Fara í efni

Samráðsfundur skólastiga um stærðfræði

Haukur Jónsson hefur kennt stærðfræði í 30 ár.
Haukur Jónsson hefur kennt stærðfræði í 30 ár.
Í dag verður að frumkvæði VMA efnt til samráðsfundar fulltrúa VMA og grunnskóla á Akureyri og í nágrannabyggðum um stærðfræði og stærðfræðikennslu. Haukur Jónsson, stærðfræðikennari í VMA, segir afar jákvætt að þessi tvö skólastig – framhalds- og grunnskólastig – skiptist á skoðunum um stærðfræðikennsluna og leitist við að samræma hana milli skólastiga.

Í dag verður að frumkvæði VMA efnt til samráðsfundar fulltrúa VMA og grunnskóla á Akureyri og í nágrannabyggðum um stærðfræði og stærðfræðikennslu. Haukur Jónsson, stærðfræðikennari í VMA, segir afar jákvætt að þessi tvö skólastig – framhalds- og grunnskólastig – skiptist á skoðunum um stærðfræðikennsluna og leitist við að samræma hana milli skólastiga.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að stærðfræðin reynist mörgum erfið í skóla, trúlega er hún fleirum erfiðari viðfangs en margar aðrar greinar. Haukur Jónsson, stærðfræðikennari í VMA, segist ekki kunna að greina af hverju stærðfræðin sé svo mörgum nemendum erfiður þröskuldur.  „Þetta er ekki nýtt vandamál. Allir bera virðingu fyrir stærðfræði og ég held að flestir eigi sér þá ósk að geta verið góðir í stærðfræði.  En eins og með aðrar námsgreinar liggur stærðfræði vel fyrir sumum en öðrum ekki og þá er kúnstin sú að geta sett upp námsefni  sem hentar hverjum og einum nemanda. Síðustu tvö ár höfum við hér í VMA verið að  breyta skipulagi stærðfræðikennslunnar frá því sem áður var sem felst m.a. í því að bjóða upp á fleiri byrjunaráfanga sem passa fyrir viðkomandi nemendur og þá braut sem þeir eru á. Að mínu mati megum við ekki steypa alla í sama mót, miklu frekar eigum við að miða stærðfræðina við þá braut sem nemendur eru á og þeirra starfsvettvang síðar.  Eigi að byggja upp stærðfræðiþekkingu nemanda sem stefnir á háskólanám þar sem hann þarf að kunna góð skil á faginu verður að gera það með stífum kröfum, sem felst í aðferðafræði, skilningi, færni og kunnáttu. Ef nemandinn hins vegar ætlar að nota stærðfræðina sem reiknitækni þarf ekki að gera  þessar sömu kröfur, þá þarf fyrst og fremst að kenna viðkomandi hvernig beri að vinna með tölur, formúlur eða jöfnur. Slík þekking í stærðfræði á við um fjölmargar starfsgreinar, þarna er ekki um að ræða að viðkomandi þurfi að læra svokallaða teoríustærðfræði. Ef við líkjum þessu við t.d. nám í ensku, þá má segja að mörgum nægi að læra ensku þannig að þeir geti bjargað sér á tungumálinu, án þess að sökkva sér niður í Shakespeare eða geta tjáð sig á flókinni vísindaensku.
Viðfangsefni í stærðfræði geta verið nokkuð snúin en það sem ég hef alltaf haft að leiðarljósi í minni kennslu er að setja stærðfræðina upp á einfaldan hátt þannig að nemendur nái að skilja hana sem best.  Með aukinni þjálfun geta nemendur síðan farið að vinna með flóknari hluti en lykilatriðið er einfaldleikinn og að síðan sé byggt ofan á hann. En sumt í stærðfræðinni er vitaskuld flókið og erfitt að skilja en þá hefur reynst mér best að búta efnið niður og takast á við það í þrepum.“

