Fara í efni

Kominn hringinn!

Baldvin B. Ringsted, kennari.
Baldvin B. Ringsted, kennari.

Það má orða það svo að Baldvin B. Ringsted sé kominn hringinn. Eftir á þriðja tug ára í stjórnunarstöðu við skólann hefur hann skipt um gír og er nú eingöngu í kennslu. Þessum vistaskiptum segist hann kunna afar vel.

Baldvin náði í skottið á gamla Iðnskólanum á Akureyri – var í síðasta útskriftarhópi þess skóla, sem var forveri VMA. Vorið 1984 útskrifaðist Baldvin sem blikksmiður og það sama ár er Verkmenntaskólinn settur á stofn – og fagnar því 40 ára afmæli á næsta ári.

Stúdent frá VMA 1988
„Árið 1986 fór ég í Verkmenntaskólann í undirbúnings- og raungreinadeild, sem var tveggja ára massíft raungreinanám til stúdentsprófs. Námið var í byrjun útibú frá Tækniskólanum. Kennt var í umboði hans og öll próf sem við tókum komu frá Tækniskólanum og lögð fyrir okkur nemendurna hér. Síðar varð þetta hluti af náminu í VMA.
Til viðbótar við iðnnámið í Iðnskólanum dugði þetta tveggja ára raungreinanám til þess að ég gæti lokið stúdentsprófi. Fyrra árið var kallað undirbúningsdeild og það síðara raungreinadeild. Þetta var mikið nám og stíft, við vorum á hverri önn í íslensku, ensku og dönsku, tveimur stærðfræðiáföngum, einum í efnafræði og öðrum í eðlisfræði. Tímar voru gjarnan til sex á daginn. Verkfræðingar hjá Akureyrarbæ kenndu okkur stærðfræði og fyrir kom að kennslustundir þeirra féllu niður vegna einhvers sem upp kom hjá bænum og þá tíma tókum við í staðinn fyrir hádegi á laugardögum. Okkur fannst ekkert athugavert við það.
Stúdentsprófinu lauk ég vorið 1988, þá 25 ára gamall, og á sama tíma fékk ég meistarabréf í blikksmíði.
Ástæðan fyrir því að ég ákvað að taka stúdentspróf var að einhverju leyti að ég vildi hafa möguleika til þess að halda eitthvað áfram í námi. Ég hafði farið í grunndeild málm- og iðntæknigreina í Iðnskólanum vegna þess að mig langaði mikið til þess að læra málmsuðu, það var það flottasta sem ég gat hugsað mér. En ég vissi líka að mér myndi ekki endast starfsævin til að starfa sem blikksmiður vegna þess að ég fótbrotnaði illa þegar ég var fimmtán ára gamall. Ég var á skellinöðru og lenti í árekstri við bíl með þeim afleiðingum að ég brotnaði mjög illa og var hér á Sjúkrahúsinu á Akureyri í á þriðja mánuð. Þetta gerðist þann 6. október og ég kom heim af spítalanum á Þorláksmessu.
Þetta slys gerði það að verkum að ég vissi innst inni að ég myndi aldrei geta staðið á verkstæðisgólfi daginn út og inn við málmsmíðar. Ég minnist þess reyndar að læknirinn sagði við mig að ég yrði kominn með staf um fertugt en það varð sem betur fer ekki. En engu að síður veit ég vel af þessu og finn fyrir þreytu eftir langan vinnudag. Löngu síðar komu í ljós brjóskskemmdir í báðum hnjám sem afleiðing af þessu slysi. Ég á hvorki auðvelt með að ganga upp né niður en hjólreiðar eru hreyfing sem henta mér vel og nú eyði ég sumrunum í að hjóla út um allt á rafmagnhjóli!

Lærði blikksmíðinni á Vélsmiðjunni Odda
„Eftir eitt ár í grunndeild málm- og iðntæknigreina vann ég á verkstæði í Borgarnesi, kom svo aftur heim og vann í einn vetur í ljósastaurasmíði hjá Sandblæstri og málmhúðun. Síðan fór ég á samning í blikksmíðinni í Vélsmiðjunni Odda árið 1982, þegar ég var nítján ára. Um tíma starfaði ég í Reykjavík, m.a. við smíði á loftræstikerfi í flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Ég hafði mikla ánægju af því að smíða og mig kitlar alltaf í puttana þegar ég kem inn á flott verkstæði!
Að stúdentsprófi loknu vorið 1988 fór ég í blikksmíðina á Vélsmiðjunni Odda. Ég fékk síðan upphringingu frá Baldvini Bjarnasyni, sem þá var að leysa Bernharð Haraldsson af sem skólameistari VMA. Hann segir mér að það bráðvanti kennara við skólann veturinn 1988-1989, hvort ég væri tilbúinn að prófa kennsluna. Ég taldi það af og frá. Baldvin gafst ekki upp og spyr hvort ég væri nú samt ekki til í að skoða þetta með sér yfir kaffibolla. Ég neitaði því ekki og það varð úr að ég lét til leiðast með semingi. Það var mjög erfitt að manna kennarastöður á þessum tíma og mig minnir að við höfum verið fjögur ráðin í kennslu þennan vetur sem höfðum nýlega lokið stúdentsprófi.
Eftir að ég var síðan farinn á fullt í kennsluna fann ég að þetta átti ágætlega við mig. Þennan vetur kenndi ég m.a. ensku, dönsku, stærðfræði og námstækni. Enskan vafðist ekkert fyrir mér og heldur ekki stærðfræðin en ég þurfti að hafa töluvert fyrir því að kenna dönskuna og það hef ég einungis gert þennan eina vetur.“

