Fara í efni

Rýnt í menntunarþörf á Norðurlandi eystra

Í sumarbyrjun kom út skýrsla á vegum Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri sem ber yfirskriftina Menntunarþörf í Eyjafirði og í Þingeyjarsýslum – könnun meðal fyrirtækja og stofnana á starfssvæði Eyþings. Skýrslan var unnin fyrir styrk frá Sóknaráætlun Norðurlands eystra í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, SÍMEY og Þekkingarnet Þingeyinga. Í skýrslunni er ítarlega fjallað um fjölbreyttar námsbrautir í VMA.

Markmið með þessu verkefni var að greina menntunarþörf og tækifæri eftir starfssviðum og greinum á Eyþingssvæðinu. Skoðuð var menntunarþörf út frá áherslum atvinnulífsins og forsvarsmenn fyrirtækja og stofnana af öllum stærðum spurðir um þeirra álit og hverjar þeir teldu horfurnar vera hjá sínu fyrirtæki/stofnun í nánustu framtíð.

Samkvæmt niðurstöðum spurningakönnunar sem var gerð vegna skýrslunnar er töluverður skortur á mannafla á Eyþingssvæðinu en hæst var hlutfallið í Norður – Þingeyjarsýslu eða hjá 67% vinnustaða. Mestur reyndist skortu á starfsfólki vera í starfsemi veitna (86%) og heilbrigðis- og félagsþjónusta (76%).

Fram kemur í skýrslunni að fyrirtækjum í iðnaði hefur gengið verst að fá starfsfólk með áskilda menntun og skortur á slíku fólki er áberandi mestur. Þær iðngreinar sem oftast voru nefndar eru rafvirkjun, húsasmíði, bifvélavirkjun og vélvirkjun. Hvað styttri starfsnám áhrærir voru oftast nefndir bifreiðastjórar, félagsliðar og fólk með vinnuvélaréttindi.

Viðmælendur í könnuninni töldu mikinn skort vera á iðnmenntuðu fólki, t.d. í mannvirkjagerð og málmiðnaði. Nokkuð margir sem starfa í þessum greinum væru að komast á efri ár og því væri endurnýjunarþörfin mikil. Var rætt um ímyndarvanda greinarinnar og að auka þyrfti vægi verknáms í grunnskóla.

Það kom skýrt fram að mun erfiðara sé að finna verknámskennara en bóknámskennara og málið sé því aðkallandi ef styðja eigi við iðnmenntun. Kallað er eftir kennsluréttindanámi fyrir iðnmeistara svo þeir geti sótt sér réttindi við Háskólann á Akureyri, enda sé það tímafrekt og því fylgi  Það sé tímafrekt og því fylgi umtalsvert vinnutap að þurfa að sækja námið suður.

Í skýrslunni er því velt upp að í sumum iðngreinum hafi reynst erfitt að komast á samning. Nefnt er í skýrslunni hvort ef til vill sé eðlilegra og heppilegra að það sé á ábyrgð viðkomandi skóla að útvega nemendum sínum samningspláss frekar en að nemandinn þurfi að gera það sjálfur, enda hafi þeir mismiklar bjargir til þess. Þá kom skýrt fram hjá viðmælendum í skýrslunni að þeim finnst vanta háskólanám fyrir þá sem hafa lokið iðnnámi, t.d. eins konar tæknifræði. Í framtíðarsýn Háskólans á Akureyri kemur þó fram að boðið verði upp á tækninám árið 2023.

Sem fyrr segir kom þessi skýrsla út í sumarbyrjun, skömmu fyrir sumarleyfistímann og því hefur ekki verið mikið um hana fjallað fyrr en nú. Skýrslunni var fylgt eftir með málþingi í Háskólanum á Akureyri 18. september sl. Frummælendur voru Arnar Þór Jóhannesson, sérfræðingur hjá Rannsóknastofnun HA og einn þriggja höfunda skýrslunnar, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, og Baldvin B. Ringsted, sviðsstjóri verk- og fjarnáms í VMA.

Í pallborðsumræðum að loknum framsöguerindum voru Þóra Pétursdóttir hjá Capacent, Erla Björg Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Norðurorku, Óli Halldórsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Þingeyinga, Siggeir Stefánsson, framleiðslustjóri Ísfélags Vestmannaeyja á Þórshöfn og Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY.

Í erindi sínu greindi Baldvin B. Ringsted frá ýmsu er lýtur að verknáminu í VMA. Hann nefndi að það væri erfitt að breyta því viðhorfi margra að iðnnám væri blindgata og því miður væri það svo að margir foreldrar beindu nemendum sínum í stúdentspróf, af því að þeir þyrftu að taka stúdentspróf, en staðreyndin væri sú að nemendum sem færu í iðnnám stæði ekkert síður til boða að taka stúdentspróf, til dæmis útskrifuðust allir vélstjórar með stúdentspróf og fjölmargir í iðnnámi, t.d. rafvirkjar, tækju líka stúdentspróf. Þessir nemendur hefðu þá bæði lokið starfsnámi með starfsréttindum og hefðu að auki stúdentspróf - og stæðu því vel að vígi gagnvart störfum á vinnumarkaði eða námi á háskólastigi.

Í þessu sambandi má geta þess að rannsóknir hafa verið gerðar á því af hverju svo yfirgnæfandi fjöldi íslenskra nemenda fer í bóknám en ekki starfsnám. Í Fréttablaðinu sl. föstudag var greint frá doktorsverkefni Heiðar Hrundar Jónsdóttur í félagsfræði þar sem hún rannsakar áhrif foreldra á námsferil framhaldsskólanema. Hún segir vísbendingar um að þrýstingur frá foreldrum verði til þess að svo margir nemendur fari í bóknám og þessi mikla áhersla á bóknámið sé líklega ein af ástæðum brottfalls margra nemenda úr framhaldsskólum.

Baldvin B. Ringsted nefndi í erindi sínu á ráðstefnunni 18. september sl. að nú væru 587 nemendur af 1228 nemendum í dagskóla og fjarnámi í VMA í iðn- og starfsnámi, þar með taldir nemendur í meistaraskólanum. Á bilinu 100-200 nemendur séu útskrifaðir á hverju ár af iðn- og starfsnámsbrautum skólans. Balvin varpaði upp glæru með upplýsingum um útskrifaða nemendur úr VMA sl. tíu ár. Þar kemur fram að sl. áratug hafi skólinn útskrifað 207 rafvirkja (þ.m.t. þeir vélstjórar sem taka viðbótarnám í rafvirkjun), 147 húsasmiði, 47 stálsmiði, 88 bifvélavirkja, 27 málara, 27 pípulagningamenn og 39 hársnyrti.