Fara í efni

Hvaða ráð eru við prófkvíða?

Hjalti Jónsson, sálfræðingur í VMA.
Hjalti Jónsson, sálfræðingur í VMA.

Próf hófust í VMA sl. miðvikudag og verða út næstu viku. Þess eru mörg dæmi að nemendur fyllast kvíða í aðdraganda prófa og meðan á prófatíð stendur. Hjalti Jónsson, sálfræðingur í VMA, segist annað slagið fá nemendur í viðtöl sem glími við prófkvíða og hann leitist við að hjálpa þeim eins og kostur er.

„Síðustu vikur hef ég fengið í viðtöl til mín nemendur vegna prófkvíða og margir þeirra hafa ekki áður leitað til mín. Ég hef reynt að gefa þeim góð ráð til þess að minnka kvíðann,“ segir Hjalti. Hann segir að prófkvíði sé ekki skilgreindur sem kvíðaröskun. Miklu fremur líkist hann félagskvíða, í báðum tilfellum óttist viðkomandi að mistakast. „Um er að ræða óttann við að bregðast sjálfum sér og umhverfinu. Þetta getur verið mjög erfitt viðureignar fyrir þá einstaklinga sem hafa lágt sjálfsmat. Í mörgum tilfellum má segja að nemendur kvíði því að verða kvíðnir því þeir vita að það getur leitt til þess að þeim gangi illa á prófinu.  Oft er það svo að þeir nemendur eru í áhættuhópi vegna prófkvíða sem hafa vegna veikinda eða einhvers annars ekki getað mætt sem skyldi í skólann á önninni. Hjá þessum nemendum byggist upp prófkvíði vegna þess að þeir hafa ekki getað sinnt náminu eins og þeir hefðu viljað og eru þar af leiðandi ekki nægilega vel undirbúnir þegar kemur að prófunum,“ segir Hjalti.

„Nemendur sem einu sinni fá prófkvíða eru líklegri til þess að fá hann aftur. En þeir geta leitað sér hjálpar hjá sálfræðingi eða öðru fagfólki sem kann skil á sálrænni atferlismeðferð, en reynslan er sú að hún gagnast vel við kvíða af ýmsum toga. En hinu má ekki gleyma að upp að ákveðnu marki er kvíði góður. Hann ýtir fólki áfram að gera hlutina. Kvíði er í raun ekkert annað en hættuviðbragð líkamans til að bregðast við utanaðkomandi  ógn, hann ýtir á nemendur að lesa vel fyrir próf og standa sig eins vel og kostur er. En þegar kvíðinn hefur leitt til svefnleysis og að viðkomandi borði óreglulega, sem aftur leiðir til þess að nemandinn getur ekki hugsað heila hugsun, þá er kvíðinn kominn á alvarlegt stig og þá þarf oftar en ekki að grípa inn í,“ segir Hjalti

En hvað segir Hjalti við þá nemendur sem leita til hans vegna prófkvíða? Að hans sögn fer því fjarri að illa undirbúnir nemendur séu þeir einu sem fái prófkvíða. Margir sem haldnir séu prófkvíða hafi einmitt unnið vel í náminu en fyllist engu að síður kvíða þegar prófin nálgast, af ótta við að standa sig ekki nægilega vel. Í mörgum tilfellum séu nemendur að setja sér markið allt of hátt. Þá sé hugsunin sú að ef viðkomandi standi sig ekki nægilega vel á prófinu sé hann misheppnaður.

„Það sem er mikilvægast í aðdraganda prófa er að breyta í stórum dráttum ekki út af hinu daglega munstri. Fari nemendur út fyrir hinn venjulega ramma geta þeir lent í erfiðleikum. Ef nemendur til dæmis lesa fram á nætur fyrir próf getur auðveldlega byggst upp kvíði hjá þeim vegna þess að þeir hafi ekki fengið nægilega hvíld áður en mætt er í prófið. Svefninn er gríðarlega mikilvægur í þessu öllu og það getur verið ávísun á erfiðleika ef hann skerðist verulega, sérstaklega ef nemandinn þarf að fara í fimm til sex próf á nokkrum dögum. Það segir sig sjálft að í slíkum aðstæðum er afar mikilvægt að fá góðan nætursvefn.
Einnig ráðlegg ég nemendum sem glíma við prófkvíða að gera slökunaræfingar með því að draga djúpt andann og anda frá sér með munninum.  Þetta getur hjálpað nemendum til þess að ná þeirri ró sem nauðsynleg er í prófum, bæði í próflestrinum og í sjálfu prófinu.
Auðvitað er best ef nemendur standa sín próf en það er engu að síður ástæða til þess að spyrja sig þeirrar spurningar hvað sé það versta sem geti gerst ef nemendur ná ekki þeim árangri sem þeir vilja á prófinu. Staðreyndin er sú að það er enginn heimsendir þó nemendur falli á prófum. Þeir hafa möguleika á því að taka þau upp. Ég þekki marga sem hafa fallið á prófum og sjálfur féll ég á einhverjum prófum í menntaskóla en mér líður engu að síður ágætlega í dag!“

Hjalti segir að VMA leitist við að koma til móts við þá nemendur sem haldnir eru miklum prófkvíða. „Ef nemendur með mikinn prófkvíða leita til mín eða námsráðgjafanna tímanlega fyrir próf höfum við ýmis úrræði, t.d. lengri próftíma eða að þeir fái að vera í fámennari stofu í prófinu. Almennt má segja að við leggjum okkur fram um að finna réttu lausnirnar fyrir nemendur með prófkvíða,“ segir Hjalti Jónsson.