Fara í efni

Horft til heimsmarkmiða SÞ í þemaviku

Þessi vika er þemavika í VMA og er hún helguð Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem í heildina eru sautján. Í þemavikunni er sjónum sérstaklega beint að þremur af þessum sautján heimsmarkmiðjum – heilsu og vellíðan, jafnrétti kynjanna og friði og réttlæti.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna fyrir átta árum. Markmiðin, sem taka bæði til innanlandsmála og alþjóðasamstarfs á gildistímanum, gilda til ársins 2030. Aðildarríki SÞ hafa skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu heimsmarkmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra.

Heimsmarkmiðið um heilsu og vellíðan tekur m.a. til þess að tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð fjárhagslegri stöðu, fækka umferðarslysum og auka forvarnir og bæta meðferð vegna misnotkunar fíkniefna.

Í heimsmarkmiðum um jafnrétti kynjanna er m.a. horft til jafnrar þátttöku kvenna og karla í ákvarðanatöku á öllum sviðum stjórn- og efnahagsmála, að tryggja rétt allra til kynheilbrigðis og að hvers kyns ofbeldi gagnvart konum og stúlkum, á opinberum vettvangi og í einkalífi, verði ekki liðið.

Í heimsmarkmiðum um frið og réttlæti er m.a. horft til eflingar réttarríkisins á landsvísu og á alþjóðlegum vettvangi og tryggt verði jafnt aðgengi allra að því, dregið verði úr hvers kyns spillingu og mútum og allir fái aðgang að löglegum skilríkjum, þar með töldum fæðingarvottorðum, eigi síðar en 2030.