Fara í efni

Mikilvægt nám fyrir ört vaxandi ferðaþjónustu

Brauðið fullbakað og tilbúið á borðið.
Brauðið fullbakað og tilbúið á borðið.

Það liggur fyrir að óbreyttu, ef mið er tekið af öllum fyrirliggjandi spám, að verulegur skortur verður á fagmenntuðu fólki í ferðaþjónustu – veitinga- og hótelgeiranum – í framtíðinni og nú þegar er orðið erfitt að fá menntað fólk í þessi störf. VMA hefur um árabil verið með matvælabraut og þaðan hefur útskrifast mikið af góðu fagfólki sem hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar. Frá og með þessari önn er aukin áhersla lögð á ferðaþjónustu, enda er sú atvinnugrein í hröðum vexti og til marks um það heitir námsbrautin núna Grunnnám matvæla- og ferðagreina.

Námið er ætlað nemendum sem stefna að frekara námi í matvæla- og ferðagreinum og er undirbúningur fyrir iðnnám í matreiðslu, bakstri, framreiðslu og kjötiðn en einnig er það undirbúningur fyrir frekara nám í matartækni og/eða í ferðaþjónustu.

Nemendur í grunnnámi matvæla- og ferðagreina fá góða innsýn í matreiðslu af öllum toga og læra grunnatriðin í framreiðslu. Að mörgu þarf að hyggja, gerðar eru ríkar hreinlætiskröfur og mikilvægt er að ganga skipulega til verks enda er skipulagsgáfa afar mikilvægur einleiki allra þeirra sem vinna í þessum geira atvinnulífsins.

Þegar litið var inn í kennslustund hjá nemum í grunnnámi matvæla og ferðagreina voru nemendur að vinna í þremur hópum með jafnmörgum kennurum; einn hópurinn undir leiðsögn Marínu Sigurgeirdóttur einbeitti sér að því að útbúa mismunandi útfærslur á eftirréttum, annar hópur undir styrkri stjórn Ara Hallgrímssonar var önnum kafinn við að baka brauð og elda annars vegar súpu og hins vegar djúpsteiktan þorsk og þriðji hópurinn, sem Edda Björk Kristinsdóttir hafði umsjón með, sá um að leggja á borð og annast önnur verk við undirbúning matarborðsins samkvæmt kúnstarinnar reglum.

Sem fyrr segir fá allir nemendur góða innsýn í grunnatriði matreiðslu og framreiðslu og síðan í framhaldinu velja nemendur hvaða leið þeir fara til frekara náms. Auðvitað er það alltaf svo að einhverjir fara að grunnnáminu loknu í allt aðra átt í námi en engu að síður nýtist þetta grunnnám þeim afar vel í þeirra daglega starfi í skóla lífsins.

Fyrr í þessari viku kynntu fulltrúar stjórnvalda og Samtaka ferðaþjónustunnar nýja og víðtæka stefnu í ferðamálum – einskonar átaksverkefni til næstu fimm ára. Í þessari stefnu er að vonum getið um nauðsyn á menntun fólks í ferðaþjónustu. Þar segir m.a.:

„Ferðaþjónusta er þekkingargrein sem byggist á starfsfólki, hæfni þess og þekkingu og því þarf að setja mönnun, hæfni og fagmennsku í ferðaþjónustu í forgrunn. Þá þarf að laða hæft starfsfólk að greininni og tryggja aðgang að þekkingu, fræðslu og menntun. Í því skyni þarf að vinna með menntamálayfirvöldum og fræðsluaðilum og leggja áherslu á vinnustaðaþjálfun. Stuðla þarf að eflingu styttri, hagnýtra námsbrauta og byggja brýr milli formlegs náms og óformlegs, m.a. með því að auka svigrúm í námskrá fyrir námsmat og raunfærnimat sem byggist á reynslu og þekkingu einstaklinga. Þá verði fyrirtæki hvött til að gera þjálfunaráætlanir og einnig til þess að nýta sér, ef við á, „fræðslustjóra að láni“ eða aðrar leiðir til að styðja við mannauðsáherslur. Þörfin fyrir mannafla í hverjum landshluta verði skilgreind í takt við fjölgun ferðamanna þannig að mannaflaáætlanir liggi fyrir hverju sinni.“