Fara í efni

Hefja nám í pípulögnum

Nemendur í pípulögnum ásamt Elíasi kennara.
Nemendur í pípulögnum ásamt Elíasi kennara.

Núna á vorönn er að hefja nám nýr hópur í pípulögnum og kennari faggreina er sem fyrr Elías Örn Óskarsson, pípulagningameistari á Akureyri. Hann segir ánægjulegt að sjá að áhugi hafi aftur vaknað á þessari iðngrein en fyrir hrun átti hún í vök að verjast eins og margar aðrar iðngreinar en hefur síðan verið að sækja í sig veðrið. Síðastliðið vor brautskráðist stærsti hópur pípulagningamanna sem VMA hefur brautskráð í einu til þessa – þrettán – og núna eru skráðir tólf nemendur í námið.

Pípulagnir eru grein innan byggingadeildar og til þess að geta innritast í nám í pípulögnum þurfa nemendur að hafa lokið grunndeild byggingagreina. Ekki er gerð krafa um að nemendur séu komnir á námssamning þegar þeir hefja nám en Elías segir að á annarri önn sé gerð krafa um það. Námið er þrjár annir í skóla og er kennt á vorönn. Þessi námshópur heldur því áfram náminu á vorönn 2021 og lýkur því að óbreyttu með sveinsprófi vorið 2022. Til viðbótar við skólatímann kemur áskilinn samningstími hjá meistara. Flestir þeir nemendur sem eru að hefja nám sitt í pípulögnum núna á vorönn eru þegar komnir á námssamning og hafa unnið misjafnlega lengi við pípulagnir.

Á þessari fyrstu önn í pípulagnanáminu fer Elías með nemendum í ýmislegt er lýtur að neysluvatni og heitu vatni og einnig læra nemendur málm- og plastsuðu undir handleiðslu kennara á málmiðnaðarbraut. Þá eru nemendur í teikniáfanga. Ásamt bóklega hlutanum eru nemendur í verklegum áföngum og hefur verið unnið að því að útbúa aðstöðu til verklegrar kennslu í skólanum en áður þurfti að fara með nemendur út fyrir veggi skólans í bróðurpart verklegrar kennslu. En eftir sem áður segir Elías að hann fari með nemendur í ýmsar kynningar út fyrir skólann til þess að þeir öðlist víðtæka þekkingu frá ýmsum sjónarhornum. Fyrsta slíka heimsóknin er áætluð í Norðurorku.

Elías segir að þó í grunninn hafi pípulagnir ekki breyst í tímans rás hafi orðið miklar breytingar varðandi bæði það efni sem unnið er með og tækjakost. Framþróun á þessu sviði hafi létt störf pípulagningamanna mjög mikið frá því sem áður var. Elías hefur lengi verið í faginu, hann fór á námssamning 1. október 1976 – fyrir hartnær 44 árum – og varð meistari í faginu árið 1980. Hann segist því hafa lifað tímana tvenna í faginu og á þessum rösku fjórum áratugum hafi margt breyst. Það er því margt og mikið sem Elías getur miðlað til ungra og verðandi pípulagningamanna og segist hann hafa mikla ánægju af kennslunni.