Fara í efni

Nemendur af erlendu þjóðerni kalla eftir meiri íslenskukennslu

Anna Lilja Harðardóttir, íslenskukennari við VMA.
Anna Lilja Harðardóttir, íslenskukennari við VMA.

Anna Lilja Harðardóttir, íslenskukennari við VMA, hefur til fjölda ára kennt nemendum af erlendu þjóðerni íslensku. Hún hefur því fengið ágætis innsýn í hugarheim þessara nemenda og viðhorf þeirra til náms í framandi landi og hvar skóinn kreppir. Hún ákvað því að rita meistararitgerð sína í menntavísindum við Háskólann á Akureyri vorið 2015 um þetta málefni. Ritgerðina nefndi hún „Að vera nemandi með íslensku sem annað tungumál í framhaldsskóla á Íslandi.“

Áhersla Önnu Lilju í meistaraverkefni sínu var að komast að því hvaða hindranir verði helstar á vegi innflytjenda í framhaldsskólum og hvernig unnt sé að tryggja velferð þeirra og námsárangur.

Anna Lilja bendir á að í aðalnámskrá framhaldsskóla komi fram hvert hlutverk framhaldskólans sé – sem sagt að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Tekið sé fram að skólarnir skuli leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu. Einnig vísar Anna Lilja til þess í aðalnámskrá að framhaldsskólar skuli koma til móts við þarfir nemenda af erlendum uppruna með íslenskukennslu, fræðslu um íslenskt samfélag og menningu og liðsinni við heimanám, með jafningjastuðningi eða öðrum þeim ráðum sem að gagni megi koma. Einnig sé það tekið fram að hver skóli skuli setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku þar sem fram komi helstu atriði um skólastarfið á máli sem nemendur og forráðamenn ólögráða nemenda geti skilið.

Spurningin sem Anna Lilja lagði upp í rannsókn sinni var eftirfarandi: „Hver er reynsla nemenda með íslensku sem annað tungumál af því að hefja og stunda nám í framhaldsskóla á Íslandi?“

Með rannsókninni vildi Anna Lilja fá fram hver væri reynsla innflytjenda af því að hefja og stunda nám í framhaldsskóla á Íslandi, hvað væri vel gert í skólunum og hvaða umbætur væru líklegar til að gera nemendum með íslensku sem annað tungumál betur kleift að ljúka námi í framhaldsskóla og síðast en ekki síst hverjar væru þarfir innflytjenda og hvernig væri best komið til móts við þær.

Viðmælendur í rannsókninni, þ.e. nemendur með íslensku sem annað tungumál, voru í sex framhaldsskólum, samtals tíu manns.

Anna Lilja segir að niðurstöður rannsóknarinnar hafi um margt verið afar athyglisverðar. Hinn rauði þráður í svörum við rannsóknaspurningunni hafi verið ákall um meiri íslenskukennslu og aðstoð við námið, ekki síst heimanámið. Þá hafi greinilega komið í  ljós að viðmælendur hafi ekki orðið varir við virkjun móttökuáætlunar skólanna, eins og aðalnámskrá gerir ráð fyrir. Þá segir Anna Lilja að það hafi almennt komið fram að nemendurnir hafi fundið út með hjálp vina sinna í skólunum hvernig þeir virkuðu.

„Þetta hefur verið hugarefni mitt til fjölda ára, þ.e. að fylgjast með því hvernig þessum nemendum vegnar. Ég komst fljótt að raun um að þessir nemendur þyrftu meiri íslenskukennslu til þess að þeim gengi betur í öðrum námsgreinum og mig langaði að finna út hvernig hægt væri að hjálpa þeim. Rannsókn mín var í raun staðfesting á því sem ég taldi mig hafa fundið út – að það væri almennt ákall nemendanna á meiri íslenskukennslu og stuðning. Of lítil íslenskukunnátta kemur niður á námsárangri nemenda í öðrum greinum, það fer ekkert á milli mála. Í mínum huga er alveg ljóst að framhaldsskólana vantar peninga til þess að geta framfylgt aðalnámskrá og móttökuáætlun skólanna,“ segir Anna Lilja Harðardóttir.