Haukur Jónsson var í hópi fyrstu starfsmanna VMA fyrir þrjátíu árum og því hefur hann langa reynslu af stærðfræðikennslu. Hann segist ekki greina mun á getu fólks í stærðfræði annars vegar fyrir þrjátíu árum og hins vegar nú. „Sumum gengur vel í stærðfræði en öðrum verr. Til þess að ná árangri skiptir auðvitað miklu máli að nemendur hafi áhuga á viðfangsefninu. Hafi þeir það er nær undantekningalaust hægt að hjálpa nemendum að bæta sig,“ segir Haukur og neitar því, þrátt fyrir að hafa kennt í um þrjá áratugi, að hann sé orðinn leiður á því að kenna nemendum stærðfræði. „Nei, alls ekki. Mér finnst afskaplega gaman að vinna með nemendum.  Stundum hefur maður þá tilfinningu í upphafi annar að erfitt verði að kenna einhverjum námshóp stærðfræðina. Það er undantekningalaust misskilningur. Hver einasta önn hefur endað þannig að námshópurinn hefur reynst frábær. Lykilatriðið er að geta unnið með nemendum á þeirra forsendum. Takist það verður samvinna kennarans og nemandans ekkert nema ánægjuleg.“

Í brautskráningarræðu sinni 20. desember sl. gerði Hjalti Jón Sveinsson skólameistari VMA stærðfræði og stærðfræðikennslu meðal annars að umræðuefni. Meðal annars sagði skólameistari: „Lakleg frammistaða í stærðfræði er að mínum dómi  því um að kenna hvernig við kennum börnum og unglingum stærðfræði og hvaða stærðfræði við teljum að nemendur á 21. öldinni þurfi að læra í grunnskóla og fyrstu árin í framhaldsskóla. Þar á ég meðal annars við námskrár, túlkun á þeim og efnistök í byrjunaráföngum. Það er mikið og óviðunandi brotthvarf og fall á prófum í byrjunaráföngum í stærðfræði í íslenskum framhaldsskólum. Unglingarnir koma margir hverjir illa undirbúnir úr grunnskólanum og eru búnir að gefast upp þegar þeir koma til okkar. Okkur hefur því miður ekki tekist að glæða áhuga þeirra sem játa sig sigraða í stærðfræði, gera viðfangsefnið aðlaðandi og fá nemendur til að takast á við það.Úr þessu þurfum við að bæta en það verður ekki gert nema að grunnskólastigið og framhaldsskólastigið taki höndum saman.“

Að frumkvæði VMA verður í dag, föstudag, samráðsfundur VMA og fulltrúa grunnskóla á Akureyri og í nágrannabyggðum um stærðfræðikennslu. Haukur Jónsson segir að grunnskóla- og framhaldsskólastigið hafi gert alltof lítið af því að tala saman og því sé það mjög jákvætt að efna til þessarar samræðu milli skólastiganna nú. „Við lítum á þetta sem fyrsta skref og Hjalti Jón skólameistari hefur lýst því yfir að í lok vorannar verði efnt til málþings um stærðfræði og stærðfræðikennslu.“

Sem fyrr segir hefur Haukur Jónsson starfað hjá VMA frá stofnun hans árið 1984. Hann er verkfræðingur að mennt auk kennsluréttinda. Hann kenndi í einn vetur í Fjölbrautaskólanum á Suðurnesjum en í þrjátíu ár hefur hann starfað hjá VMA. Um skeið var hann brautarstjóri tæknigreina og aðstoðarskólameistari var hann í ellefu ár við hlið Bernharðs Haraldssonar skólameistara. Jafnframt leysti Haukur Bernharð af sem skólameistari til skamms tíma. Haukur segir að mínusinn við aðstoðarskólameistarastarfið hafi verið mikil viðvera á sumrin, sem hafi komið illa niður á golfíþróttinni! Því hafi hann snúið sér aftur að kennslunni og um leið hafi fjölskyldan og golfið fengið rýmri tíma yfir sumartímann.