Fara í efni

Lokafundur ApprEUnances í Ljubljana í Slóveníu

Lokafundurinn í verkefninu var í Ljubljana í Slóveníu.
Lokafundurinn í verkefninu var í Ljubljana í Slóveníu.

Dagana 6.-7. nóvember sl. sóttu Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari og Jóhannes Árnason kennari lokafund í Ljubljana í Slóveníu í Erasmus+ verkefninu ApprEUnances sem í stórum dráttum fjallar um samstarf atvinnulífs og skóla. Verkefnið vísar til hugtakanna apprenticeship and alternance eða námssamninga/starfsnáms til skiptis á vinnustað og í skóla.

Þessu verkefni hefur verið stýrt af MFR - Maison Familial Rurale í Frakklandi, sem er einskonar regnhlífarstofnun eða kerfi yfir fjölmarga litla dreifbýlisskóla þar í landi sem reknir eru í samstarfi við fjölskyldur á hverju svæði. Auk Frakklands, Slóveníu og Íslands hafa tekið þátt í þessu verkefni fulltrúar frá Portúgal, Írlandi og Belgíu.

Á sínum tíma, fyrir kóvid farldurinn, tók VMA þátt í styrkumsókn um þátttöku í verkefninu. Ýmislegt gerði það þó að verkum að VMA tók ekki þátt í fyrri hluta verkefnisins en eftir kóvid kom VMA inn í það. Fyrir rétt rúmu ári var vinnustofa í verkefninu í VMA eins og hér má lesa um. Og í mars á þessu ári fóru þrír kennarar úr VMA, Daníel Freyr Jónsson, Hrafnhildur S. Sigurgeirsdóttir og Dagbjört Lauritz Agnarsdóttir, til Sligo á Írlandi þar sem m.a. voru heimsóttir nokkrir skólar og stofnanir með sérhæfingu í verknámi þar sem er unnið til skiptis á vinnustað og í skóla samkvæmt því fyrirkomulag sem Írar vinna eftir.

Á vormánuðum, skömmu fyrir páska, fór Jóhannes Árnason til Orléans í Frakklandi á ráðstefnu og fund í verkefninu þar sem sjónum var fyrst og fremst beint að tengslum skólanna við vinnustaðina þar sem nemendur eru í starfsþjálfun og hvernig unnt sé að nýta tölvur og námsumhverfi á netinu.

Dagbjört, Daníel Freyr og Hrafnhildur fóru síðan til Liege í Belgíu í byrjun júní sl. og sóttu fund í verkefninu.

Verkefnið tók loks þátt í menntaráðstefnu í París í september sl. sem Daníel sótti fyrir hönd VMA og sem fyrr segir var lokafundurinn í verkefninu haldinn í Ljubljana fyrr í þessum mánuði.

En hvaða lærdóm er  hægt að draga af þessari samevrópsku vinnu. Jóhannes Árnason kennari í VMA segir að þegar starfsnámskerfið á Íslandi sé skoðað og borið saman við kerfi í öðrum löndum komi í ljós að eitt og annað sé prýðilega vel gert hér, nám í skóla sé öflugt og vinnustaðirnir þjálfi nemana vel. Hins vegar fari hlutfallslega fáir nemendur á Íslandi þessa svokölluðu starfsnámsleið.

Jóhannes bendir á að í sumum löndum Evrópu sé fleiri nemum boðnar starfsnámsleiðir en sækja um. Hér á landi hafi þessu verið öðruvísi farið, hér séu umsóknir umfram framboð á plássum. Hér á landi segir Jóhannes að sé ekki vel formað samstarf skóla og vinnustaða um nám og þjálfun. Vissulega séu skólar og fyrirtæki í samstarfi en oft byggist það á persónulegum tengslum og fyrirtæki styrki skóla með efni og tæki. Það að námið sjálft sé ein heild og samræmt í skóla og á vinnustað segir hann að sé einungis í fáum greinum

Jóhannes telur ýmis tækifæri til að þróa fleiri leiðir í starfsnámi og ekki síst í greinum sem ekki hafi til þessa verið mikið starfsnám, t.d. í verslunargreinum, ferðaþjónustu, öryggisgæslu, jarðvinnu, lagerhaldi, flutningum og umönnun og þjónustu við fólk. Jóhannes bendir á að vissulega sé til nám í mörgu af framangreindu, t.d. á háskólastigi, en það þurfi líka fólk sem fái þjálfun í að vinna grunnstörfin og viðurkenningu á hæfni sinni.

Á framangreindum fundi í Liege í Belgíu í júní sl., sem Daníel Freyr, Dagbjört og Hrafnhildur sóttu, unnu þau ásamt fulltrúum frá Slóveníu og Írlandi eftirfarandi hugrenningar og tillögur:

Ráðleggingar til yfirvalda um þróun á námi á vinnustað og starfsnám.

