Fara í efni

Glaðar og stoltar

Harpa Birgisdóttir og Hildur Salína Ævarsdóttir.
Harpa Birgisdóttir og Hildur Salína Ævarsdóttir.

Það kom Hörpu Birgisdóttur og Hildi Salínu Ævarsdóttur, kennurum í hársnyrtideild VMA, skemmtilega á óvart þegar þær fengu vitneskju um tilefningu hársnyrtideildar til Íslensku menntaverðlaunanna, en sannarlega segjast þær vera bæði ákaflega glaðar og stoltar af þessari tilnefningu, hún sé til marks um að markviss vinna þeirra við að byggja brú milli skóla og atvinnulífsins með hagsmuni nemenda að leiðarljósi hafi vakið athygli. „Það er sannarlega mikill heiður fyrir okkur að fá þessa tilnefningu, það er með þetta eins og annað að við erum að uppskera eins og við höfum sáð,“ segja Harpa og Hildur.

Vinnustaðanám sem eftir er tekið

Tilnefningin er vegna frumkvöðlastarfs Hörpu og Hildar Salínu undanfarin sjö ár í góðu samstarfi við hársnyrtistofur á Norðurlandi, sem gengur út að að byggja brú á milli skóla og atvinnulífs með stigvaxandi vinnustaðanámi nemenda frá þriðju önn og til loka sjöttu og síðustu annar í náminu.
„Hér áður fyrr var það svo að nemendur í hársnyrtiiðn voru í þrjár annir í skólanum og áttu síðan sjálfir að koma sér á samning hjá meistara á hársnyrtistofu og snúa að samningstímanum loknum aftur í skólann og ljúka náminu. Því miður var það hins vegar reyndin að margir nemendur komust ekki á samning og hættu því í náminu. Þetta var einfaldlega óboðlegt og því fórum við að hleypa nemendum áfram í náminu, til þess einfaldlega að missa þá ekki út, og í framhaldinu að hugsa hvernig við gætum komið á tengslum nemenda við vinnumarkaðinn. Við fórum því í samtal við vinnustaði til þess að byggja þessa nauðsynlegu brú milli skóla og atvinnulífs. Niðurstaðan var sú að við komum á svokallaðri hringekju sem felst í því að nemendur fara í byrjun á milli ólíkra hársnyrtistofa og kynnast því fjölmörgum hlutum í faginu, fyrst sem áhorfendur og síðan smám saman taka þeir aukinn þátt í vinnunni á stofunum og undir lok námsins taka nemendur ábyrgð á sínum viðskiptavinum undir handleiðslu síns leiðbeinanda eða mentors á viðkomandi stofu. Vinnustaðanámið er því stigvaxandi hjá nemendum eftir því sem líður á námstímann. Í gamla kerfinu, þegar nemendur voru á samningi hjá meistara, fengu þeir laun fyrir sína vinnu en hér er um að ræða hluta af náminu í hársnyrtiiðn og því er þetta ólaunað. Við bjuggum til fjóra vinnustaðaáfanga í samstarfi við hársnyrtistofurnar og þetta samstarf hefur gengið mjög vel. Í staðinn fyrir að fá greitt fyrir þeirra vinnu á stofunum út í bæ fá nemendur einingar fyrir vinnustaðanámið. Með öðrum orðum; við flytjum hluta af náminu héðan úr húsinu og út í bæ, þar sem nemendur fá raunverulega upplifun í faginu. Þessu er verkefnastýrt af okkur að hluta og við fylgjumst jafnvel með þessu ferli úti á vinnustöðunum og ef nemendur væru allan tímann hér í húsi.
Fyrstu tvær annirnar eru nemendur hér hjá okkur og læra grunninn en á þriðju önn byrja þeir í vinnustaðanáminu til hliðar við nám hér í skólanum, þar sem nemendur fara á milli hársnyrtistofa og fá að fylgjast með. Við erum mjög ánægðar með hversu vel öll samskipti okkar og stofanna hér á Akureyri og víðar á Norðurlandi hafa gengið. 
Á fjórðu önn eru nemendur í fimm vikur á einum vinnustað og aðrar fimm vikur á öðrum vinnustað. Þennan áfanga köllum við aðstoð því þá eru nemendur farnir að aðstoða á stofunum. Á síðustu tveimur önnunum í náminu eru nemendur síðan meira og minna að vinna á sömu stofunum.
Við heyrum á nemendum að þeim finnst þetta fyrirkomulag á vinnustaðanámi algjörlega ómissandi og þeir eru þakklátir fyrir að fá tækifæri til þess að kynnast faginu á þennan hátt frá ýmsum hliðum.
Við hittum stofueigendur einu sinni til tvisvar á önn og förum yfir stöðu mála og í samstarfi við þá röðum við nemendum á stofur. Almennt er ánægja með þetta fyrirkomulag á stofunum.
Eins og í öðrum áföngum í skólanum þurfa nemendur að skila til okkar möppum með upplýsingum um þeirra vinnustaðanám og einnig förum við út á vinnustaðina til að fylgjast með og meta vinnu nemenda,“ segja Harpa og Hildur.

