Fara í efni

Íslenskan er síbreytileg

Kristín S. Árnadóttir, íslenskukennari við VMA.
Kristín S. Árnadóttir, íslenskukennari við VMA.
Kristín S. Árnadóttir er í hópi þeirra kennara við VMA sem hafa lengstan starfsaldur. Hún hefur kennt íslensku við skólann frá 1985 – eða í um 28 ár – og hefur því haft gott tækifæri til þess að fylgjast með þróun móðurmálsins hjá ungu fólki.

Kristín S. Árnadóttir er í hópi þeirra kennara við VMA sem hafa lengstan starfsaldur. Hún hefur kennt íslensku við skólann frá 1985 – eða í um 28 ár – og hefur því haft gott tækifæri til þess að fylgjast með þróun móðurmálsins hjá ungu fólki.

„Mér finnst þær breytingar sem eiga sér nú stað á íslenskunni vera hraðari en áður og það er kannski í takti við þær öru og hröðu breytingar sem eru á samfélaginu. Það má kannski orða það svo að áreiti á íslenskuna er meira en áður. Tjáningarmiðlunum hefur fjölgað, fólk skrifar ekki lengur sendibréf, það skrifar tölvupósta og sendir SMS. Og á Facebook gilda engar hefðbundnar ritunarreglur. Þar veltir fólk ekki mikið fyrir sér stórum eða litlum staf eða greinarmerkjum. Í raun sjáum við þar að stærstum hluta skrifað talmál.“
- Hvaða skoðun hefur þú á þessari þróun ritaðs máls?
„Sumt af því sem skrifað er á þessa tjáningamiðla er bráðskemmtilegt. Ég hef látið krakka senda hvert öðru SMS og beðið þau um að skrifa niður textana sem þau senda eins og þeir koma fyrir. Í ljós kemur að krakkarnir hafa allskonar leiðir til þess að stytta textana. Þeir nota táknmál, skera niður samtengingar og gerendur.
 