Peningar
1. Auka þarf fjárveitingar til starfsnáms á vinnustöðum til að styðja margvíslega geira atvinnulífs og styðja við þróun í starfsgreinum.
2. Nýta þarf peninga með sveigjanlegum hætti til að skapa sérsaumaðar námsleiðir sem mæta þörfum nema og atvinnulífs.
3. Koma þarf á fót aðferðum sem hvetja vinnustaði til að taka virkan þátt í þróun námsleiða til dæmis með styrkjum eða í gegnum skattkerfi þannig að það opni fleiri þjálfunartækifæri fyrir nema.

Stefnumótandi framtíðarsýn
1. Að þróa breiða framtíðarstefnu um starfsnám og þjálfun sem nær til lands eða svæðis og er í samræmi og samhengi við efnahagslega þróun svæðisins og markmið og þarfir vinnumarkaðar.
2. Að virkja alla hagaðila í atvinnulífi, vinnuveitendur, samtök starfsgreina, stéttarfélög og menntastofnanir í að skipuleggja og koma af stað nýjungum í vinnustaðanámi.
3. Setja þarf í forgang þær atvinnugreinar sem þurfa margt fólk til starfa og líka þær atvinnugreinar sem eru að myndast og reyna þannig að þróa vinnustaðanám sem ætti að mæta núverandi og framtíðarþörf á fólki til starfa.

Samvinna
1. Hlúa þarf að samstarfi menntastofnana, atvinnurekenda og opinberra yfirvalda til að móta hnökralausa samvinnu um vinnustaðanám og auka tækifæri til þess að farið sé af stað með slík verkefni.
2. Hvetja þarf til að samstarf verði til innan starfsgreina þar sem margir atvinnurekendur í sama geira vinna í sömu átt til að veita tækifæri til vinnustaðanáms.
3. Auðvelda þarf að deila þekkingu og aðferðum við samstarf milli ólíkra landsvæða og milli landa til að nýta bestu aðferðir og koma í veg fyrir að verið sé að sóa auðlindum í að þróa það sama á mörgum stöðum.

Þjálfun
1. Fjárfesta þarf í fagþróun hjá kennurum og starfsmentorum til að auka getu þeirra til að veita nemum samfellda þjálfun og reynslu í skóla og á vinnustað.
2. Það þarf fjárhagsstuðning við atvinnurekendur til að þjálfa og endurhæfa starfsfólk, sérstaklega það sem tekur þátt í þjálfun nýliða og hefur umsjón með vinnustaðanámi.
3. Stuðla þarf að því að fræðileg og tæknileg færni tengist sem best í vinnustaðanámi og þannig verði tryggt að nemar læri bæði vinnubrögð og fræðilega hluta starfsins.

Mat og eftirfylgni
1. Koma þarf á öflugum aðferðum við að fylgjast með, meta og styðja við það að þróun í vinnustaðanámi verði árangursrík og hafi jákvæð áhrif.
2. Safna þarf gögnum um árangur nema og einnig um hlutfall þeirra sem skila sér til starfa, launaþróun og ánægju í starfi til að hægt sé að hafa upplýsingar um árangur af umbótum og hvort þær leiða til framfara í atvinnugreininni, aukinnar framleiðni og betri þjónustu.
3. Nota þarf endurgjöf frá atvinnurekendum og nemum til að geta sífellt bætt aðferðir við starfsnám og koma auga á áskoranir og það sem vantar.

Lykilhæfni kennarara / leiðbeinenda og starfsmentora (skóli og vinnustaður)
Niðurstöður rannsókna á lykilhæfni kennara og annarra sem koma að starfsnámi í skóla og á vinnustað benda til að hægt sé að mæla með nokkrum hæfniþáttum sem ætti að gefa gaum og geta aukið árangur þegar verið er að leiðbeina nemum.

1. Samkennd (empathy) er mikilvæg færni sem gerir leiðbeinendum kleift að skilja og tengjast nemum á tilfinningalegum grunni og greina þannig einstaklingsbundnar þarfir og áskoranir, að komast nær því að setja sig í spor nemanna.
2. Að vera hvetjandi er önnur mikilvæg hæfni og gerir leiðbeinendum kleift að skapa umhverfi þar sem ríkir umhyggja og hvatning til að neminn eflist og þá nær leiðbeinandinn að fóstra nemann til að vaxa og þroskast.
3. Leiðbeinendur eiga að hvetja til virks náms og skapa tækifæri fyrir nema til að beita fræðilegri þekkingu í raunverulegum aðstæðum.
4. Góð þekking á efninu og starfsgreininni er nauðsynleg vegna þess að hún tryggir að leiðbeinendur hafi djúpan skilning á því sem kennt er og það veitir tækifæri til að leiðbeina nemendum á áhrifaríkan hátt og gefa ráð um störf og nám til framtíðar.

Samanlagt getur þessi hæfni gert leiðbeinendum kleift að auðvelda það að vinnustaðanám hafi merkingu og að hægt sé að styðja nemann við að þróa nauðsynlega færni og þekkingu fyrir framtíðarstörf.