VMA-módelið flutt út

Harpa Birgisdóttir, Hrafnhildur S. Sigurgeirsdóttir, kennari í VMA, og Hulda Hafsteinsdóttir, hársnyrtimeistari á Medullu á Akureyri, hafa tekið þátt í Evrópuverkefnum þar sem vinnustaðanám hefur verið viðfangsefnið. Það fyrirkomulag á vinnustaðanámi sem hefur verið að þróast með góðum árangri á undanförnum árum í hársnyrtideildinni í VMA, í samstarfi við atvinnulífið, hefur nú fengið vængi í öðrum Evrópulöndum í gegnum þessi Evrópuverkefni. VMA-módelið hefur sem sagt verið kynnt evrópskum samstarfsaðilum og nýst þeim til þess að taka skrefið fram á við í þessum efnum. Staðreyndin er sú að það vandamál sem Harpa og Hulda glímdu við fyrir nokkrum árum með brottfall nemenda úr náminu vegna kerfislægrar stífni er ekki bara bundið við Ísland.
Harpa, Hrafnhildur og Hulda munu einmitt kynna VMA-módelið í vinnustaðanáminu og evrópusamstarfið í erindi á Menntakviku Háskóla Íslands á morgun, föstudaginn 7. október. Erindið kalla þær: Vinnustaðanám – samstarf skóla og vinnustaða VET@work. 

Eftirfarandi er kynning á erindinu á morgun í Menntakviku:

Kynning á Erasmus verkefninu VET@work þar sem þátttakendur komu bæði frá menntakerfinu og atvinnulífinu. Helsti tilgangur verkefnisins var að búa til rafræna handbók sem inniheldur leiðbeiningar um með hvaða hætti sé hægt að standa að samstarfi milli skóla og vinnustaða þegar kemur að þjálfun verknámsnema. Þróuð voru líkön til að innleiða nýjar og nýstárlegar aðferðir til að efla vinnustaðanám í samvinnu við vinnumarkaðinn. Tilvikskannanir voru notaðar í þessu verkefni en farið var í heimsóknir í fyrirtæki og skóla, tekin viðtöl við nemendur, atvinnurekendur, starfsmentora og skólafólk. Allir deildu reynslu sinni og bestu starfsháttum um það hvernig þeir töldu að koma ætti á samstarfi milli skóla og vinnumarkaðarins. Hönnuð var heimasíða https://vetatwork-project.eu/is/ með niðurstöðum þessarar vinnu sem hægt er að nota sem hugmyndabanka. Sem dæmi um það sem þar kemur fram eru nokkrar gerðir af „Job dating“ eða „job fair“, skólastofan flutt á vinnustað, starfsmaður vinnustaðar verður gestakennari í skólanum, hlutverk starfsmentora gert eftirsóknarvert, verkefni sem unnin eru í samstarfi skóla og vinnustaða og mat á því hvernig samstarfið gengur og jafnframt nám nemenda. Þessi heimasíða nýtist skólum, vinnustöðum og öðrum fræðsluaðilum sem standa að því að innleiða og efla vinnustaðanám og starfsþjálfun. Helstu ályktanir eru þær að mikilvægt er gefa sér tíma til að byggja upp traust og heiðarlegt samstarf þar sem sameiginlegt markmið allra er að útskrifa verknámsnemendur sem standast kröfur markaðarins til framtíðar.

Hársýning á Glerártorgi í kvöld

Það er alltaf mikið um að vera í hársnyrtideildinni í VMA. Nú eru tveir námshópar í deildinni, annar þeirra stundar nú nám á fimmtu og næst síðustu önninni, nemendur ljúka námi sínu því næsta vor.
Þegar líður á námstímann takast nemendur á við stór og krefjandi verkefni, eitt þeirra bíður þeirra í kvöld þegar efnt verður til hársýningar á Glerártorgi í tilefni af Dömulegum dekurdögum. Tíu nemendur á fimmtu önn vinna með módel sín á Glerártorgi (þar sem áður var Kaffi Torg) á milli kl. 18 og 20 og punkturinn verður síðan settur yfir i-ið með sýningu kl. 20 þar sem gestum gefst kostur á að sjá afrakstur vinnu dagsins.
Nemendur hafa lagt mikið á sig við undirbúning þessarar hársýningar, í rauninni má segja að hann hafi byrjað strax í annarbyrjun og hefur síðan farið stigvaxandi. Þeir hafa þurft að undirbúa þessa sýningu sem mest sjálfir, t.d. að útvega húsnæði, fá styrktaraðila o.fl. Halldór Jónsson heildverslun styrkir sýninguna með myndarlegum hætti og lætur nemendum í té ýmsar vörur sem þeir nota á sýningunni. Þá verða módel nemenda leyst út með gjöfum frá Halldóri Jónssyni.