Fara í efni

Fyrirlestur VMA-nema vakti athygli á jafnréttisráðstefnu

Þrír af fjórum VMA-nemum og Snorri kennari.
Þrír af fjórum VMA-nemum og Snorri kennari.

Fjórir nemendur VMA, Arnaldur Skorri Jónsson, Hrannar Þór Rósarson, Íris Hrönn Garðarsdóttir og Laufey Ipsita Stefánsdóttir, unnu í sameiningu eitt þriggja aðalerinda á ráðstefnu í Háskólanum á Akureyri sl. laugardag. Þema ráðstefnunnar var jafnrétti í skólastarfi og að henni stóðu Miðstöð skólaþróunar í HA og Jafnréttisstofa. Arnaldur Skorri útskrifaðist um síðustu jól en Íris Hrönn og Laufey Ipsita eru nemendur á félags- og hugvísindabraut og Hrannar Þór útskrifast í vor af viðskipta- og hagfræðibraut.

Á heimasíðu ráðstefnunnar segir m.a. um efni hennar: „Samkvæmt gildandi menntastefnu er markmið jafnréttismenntunar að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Í skólastarfi skulu allir taka virkan þátt í að skapa samfélag sem byggir á þessum gildum. Jafnréttismenntun vísar í senn til inntaks kennslu, námsaðferða og námsumhverfis. Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær samkvæmt námskrá til eftirfarandi þátta; kyns, kynhneigðar, kynvitundar, menningar, litarháttar, ætternis, þjóðernis, tungumáls, trúarbragða, lífsskoðana, fötlunar, stéttar, búsetu og aldurs.“ 

Arnaldur Skorri, Hrannar Þór, Íris Hrönn og Laufey Ipsita tóku öll kynjafræði hjá Snorra Björnssyni sem valáfanga í námi sínu í VMA sl. haust, en frá árinu 2013 hefur kynjafræði verið kennd sem valáfangi við skólann og hafa í það heila milli 180 og 190 nemendur setið áfangann.

Í fyrirlestri sínum sl. laugardag leituðust nemendur við að svara þeirri grundvallarspurningu hvort það hefði einhvern sýnilegan tilgang að taka kynjafræði í sínu námi? Nemendur greindu frá upplifun sinni og reynslu af kynjafræðinni og sögðu frá því hvernig þeir tengdu áfangann við sitt daglega líf. Þrír af fjórum nemendum sem unnu fyrirlesturinn – Arnaldur Skorri, Íris Hrönn og Laufey Ipsita – fluttu hann en Hrannar Þór var á höfuðborgarsvæðinu um helgina þar sem hann var einn af nemendum af viðskipta- og hagfræðibraut VMA sem kynntu áhugaverð fyrirtækjaverkefni á svokallaðri vörumessu í Smáralind. Þann hluta fyrirlestursins sem Hrannar Þór vann flutti Arnaldur Skorri á ráðstefnunni. Að fyrirlestrinum loknum sátu nemendur og Snorri Björnsson kennari þeirra fyrir svörum og sköpuðust áhugaverðar umræður.

Laufey Ipsita Stefánsdóttir sagði frá því að hún hefði mikinn áhuga á tónlist og því hefði hana langað til þess að skoða stöðu kvenna í tónlist út frá kynjamun. Hún upplýsti að hún hafi verið í fiðlunámi í tónlistarskóla í fjórtán ár og þar væri greinilegur kynjamunur, fiðlan þætti stelpulegt hljóðfæri en strákarnir hefðu meiri áhuga á að spila á gítar eða trommur og oftar en ekki sjái karlmenn um hljóð- og sviðsbúnað. Laufey sagði karla í miklum meirihluta þeirra sem starfi í tónlist og fátítt sé að konur séu í lykilhlutverkum í stjórnum tónlistarfélaga eða við skipulagningu hérlendra tónlistarhátíða. Hún sagði líka að kynjamunurinn væri áberandi í tónlistarmyndböndum, þar væru karlmenn hinir sterku en konurnar oftar en ekki notaðar sem kyntákn.

Íris Hrönn Garðarsdóttir hóf erindi sitt á því að segja frá því að hún hafi gjarnan verið kölluð „strákastelpa“, enda hafi áhugamál hennar þótt vera „karlmannleg“, t.d. lyftingar og tölvuleikir. Íris Hrönn sagði að þegar hún fór í kynjafræðiáfangann hafi áhugi hennar ekki síst beinst að því að skoða staðreyndir um hlutgervingu og klámvæðingu kvenna. Hún sagði að helsta einkenni svokallaðs iðnaðarkláms væri að ýta undir staðalímyndir og það leiti oft uppi ungar stúlkur í hlutverk, sem oft séu barngerðar og látnar líta út fyrir að vera yngri en 18 ára. Útlitsdýrkun dagsins í dag sagði Íris Hrönn að væri afleiðing klámvæðingarinnar og klámiðnaðarins, karlar og konur fái ólík skilaboð og hugmyndir um æskilegt útlit og hegðun. Í niðurlagsorðum sínum sagði Íris Hrönn það sína skoðun að kynjafræði ætti að vera skyldufag – helst strax í grunnskóla - því hún opnaði augu allra fyrir ómeðvituðum fordómum, skoðunum og hugmyndum.

