Fara í efni

Með áherslu á mannréttindamál

Nemendur ásamt kennurunum Þorsteini og Valgerði.
Nemendur ásamt kennurunum Þorsteini og Valgerði.
Mannréttindi eru rauði þráðurinn í valáfanganum FEL4736 Lýðræði og mannréttindi sem Þorsteinn Krüger og Valgerður Dögg Jónsdóttir kenna. Áfanginn var fyrst kenndur árið 2008 og þá var VMA fyrsti framhaldsskólinn til þess að bjóða upp á sérstakan áfanga með áherslu á mannréttindi.

Mannréttindi eru rauði þráðurinn í valáfanganum FEL4736 Lýðræði og mannréttindi sem Þorsteinn Krüger og Valgerður Dögg Jónsdóttir kenna. Áfanginn var fyrst kenndur árið 2008 og þá var VMA fyrsti framhaldsskólinn til þess að bjóða upp á sérstakan áfanga með áherslu á mannréttindi.

„Frá því við byrjuðum árið 2008 að bjóða upp á þennan áfanga höfum við þróað hann og bætt og þegar á heildina er litið erum við mjög ánægð með hvernig til hefur tekist. Við leggjum meðal annars áherslu á virka þátttöku nemenda í tímum og það gengur ágætlega. Auðvitað er það þó alltaf svo að nemendur eru misjafnlega virkir í umræðum en það hafa skapast mjög áhugaverðar umræður um ýmislegt sem lýtur að mannréttindum, bæði hér á landi og víða um heim,“ segja þau Þorsteinn og Valgerður Dögg og bæta við að flestir nemendur í áfanganum séu komnir á síðari hluta náms í skólanum og hafi því orðið ágætis bakgrunn.

Liður í áfanganum er að nemendur fylgjast mjög vel með umræðu um mannréttindanám í fjölmiðlum, bæði innlendum og erlendum, og síðan er alltaf farið yfir fréttir liðinnar viku á mánudögum.

Ekki er stuðst við námsbók í áfanganum en þess í stað leggja nemendur lítilræði í hverjum mánuði í sjóð sem þeir síðan greiða til drengs í Kína, sem á engan að, í gegnum SOS Barnaþorp.

Á þriðja tug nemenda eru í áfanganum. Í byrjun í haust var farið eilítið í sögu mannréttinda í heiminum en nú er áherslan fyrst og fremst á daginn í dag, bæði hér á landi og erlendis. Auk umræðna í tímum er töluvert um verkefni af ýmsum toga. Áfanginn er þrjár einingar og eru sex kennslustundir á viku.

Nýjung að þessu sinni er lokuð fésbókarsíða sem var stofnuð í kringum áfangann og er vettvangur líflegra skoðanaskipta nemenda um mannréttindamál. Þorsteinn og Valgerður Dögg segjast hafa skrifað færslur inn á síðuna í upphafi en síðan hafi nemendur smám saman tekið hafa yfir, sem hafi einmitt verið hugmyndin. Oft og tíðum séu þar lífleg skoðanaskipti um þau málefni sem beri hæst á hverjum tíma.

Embla Orradóttir og Veigar Árni Jónsson, sem bæði eru á samfélags- og hugvísindabraut, eru hæstánægð með áfangann. „Þetta er klárlega minn uppáhalds áfangi hér í skólanum og ég hef lært meira í honum en í mörgum öðrum áföngum samanlagt. Það er gríðarlega þroskandi að taka þátt í umræðum um mörg álitamál sem snerta mannréttindi. Mér finnst bara frábært að sé boðið upp á slíkan áfanga hér í VMA,“ segir Embla og upplýsir að málaflokkurinn sé sér kær því hún hafi um skeið unnið að hagsmuna- og baráttumálum hinsegin fólks. „Staðreyndin er sú að út um allt samfélagið eru fordómar í hinum og þessum málum. Ég held að þeir sem eru að takast við fordóma hjá sjálfum sér hefðu mjög gott af því að sitja áfanga eins og þennan,“ segir Embla.

Veigar Árni orðar það svo að áfanginn hafi reynst vera afar fræðandi. „Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart er hversu margt telst til mannréttindamála. Á hverjum degi eru fjölmiðlarnir fullir af fréttum sem tvímælalaust geta flokkast undir að tengjast mannréttindum á einn eða annan hátt. Ég held svei mér þá að þessi áfangi þyrfti að vera skylduáfangi í framhaldsskólum, ég tel að það hefðu allir gott af því að fjalla um og ræða þessi mál. Þetta þroskar mann svo sannarlega í hugsun,“ segir Veigar Árni.