Fyrsti kennsluveturinn 1988-1989
Þegar Baldvin hóf kennslu við VMA haustið 1988 voru tveir kennarar sem enn eru að kenna við skólan, Hálfdán Örnólfsson og Erna Gunnarsdóttir. Raunar kenndi Erna Baldvini ensku í VMA á sínum tíma. Þannig týnist tíminn!
„Ég játa fúslega að það hafði blundað í mér að vera kennari en ég var tregur til að leggja í þetta. En þegar á hólminn var komið fannst mér þetta skemmtilegt.
Eftir þennan fyrsta kennsluvetur í VMA fór ég í Háskóla Íslands og lærði þar ensku í einn vetur. Kenndi síðan í einn vetur í Gagnfræðaskólanum á Akureyri og fór þá einnig í nám í kennslufræði. Í framhaldi af því fékk ég stöðu við VMA og var í nokkur ár en fékk þá launalaust leyfi í eitt ár, fór suður og tók bróðurpartinn af því sem ég átti eftir af enskunáminu. Frá haustinu 1998 kom ég aftur til kennslu hér í skólanum og hef verið síðan.
Haustið 1999 segir Brynjar heitinn Skaptason, sem hafði lengi verið kennslustjóri tæknisviðs, við mig að hann vilji gjarnan fara að losa sig frá því starfi. Ég var inn á skrifstofu Brynjars og hann beinir þessum orðum til mín og spyr hvort ég væri ekki til í að taka starfið að mér. Ég hafði smá reynslu af því að halda utan um ýmis kvöld- og helgarnámskeið við skólann. Ég kasta því fram í hálfkæringi að kannski ætti ég bara að slá til. „Já, blessaður gerðu það,“ sagði Brynjar. Ég var auðvitað alls ekki viss um að ég væri rétti maðurinn í starfið en sótti engu að síður um það og í ljós kom að ég var eini umsækjandinn. Ég sem sagt tók að mér þetta starf kennslustjóra tæknisviðs skólans haustið 1999, sama ár og Hjalti Jón Sveinsson tók við skólameistarastarfinu af Bernharð Haraldssyni.“

Tuttugu og þrjú ár í stjórnun
„Til að byrja með var þetta 50 prósent staða og ég kenndi átján tíma á móti. Árið 2015 urðu breytingar, starfsheitið breyttist í „sviðsstjóri verknáms“ í fullu starfi og síðar bættist fjarnámið við. Þessu starfi gegndi ég til vors 2022. Mér fannst þetta vera orðið gott, enda eru 23 ár í stjórnunarstöðu langur tími. Eitt af því sem fékk mig til þess að hætta eru þær breytingar sem nú eru í gangi á námskrám verknáms – með tilkomu m.a. ferilbóka. Hugmyndin er eflaust góð en hins vegar stóð ráðuneytið illa að þessari breytingu. Þetta var sett fram án kynningar og skólunum var ætlað að klára þetta. Önnur ástæða fyrir því að ég ákvað að hætta í stjórnun var að ég var einfaldlega orðinn þreyttur á þessu. Svona starfi fylgir stöðugt álag og áreiti – hvort sem er á skólatíma eða sumarleyfistíma. Að öllu samanlögðu fann ég að þetta var rétti tíminn til þess að breyta til og fara aftur í kennsluna. Það gerði ég síðastliðið haust og eftir eina og hálfa önn í kennslunni er ég mjög sáttur. Þrátt fyrir að hafa ekki kennt í sjö ár fannst mér lítið mál að rifja upp fræðin og setja mig aftur inn í kennarastarfið. Í vetur hef ég kennt ensku, stærðfræði og grunnteikningu en hana hafði ég ekki kennt í tuttugu ár.
Það má alveg segja að ég sé kominn hringinn og mér finnst það bara mjög gott. Ég nýt þess að kenna og hef rýmri tíma fyrir sjálfan mig. Það kann ég vel að meta.“

Aukin símafíkn
Er starf kennara það sama og árið 2015 þegar Baldvin kenndi síðast? Ekki alveg, segir hann. „Það verður að segjast eins og er að stóra breytingin er símafíkn nemenda, sérstaklega þeirra yngri, og hjá sumum þeirra er þessi fíkn býsna alvarleg. En vissulega er mikill munur á símanotkun hjá nemendum á fyrsta námsþrepi og því þriðja. Á þriðja þrepi er áhugi nemenda á náminu meiri og símanotkunin þeirra áberandi minni,“ segir Baldvin B. Ringsted.