Fara í efni

Nemendur vorönn 2014 - Greiðsluseðlar vegna innritunargjalda

Búið er að senda út greiðsluseðla vegna innritunargjalda til flestra nemenda sem eru í skólanum nú á haustönn og hafa sótt um skólavist á vorönn 2014. Seðlarnir voru sendir á lögheimili og er eindagi 3. desember 2013

Við viljum minna nemendur á að mjög mikilvægt er að greiða seðlana á réttum tíma. Með greiðslu innritunargjalds er umsóknin staðfest. Ef ekki er greitt á réttum tíma er litið svo á að nemandinn hafi fallið frá umsókn sinni.

Með greiðsluseðlunum er verið að innheimta innritunargjald, kr. 6.000.- , gjald til nemendafélagsins Þórdunu kr. 3.000 og þjónustugjald kr. 4.000. Með greiðslu seðilsins staðfestir þú umsókn þína fyrir næstu önn.

Gjalddagi greiðsluseðilsins er 1. desember 2013 og eindagi 3. desember 2013. Hafir þú ekki greitt seðilinn þá, verður litið svo á að þú hafir fallið frá umsókn þinni. Eftir eindaga leggst 1.500 króna gjald á kröfuna. Fljótlega eftir eindaga er nafn þitt fjarlægt af nemendalista skólans og greiðsluseðillinn felldur niður.

Greiðsluseðlar eru sendir á lögheimili nemenda. Greiðslan birtist í heimabanka nemenda sem eru orðnir 18 ára. Hjá nemendum yngri en 18 ára birtist seðill í heimabanka þess forráðamanns sem eldri er. Óski foreldrar eftir að reikningar frá VMA komi frekar fram hjá öðrum forráðamanni þá er hægt að breyta upplýsingum í INNU með því að fara í liðinn Námið – greiðslur og velja kennitölu þess forráðamanns sem óskar eftir að sjá kröfuna hjá sér. Ekki er hægt að gera þessa breytingu vegna núverandi reiknings.

Efnisgjald vegna verklegra áfanga verður innheimt með greiðsluseðli í byrjun annar.

Skv. lögum um framhaldsskóla skulu nemendafélög og nemendaráð starfa í skólunum. Hlutverk þeirra er að gæta hagsmuna nemenda í málum er varða réttindi og skyldur þeirra. Nemendafélagið stendur auk þess fyrir margskonar félagsstarfi auk þess sem félagar þess eiga kost á fyrirgreiðslu af ýmsu tagi. Nemendum er hinsvegar ekki skylt að vera í nemendafélaginu og eiga þess kost að fá nemendafélagsgjaldið endurgreitt. Sækja þarf um endurgreiðslu á skrifstofu skólans fyrir 17. janúar n.k. Nemendur eru eindregið hvattir til að vera í nemendafélaginu þ.a. tryggja megi því sem mestan kraft hvort sem er á sviði félagslífs eða í mikilvægum málum er varða hagsmuni nemenda.

Í skólanum er mötuneyti sem Lostæti rekur, þar geta nemendur keypt heitan hádegisverð og aðrar veitingar. Hagkvæmast er að kaupa svokölluð annarkort sem verða seld í upphafi annar m.a. þegar nemendur sækja stundatöflur sínar. Sjá nánar á heimasíðu Lostætis (http://www.lostaeti.is/is/vma) og VMA (Terían - tákn hægra megin á síðu).

Auglýst verður á heimasíðu skólans hvenær stundatöfluafhending fer fram.

Ýmis stoðþjónusta er í skólanum. Hér eru náms- og starfsráðgjafar, sálfræðingur og hjúkrunarfræðingur. Upplýsingar um viðtalstíma þessara aðila má fá á skrifstofu skólans og á heimasíðunni. Nemendur hafa einnig aðgang að kennurum í svokölluðum stoðtímum en þar geta nemendur fengið aðstoð í ýmsum greinum. Upplýsingar um stoðtíma verða settar á heimasíðuna í 2.-3. kennsluviku.