Fara í efni

Lesið í náttúruna

Lokahönd lögð á skipulag af ímynduðu hverfi.
Lokahönd lögð á skipulag af ímynduðu hverfi.

Núna á haustönn hefur í fyrsta skipti verið boðið upp á áfanga í VMA í bæði náttúrulæsi og menningarlæsi. Áfangarnir eru liður í námi nemenda til þriggja ára stúdentsprófs. Þegar litið var inn í tíma í náttúrulæsi hjá annars vegar Jóhannesi Árnasyni og hins vegar Svanlaugi Jónassyni voru nemendur að leggja lokahönd á frágang skipulagsuppdrátta sem þeir höfðu gert af ímynduðu þéttbýli. Verkefnið gekk út á að virkja sköpunarhæfileika nemenda til þess að setja á blað og teikna í grófum dráttum upp skipulag hverfis og kalla fram hvað þar þyrfti að vera til þess að fullnægja þörfum íbúa hverfisins.

Forvitnilegt var að sjá hversu mismunandi áherslur nemenda voru á hvað þyrfti að vera í hverfinu. Flestir teiknuðu þó skóla og notuðu hann sem miðpunkt skipulagsins. Jóhannes Árnason segir að þetta verkefni hafi verið áhugavert fyrir nemendur að glíma við, þeir hafi flestir ekki mikið velt þessum hlutum í umhverfi sínu fyrir sér. Jóhannes segir að í náttúrulæsi sé fjallað um fjölmarga þætti, t.d. sjálfbærni og umhverfisvernd, skipulagsmál, inngang að efnafræði, erfðir, landafræði Íslands og Evrópu o.fl. Í áfanganum hefur verið farið í vettvangsferðir, m.a. í Endurvinnsluna þar sem nemendur kynntu sér hvað verði um það sorp sem flokkað sé á heimilum til endurvinnslu.

Í lýsingu á náttúrulæsisáfanganum hér á heimasíðu VMA segir:
„Í áfanganum er lögð áhersla á að nemandi auki þekkingu og skilning á umhverfi sínu, áhrifum mannsins á náttúruna og sjálfbærni í nútíma þjóðfélagi ásamt því að verða meðvitaðri um órjúfanleg tengsl einstaklings og náttúru. Nemandinn kynnist helstu atriðum og hugtökum náttúruvísindagreina, hvernig þau tengjast daglegu lífi og þjálfast í að nýta sér upplýsingar. Nemandinn gerir sér grein fyrir mikilvægi auðlinda og þroskar með sér vitund um landnýtingu, nýtingu sjávar og umhverfisvæna orkuöflun. Áhersla er lögð á að vekja áhuga, efla þekkingu og ábyrgðarkennd nemandans gagnvart náttúrunni. Um er að ræða verkefnabundið nám með áherslu á samvinnu og frumkvæði og nemandinn rannsakar viðfangsefni áfangans hverju sinni á gagnrýninn og skapandi hátt.“

Nemendur á fyrsta ári taka áfanga í náttúrulæsi og hér má sjá nemendur í kennslustund hjá Jóhannesi og hér eru nemendur Svanlaugs.