Í erindi sínu (sem Arnaldur Skorri Jónsson flutti) fjallaði Hrannar Þór Rósarsson um kynjafræði út frá íþróttum, en hann þjálfar 4. flokk kvk KA/Þórs í handbolta. Hann segir stóran mun á umfjöllun fjölmiðla um hópíþróttir karla og kvenna en staðan sé e.t.v. örlítið betri í einstaklingsíþróttum. Hann segir stóran mun á því hvernig sé litið á þátttöku karla og kvenna í íþróttum. Stúlkur séu gjarnan spurðar um hvort ekki sé erfitt að sinna boltanum með fjölskyldulífinu og hvernig gangi að skipuleggja stífar íþróttaæfingar með skólanum. Strákarnir séu hins vegar spurðir um hvernig hafi gengið í dag og hvað hefði betur mátt fara og hver sé lykillinn að velgengninni.
Hrannar Þór segir að þessi mál séu að þokast í rétta átt en enn sé þó langt í land. Ennþá sé hávær umræða um að stelpuboltinn sé lélegur og sagt sé um stráka sem misstigi sig í íþróttinni að þeir spili eins og stelpur eða láti sóla sig eins og stelpur. Áberandi sé að reynt sé að búa til afreksíþróttamenn úr ungum strákum en það eigi ekki við um stelpur. Hann upplýsti að hann hefði gert óformlega könnun hjá stelpunum sem hann þjálfaði um hvort þær teldu að strákar fengju almennt markvissari og betri þjálfun en stelpur og í ljós hefði komið að flestar töldu stelpurnar að svo væri. 
Hrannar Þór telur mikilvægt væri að kenna kynjafræði alveg niður í leikskóla og einnig sé mikilvægt að þeir sem vinni með samskipti, umönnun, þjálfun o.fl. taki áfanga í kynjafræði.

Arnaldur Skorri Jónsson sagði að þegar kynjakerfið væri skoðað kæmi í ljós að jafnrétti kynjanna snúist bæði um stöðu karla og kvenna og öll séum við föst í viðjum gamalla hugmynda um kynin sem takmarki tækifæri karla og kvenna á ólíkum sviðum. Arnaldur Skorri sagðist oft hafa velt fyrir sér staðalímyndum karla og haft á þeim skoðanir en hins vegar hefði hann aldrei velt því fyrir sér hve skaðlegar þær væru eða að baráttan gegn þeim væri í raun feminísk barátta. Hann sagðist telja sig vera femínista en hafi oft forðast að ræða femínisma við kynbræður sína, almennt vilji þeir ekki tala um þessa hluti því þeir vilji standast ákveðnar kröfur og vera samþykktir af félögunum. Arnaldur Skorri sagði að sumir kunningjar hans tali niðrandi um femínisma á degi hverjum en líklega mótist sú afstaða af því að þeir skilji ekki út á hvað hann gangi. Í lok erindis síns sagði Arnaldur Skorri að hann teldi að kynjafræði ætti að vera skyldunámsgrein í framhaldsskólum og jafnvel einnig grunskólum því hún kenni gagnrýna hugsun, opni augun fyrir misrétti og skaðlegum hugmyndum sem viðhaldi ójafnrétti.

Í stuttu spjalli í VMA í gær við Laufeyju Ipseta, Hrannar Þór og Írisi Hrönn kom fram að kynjafræðiáfanginn hafi komið þeim öllum ánægjulega á óvart og þau hafi séð ýmislegt í öðru og nýju ljósi eftir að hafa farið í gegnum námsefnið. Laufey og Íris sögðu báðar að það hafi vissulega verið stressandi að standa fyrir framan fullt af fólki á ráðstefnunni og halda fyrirlesturinn en þegar upp er staðið hafi hann gefið þeim báðum gríðarlega mikið og eflt þeim sjálfstraust. Þannig sagði Laufey að hún hafi alltaf verið heldur feiminn og átt erfitt með að flytja öðrum eitthvað frá sínu brjósti en eftir að hafa tekið þátt í því að flytja fyrirlesturinn í HA um liðna helgi finnist henni ekki lengur erfitt að standa upp og flytja fyrirlestra eða gera grein fyrir verkefnum fyrir samnemendur sína.

Hér er samantekt ráðstefnunnar sl. laugardag og r eru myndir af þátttakendum frá VMA Og hér má sjá fleiri myndir frá ráðstefnunni, sem Miðstöð skólaþróunar í HA veitti góðfúslegt leyfi til að birta hér.