Fara í efni

Kom heim með fullt af hugmyndum í bakpokanum

Erna H. Gunnarsdóttir enskukennari.
Erna H. Gunnarsdóttir enskukennari.

Erna H. Gunnarsdóttir, enskukennari við VMA, dvaldi á haustönn í röska þrjá mánuði í námsleyfi í heimsborginni London þar sem hún heimsótti fjölda grunn- og framhaldsskóla og kynnti sér kennsluaðferðir og skólastarf almennt. Hún segir þennan tíma hafa verið sér afar gagnlegan og hún er ákveðin í að nýta sér ýmislegt af því sem hún kynnti sér í Bretlandi þegar hún kemur aftur til starfa næsta haust.

„Þetta var á allan hátt virkilega ánægjulegur tími og ég er margs vísari eftir heimsóknir mínar í skólana. Í það heila heimsótti ég um tuttugu grunn- og framhaldsskóla í London og nágrenni og í þeim öllum fékk ég afar góðar móttökur, starfsmenn skólanna voru mjög hjálplegir og voru fúsir að greiða mína götu á allan hátt,“ segir Erna.

Heimsótti um tuttugu skóla
„Þegar ég sótti á sínum tíma um orlof tilkynnti ég strax að ég ætlaði ekki að fara í akademískt nám þar sem ég hefði þegar lokið mastersnámi og væri ekki að stefna á doktorsnám. Það sem ég vildi hins vegar gera væri að fá ákveðna praktíska reynslu, viða að mér fullt af hugmyndum og fá nýja nálgun  sem myndi nýtast mér í kennslunni hérna í VMA. Ég ákvað að heimsækja skóla í Bretlandi og upplifa sjálf hvernig Bretar stæðu að kennslunni og hvaða nálgun þeir hefðu, með það í huga að koma heim aftur með ákveðið nesti í bakpokanum til að nýta strax á haustönn.
Þegar upp er staðið hef ég fengið mikið efni til að vinna úr, sannast sagna er ég með helling af hugmyndum sem ég mun núna á vorönninni setjast yfir og reyna að finna út hvernig ég nýti mér sem best í kennslunni hér í VMA,“ segir Erna og nefnir í þessu sambandi að í sínu fagi, enskunni, geti ekki allir nemendur farið yfir efnið á sama hraða. Skipta þurfi nemendum upp í svokallaða hægferðarhópa og hraðferðarhópa. Verkefnið sé meðal annars að haga kennslunni þannig að allir nemendur fái sem mest út úr henni og um leið að minnka hættuna á brottfalli sem kostur er. „Spurningin sem við þurfum að reyna að svara er þessi; hvað getum við mögulega gert fyrir þá nemendur sem geta ekki einhverra hluta vegna nýtt sér það sem við bjóðum upp á? Svarið er ekki einfalt en staðreyndin er sú að við verðum að gera eitthvað fyrir þennan hóp,“ segir Erna.

Áherslan er á innviðina en ekki húsnæði
Glöggt er gests augað, er oft sagt og það átti við um heimsóknir Ernu í breska grunn- og framhaldsskóla. Hún segir það hafa vakið sína athygli í hversu lélegu húsnæði breskir skólar almennt séu. Þar sé einfaldlega ekki lögð áhersla á umgjörðina, áherslan sé á innviði skólana, kennsluna og skólastarfið sjálft. „Þegar ég kom aftur inn í VMA fannst mér ég vera kominn inn í höll samanborið við skólana í Bretlandi. En síðan eigum við Íslendingar lítinn sem engan pening í innviði skólanna, skólastarfið sjálft. Þurfum við ef til vill ekki að fara einhvern milliveg í þessu? Auðvitað geri ég mér grein fyrir að samanburðurinn er ekki á allan hátt sanngjarn í þessum efnum, t.d. varðandi mismunandi veðurfar og hitastig. En engu að síður held ég að þetta sé eitthvað sem við þurfum að skoða. Skólabyggingar á Íslandi eru almennt gríðarlega dýrar, hvað sem hver segir, og það sama má segja um rekstrarkostnaðinn.“

Mikill agi í breskum skólum
Og annað sem Erna tók strax eftir var hversu mikill agi er almennt í breskum skólum, sérstaklega í grunnskólum. Nemendur ávarpa kennara alltaf sem „sir“ eða „miss“ – segja aldrei nöfn kennara. „Í öllum skólum rétta nemendur upp hönd þegar þá vantar eitthvað, það er ekki „galað“ hver í kapp við annan eins og er svo algengt í okkar skólum. En ég sá auðvitað bæði nemendur sem voru að springa af námsáhuga og nemendur sem tóku illa eftir og fylgdust illa með. Símanotkun er ekki eins mikið vandamál og við þekkjum hér. Auðvitað er þetta vandamál til staðar í Bretlandi en þó ekki í eins miklum mæli og hér. Kennarar hika ekki við að vísa nemendum út úr kennslustund noti þeir símann þar. Algengt var að sjá í kennslustofum allskyns gagnlegar upplýsingar tengdar námsefninu og einnig voru þar skólareglur og ýmsar reglur almennt um samskipti fólks. Bretar leggja mikið upp úr mannlegum samskiptum – nokkuð sem við komum til með að sjá meira í nýju námskránni. Í þessum efnum eru Bretar langt á undan okkur,“ segir Erna. Hún segist einnig hafa verið mjög hrifin af skipulagi í kennslustofum sem hún hafi víða séð og byggi á forriti sem heiti Class Charts. „Allar stofur sem ég kom inn í þeim skólum sem ég heimsótti eru með gagnvirkar töflur sem gefa möguleika á að halda utan um upplýsingar um virkni nemenda í hverjum bekk. Þetta er gagnvirkt námsmat og nemendur geta sjálfir fylgst með sinni stöðu. Þetta væri áhugavert að prófa hér, hvort sem er í tölvu eða símanum,“ sagði Erna og bætti við að í flestum skólum sem hún sótti heim hafi nemendur klæðst skólabúningum og kennarar verið afar snyrtilega klæddir. „Í samanburði við það sem ég sá í Bretlandi eru bæði kennarar og nemendur hér á landi afar frjálslega klæddir,“ segir Erna.
Sem fyrr segir mun Erna vinna til vors úr þeim upplýsingum sem hún aflaði sér í Bretlandi á haustmánuðum en einnig hyggst hún heimsækja fjölda framhaldsskóla hér á landi, bæði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess, og kynna sér skipulag enskukennslu