda Ólafsdóttir, Tekla Sól Ingibjartsdóttir, Stefán Trausti Njálsson og Hermann Kristinn Egilsson – blómvendir sem þakklætisvottur fyrir dugnað og ósérhlífni í félagslífi í skólanum í þágu félaga sinna.

 

Atriði úr „Bjart með köflum“
Við brautskráninguna voru flutt tvö atriði úr söngleiknum „Bjart með köflum“ eftir Ólaf Hauk Símonarson sem nemendur VMA munu frumsýna 27. febrúar nk. í leikstjórn Péturs Guðjónssonar. Í fyrri atriðinu komu fram Steinar Logi Gunnarsson, Karl Liljendahl, Sindri Snær Konráðsson, Andrea Ósk Margeirsdóttir og Sara Rós Guðmundsdóttir og í því síðara, sem var söngatriði, þau Ragnheiður Diljá Káradóttir, Kári Ármannsson og Valgerður Þorsteinsdóttir. Af þessum tveimur brotum úr söngleiknum að dæma verður meira en full ástæða til þess að fjölmenna í leikhúsið þegar VMA-nemar setja upp “Bjart með köflum” í Freyvangi í Eyfjarðarsveit, en sem fyrr segir er miðað við frumsýningu 27. febrúar nk.

Anna Fanney Stefánsdóttir flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema.

„Hlustið á sjónarmið annarra“
Í lok ræðu sinnar sagði Hjalti Jón: „Á stund sem þessari langar mig að brýna fyrir ykkur nokkur mikilvæg gildi – eins og það að bera virðingu fyrir viðhorfum og skoðunum annarra. Að sýna samferðarfólki ykkar umburðarlyndi á lífsins leið og vera æðrulaus gagnvart því sem þið ráðið ekki við. Hlustið á sjónarmið annarra. Umgangist alla þá er á vegi ykkar verða af sömu alúð – háa sem lága. Komið fram við aðra eins og þið viljið að þeir komi fram við ykkur. Hafið hugfast að ekkert það starf sem ykkur verður falið er svo ómerkilegt að það eigi ekki skilið að vera leyst af hendi af fyllstu alúð og samviskusemi. Verið trú yfir því sem ykkur er treyst fyrir – í stóru sem smáu. Berið virðingu fyrir og verið trú uppruna ykkar og heimabyggð – leggið alúð við móðurmálið. Þessi dagur verður ykkur minnisstæður alla ævi; sá dagur þegar þið stiguð út í lífið reynslunni ríkari og með prófskírteini í hendi sem gefur ykkur tækifæri til að nota hæfileika ykkar og þroskast enn frekar en hingað til hvort sem þið eruð í námi eða starfi.

Áður en ég lýk máli mínu langar mig eins og svo oft áður að leyfa ykkur að njóta með mér lítils ljóðs sem ort hefur verið í tengslum við aðventu og jólahátíðina. Á þessum tíma leitar hugurinn í ýmsar áttir – annars vegar til þeirra sem mega þola þjáningar og böl í heiminum og hins vegar til sinna nánustu. Ljóðið sem ég ætla að lesa fyrir ykkur að þessu sinni er eftir vin minn Þóri Haraldsson, kennara við Menntaskólann á Akureyri, en hann kvaddi okkur langt fyrir aldur fram fyrir tæpum tveimur árum. Ljóðið heitir einfaldlega Jólin 2012:

Þó dimmi á glugga svo að minni á sót
og sjáist hvergi á himni vetrarsól.
Við gefumst ekki upp né guggnum hót
því gleðileg oss nálgast heilög jól.

Þó kaldir vindar blási um gras og grjót
og gusti stíft um menn og þeirra ból.
Við gefumst ekki upp né guggnum hót
því gleðileg oss nálgast heilög jól.

Þó mörg sé fréttin fáránleg og ljót
og fautar illir noti margskyns tól.
Við gefumst ekki upp né guggnum hót
því gleðileg oss nálgast heilög jól.

Að athöfn lokinni stilltu útskriftarnemarnir sér upp til hópmyndatöku á sviðinu í Hofi. Eðlilega þurftu margir aðstandendur að eiga sínar myndir af þessum glæsilega hópi.

Hilmar Friðjónsson tók mikið af myndum á útskriftinni og hér eru þær. Og Lilla Steinke tók líka fjölmargar myndir og hér er þær að finna.