Fara í efni

Ný nálgun í verklegum greinum

Ýmsum tæknilausnum er beitt í miðlun námsefnis.
Ýmsum tæknilausnum er beitt í miðlun námsefnis.

Fjarnám er töluvert flóknari veruleiki í verklegum greinum en í þeim bóklegu og í sameiningu hafa kennarar og nemendur verknámsdeilda sett sig í aðrar stellingar og leitað nýrra lausna. 

Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðnaðargreina, segir að þessi staða sé alveg ný og óþekkt í kennslu í málmiðngreinum í VMA enda sé fagkennslan að langstærstum hluta verkleg. „Við höfum verið að feta okkur áfram í þessu, m.a. höfum við safnað saman miklu myndbandaefni sem til er á netinu og sendum nemendum til þess að skoða. Við stofnuðum fb-hóp þar sem eru nemendur í grunndeildinni og nemendur í smíðaáfanga í vélstjórn og þar deilum við þessum myndböndum. Það er ógrynni til af slíku efni, sumt er gott en annað ekki. Við síum lakara efnið frá og deilum vönduðu og áhugaverðu kennsluefni til nemenda. Við að safna efninu saman hef ég rekist á ýmislegt sem ég vissi ekki af og því er ég í leiðinni að læra. Í framhaldinu munum við geta nýtt okkur sumt af þessu til kennslu. Við höfum einnig verið í sambandi við ýmis vélaumboð og Iðuna fræðslusetur til þess að fá upplýsingar um mögulegt námsefni sem við getum nýtt okkur,“ segir Hörður. Nemendur lengra komnir í málmiðngreinum – t.d. í stál- og blikksmíði – sem hafa flestir unnið með náminu hafa fengið tækifæri til þess að vinna meira. Eftir sem áður eru kennarar þeirra í VMA í góðu og reglulegu sambandi við þá.

Jóhann Þorsteinsson, kennari í byggingadeild, segir að kennarar leggi mikla áherslu á virkni nemenda og þeir séu í góðu sambandi við þá. Mismunandi sé eftir kennurum hvernig þeim samskiptum sé háttað en notaðar séu ýmsar tæknilausnir, bæði í Google og Moodle, til þess að miðla upplýsingum og verkefnum. Einnig séu nemendur í tölvupóstsamskiptum við kennara. Eftir sem áður sé nemendum gert að skila inn verkefnum í námi sínu á réttum tíma og enginn afsláttur sé gefinn af því. Jóhann segist vita um dæmi þess að lengra komnir nemendur í húsasmíði sem vinna í hlutastarfi með námi sínu í VMA hafi boðist að auka vinnu undir handleiðslu meistara á meðan á þessu ástandi stendur og óskað hafi verið eftir að þessir nemendur haldi einskonar dagbók um það sem þeir eru að gera á degi hverjum og skili þeim til kennara. „Við höfum verið að þreifa okkur áfram með ýmsar lausnir, hvernig við getum kennt hlutina í gegnum netið. Það eru ýmsar leiðir færar í því. Eitt af því sem við höfum gert er að taka myndir af vélunum sem nemendur hafa verið að vinna með hér í deildinni, sent þær á nemendur og kallað eftir þekkingu þeirra á ýmsum hlutum er lúta að notkun vélanna. Við ætlumst til þess að nemendur láti í sér heyra og sýni virkni,“ segir Jóhann en hann hefur sett upp sitt svæði á heimasíðunni www.10to8.com þar sem nemendur geta bókað viðtöl eða spjallað við hann um verkefnaskil eða annað er lýtur að framvindu námsins. Viðtölin eru síðan tekin annað hvort í gegnum síma eða Google Meet/Hangouts.

Þess eru dæmi að nemendur á fimmtu önn, sem stefna á sveinspróf í húsasmíði í vor, hafi tekið smíðagripi heim til þess að halda áfram með þá, ef þeir hafa til þess aðstöðu.