En þetta skilst engu að síður. Og eins og sonur minn, málvísindamaðurinn, segir er grundvallarreglan sú að allt mál er gilt svo lengi sem það skilst.
En það sem okkur þykir mest áberandi er hversu mikið orðaforði ungs fólks hefur breyst. Ég vil ekki segja að hann hafi minnkað, heldur hefur hann breyst. Ákveðin orð eru að hverfa en önnur koma í staðinn. Við kennararnir þurfum að hugsa okkur verulega um hvernig við eigum að orða spurningar á prófum þannig að nemendurnir skilji þær. Ég get nefnt í þessu sambandi hugtök eins og „illindi“ og „föruneyti“. Það er alls ekki gefið að ungt fólk skilji þessi hugtök, svo dæmi sé tekið. En við skulum ekki gleyma því að ungt fólk hefur annan orðaforða í staðinn, mörg þessara orða eru tökuorð, til dæmis úr tölvumáli. Ástæðan fyrir þessari þróun getur verið af margvíslegum toga. Lestur hefur dregist saman og síðan er líklegt að orðaforði foreldra þeirra hafi sömuleiðis minnkað. Og það er einfaldlega minna talað við börn sem líklega má rekja til samfélagsbreytinga. Ég hef stundum orðað það svo, með hæfilegri einföldun, að vandi íslenska skólakerfisins séu heimilin. Þá á ég við að samvera barna og foreldra er á margan hátt minni en var hér áður fyrr. Samvera foreldra og barna við kvöldverðarborðið er á undanhaldi, sem tengist því að í mörgum tilfellum borða foreldrarnir á sínum vinnustöðum og börnin í skólunum og þar sem þau eru í vistun. Fyrir vikið er í mörgum tilfellum snöggsoðinn kvöldverður þar sem samvera fjölskyldunnar er af skornum skammti. Við Íslendingar vinnum lengstan vinnudag vestrænna þjóða og sláum ekkert af. Til viðbótar því virðist vera sú grundvallarregla að það þurfi allir að vera uppteknir utan heimilis eins og þeir mögulega ráða við, sérstaklega ungt fólk á framabraut. Það þarf að taka þátt í öllu mögulegu félagsstarfi, það þarf að vera í námi og það þarf að gera þetta og hitt. Og við skulum heldur ekki gleyma því að það er mikil samkeppni um börnin, ef svo má segja. Þau eru lítið heima hjá sér – í tónlistarnámi, myndlistarnámi, íþróttum o.s.frv. Ef horft er því á daglega samveru barna og foreldra er ljóst að hún er í mörgum tilfellum ekki mikil. Þetta hefur að mínu mati sitt að segja um orðaforða og fleira sem lýtur að tungumálinu á helsta mótunarskeiði barnanna. Og mín kynslóð er líka svo þrælupptekin að hún hefur ekki lengur tíma til þess að lesa fyrir barnabörnin!“
- Viltu halda því fram að málinu hafi hnignað?
„Nei, ég vil ekki segja það.  En það hefur breyst. Hvort síðan manni finnst það til hins betra eða verra er matsatriði. Okkur, þessum gömlu og íhaldssömu, finnst að málinu hafi hnignað, en það er of mikil einföldun. Málið þróast eins og það hefur alltaf gert. Það hafa átt sér stað miklar breytingar að undanförnu á bæði tal- og ritmáli. En við merkjum meiri breytingar á ritmáli, af því að það er það sem við sjáum. Eins og annars staðar hefur dregið úr beygingum orða, ekki síst á eignarfallið í vök að verjast. Og það er ekki nýtt. Þetta er margra ára þróun.“
- En hvað með þágufallið. Er hægt að tala um þágufallssýki?
„Nei, eiginlega ekki. Við erum hætt að kippa okkur upp við þágufallið. Og það á ekki bara við um ungt fólk, þetta gildir ekkert síður um fullorðið fólk.  En almennt á fólk orðið í miklum erfiðleikum með beygingu orða.  Ég tel ekki að íslenskan sé í hættu, en tungumálið hefur tekið breytingum og mun breytast. Það lagar sig að samfélaginu á hverjum tíma. Orð úr búskap og sjósókn, sem voru mjög áberandi  í málinu, eru á undanhaldi samfara fækkun fólks í þessum greinum atvinnulífsins, en ný orð úr öðrum greinum samfélagsins koma í staðinn.  Málið er spegill þess sem á sér stað í samfélaginu á hverjum tíma.  Eins og ég hef nefnt er töluvert um tökuorð úr tölvuheiminum og það er gaman að segja frá því að krakkarnir laga mörg þessara orða að íslensku beygingakerfi – t.d. eitt „app“ og tvö „öpp“, rétt eins og „happ“ og „höpp“ eða „barn“ og „börn“.“
- Tekur kennsla í íslensku sífelldum breytingum?
„Ekki vil ég segja að hún taki sífelldum breytingum, en við erum núna í startholunum með að prófa ýmsar nýjungar, sem taka mið af nýrri námsskrá er byggir á grunnþáttum menntunar. Meðal annars er verið að skoða ákveðna hluti í sambandi við tölvunotkun og einnig erum við að vinna með hugmynd að svokölluðum lokaáfanga í íslensku, sem vonandi verður að veruleika næsta haust, sem byggir á töluvert öðrum vinnubrögðum en við höfum þekkt. Meðal annars er til skoðunar að sameina tvo síðustu áfangana í íslensku í einn stóran sex eininga áfanga, sem myndi spanna bókmenntir frá siðaskiptum til okkar tíma, þar sem þungamiðjan yrði 20. og 21. aldar bókmenntir. Með þessu móti værum við að brúa betur en áður bilið á milli framhaldsskóla og háskóla. Þarna værum við að nálgast í auknum mæli akademísk vinnubrögð nemenda.“
- Hvað er það í íslenskunámi sem nemendur eiga í mestum erfiðleikum með?
„Ég held að ég nefni skriflega framsetningu nemenda. Margir eiga í miklum erfiðleikum með að tjá hugsanir sínar í rituðum texta. Þetta er fjarri því að vera nýtt vandamál, en mér hefur fundist heldur síga á ógæfuhliðina í þessum efnum. Ég segi við nemendur að það sé alveg sama hvað þeir takist á við framtíðinni, á einhverjum tímapunkti þurfi allir að vera færir um að geta tjáð sig í rituðum texta,“ segir Kristín S. Árnadóttir.“