Fara í efni

Í mörg horn að líta í bifvélavirkjuninni

Nemendur í bifvélavirkjun bera saman bækur sínar.
Nemendur í bifvélavirkjun bera saman bækur sínar.

Til þess að hefja nám í bifvélavirkjun þurfa nemendur að hafa lokið grunnnámi málm- og véltæknigreina sem er tveggja anna nám. Síðan tekur við fjögurra anna faggreinanám auk þess sem nemendur þurfa að taka lágmarks starfstíma á vinnustað til þess að geta farið í sveinspróf.

Núna á haustönn hóf nýr hópur nám í bifvélavirkjun í VMA og hefur Bragi Finnbogason sem fyrr umsjón með náminu. Eins og segir í lýsingu á bifvélavirkjuninni á heimasíðu skólans er markmið með náminu „að gera nemendum kleift að takast á við hin ýmsu viðfangsefni sem bifvélavirkar inna af hendi, það er viðhald, viðgerðir og breytingar á ökutækjum.“ Námið er bæði verklegt og bóklegt – auk verklegrar þjálfunar á vinnustað undir leiðsögn meistara í faginu.  

Auk þess sem fá verklega kennslu í skólanum fara nemendur í nokkur skipti á verkstæði og fá kynningu á því sem þar fer fram. Þó svo að bifvélavirkjunin hafi í grunninn ekki breyst í tímans rás hefur fagið þó vitaskuld tekið miklum breytingum í takti við öra þróun og breytingar á ökutækjum. Tölvuvæðingin hefur breytt miklu varðandi ýmsa þætti í starfi bifvélavirkjans, enda eru tölvustýringar hvers konar orðnar æ stærri þáttur í nýjum bílum. Og með hraðri fjölgun rafknúinna bíla verða enn frekari breytingar.

En grunnatriðin í starfi bifvélavirkja hafa ekki breyst. Eftir sem áður þurfa þeir til dæmis að glíma við að ná boltabrotum og það var einmitt það sem Bragi Finnbogason fól nemendum í bifvélavirkjun m.a. að glíma við þegar litið var inn í verklega kennslustund í vikunni.