Fara í efni

Fundur í Slóveníu og Bosníu Herzegovínu - InnoVET

Hildur Friðriksdóttir og Jóhannes Árnason fóru á fund í Erasmus+ verkefninu InnoVET í Sloveníu og Bosníu Herzegovínu dagana 18. - 23. mars.

Fyrstu þrjá dagana var gist í Bled á hóteli sem er rekinn af ferðaþjónustuskólanum VSS Bled (Higher Vocational College for Hospitality and Tourism Bled). Fundurinn hófst á kynningu um svæðið (region Gorenjska) sem er í norðvesturhluta Sloveníu, nánast í jaðri Alpanna. Þar var farið yfir helstu áskoranir sem svæðið stendur frammi fyrir í atvinnulegu tilliti.

Eftir kynninguna voru þátttakendur látnir ígrunda breytingarferlið frá upphafi verkefnisins sem hófst haustið 2017 og fram til dagsins í dag. Hvað þátttakendur VMA snertir má greina helstu breytinguna í aukinni meðvitund um samfélagslegt hlutverk skólans og mikilvægi þess að hlúð sé að því samhengi sem skólinn starfar í. Verkefnið InnoVET hefur opnað augun fyrir því að skólinn starfar að sjálfsögðu í umhverfi, samfélagi sem hefur áhrif á starf skólans og starfið þar hefur áhrif á samfélagið og á það hvaða möguleika svæðið á í framtíðinni.

Eftir örstutt hlé voru nemendur og starfsmenn VSS Bled með kynningu um starfsemi sína. Skólinn býður upp á tvær námsleiðir; ferðaþjónustu sem aðallega snýr að hótelrekstri, leiðsögn og ferðaskipulagningu og wellness eða dekur þar sem nemendur læra um líkamsrækt, snyrtingu o.fl. Nemendur koma í þennan skóla eftir 18 ára aldur en hann er á nokkurs konar háskóla- eða millistigi háskóla og framhaldsskólastigi. Á fyrra árinu ljúka nemendur 80 klst. vinnustaðanámi að mestu á hótelinu, en á seinna árinu ljúka þau 320 klst. vinnustaðaþjálfun að sumri til á hótelum eða spa stöðum víða í Sloveníu eða í útlöndum. Að kynningunni lokinni var lagt af stað í skoðunarferð um ferðamannastaðinn Bled undir leiðsögn nemenda skólans.

Á öðrum degi fórum við til svæðis sem kallast Naklo. Þar heimsóttum við landbúnaðar- og matvælatengdan skóla á framhaldsskólastigi sem kallast Biotechnical Center Naklo en þar er skóli, bú með ræktun á plöntum og dýrum og úrvinnsla. Þar er verið að kenna landbúnað að einhverju leyti en líka úrvinnslu úr landbúnaðarvörum, mjólkuriðn og einnig að sjá um nátturuverndarsvæði, um endurnýjanlega orkugjafa og fleira sem heyrir undir nám fyrir dreifbýli (rural studies). Við fengum kynningu á skólanum og nemendur leiddu okkur svo um skólann. Sú ferð endaði í versluninni þar sem eru seldar framleiðsluvörur skólans.

Þar næst fórum við til bæjarins Kranj sem er höfuðstaður svæðisins. Þar heimsóttum við frumkvöðlasetur sem er rekið af BSC - Business Support centre fyrir Goranjska svæðið sem eru slóvensku samstarfsaðilar okkar í þessu verkefni. BSC hefur það hlutverk að vinna byggðaþróunaráætlanir fyrir svæðið og því er mikið lagt í að fá upplýsingar, greina stöðuna og framtíðina og horfa á styrkleika og veikleika svæðisins. Þátttakandur InnoVET verkefnisisn voru því fengin til þess að vinna í hópum þara sem m. a. var spurt hvort gestirnir sæu styrkleika og veikleika og einnig hvort framtíðar námstilboð eða störf væru í augsýn. Frá hópunum komu ýmsar uppástungur og pælingar en eins og allsstaðar þar sem við höfum verið koma fram ábendingar um lykilhæfni og áherslur sem við sjáum til framtíðar. Sveigjanleiki hjá ungu fólki, ekki endilega í merkingunni að vita ekki hvað það vill eða að læra ekki neitt ákveðið heldur að ásamt því að fá góða undirstöðu á sterkum sviðum þurfi nám og þjálfun að fela í sér vinnu að fjölbreyttum verkefnum þar sem neminn þarf að beita kunnáttu og færni til að leysa úr málum og að vinna með þá hugmynd að það þurfi sífellt að víkka hæfnina og vera viðbúinn óvæntum áskorunum. Þetta að okkar mati dregur alls ekki úr mikilvægi grunnþjálfunar t.d. í iðngreinum, heldur eykur mikilvægi þess að hafa sterkan grunn þannig að fólk geti byggt ofan á. Annað lykilatriði sem kemur allsstaðar fram er tungumál, bæði móðurmál og líka erlend tungumál. Eitt af því sem við frá Íslandi höfum séð alltaf betur og betur í þessu verkefni er að enska er mikilvæg, en hún er að einhverju leyti ofmetin. Bæði er kunnátta fólks á Íslandi í ensku ofmetin, hún er oft grunn og á takmörkuðu sviði. Svo eru það önnur Evrópumál, þýska, franska, skandinavíumál og tungumál Suður Evrópu ásamt Slavneskum málum.

Á þriðja degi var farið til Skofja Loka en þar heimsóttum við framhaldskóla á sviði málmsmíða og trésmíða. Stjórnendur deildanna kynntu skólann og námið og svo var farið í skoðunarferð um skólann. Eftir það var farið í ráðhúsið en þar kynntu fulltrúar Local Action Group í Skofja Loka ýmis verkefni á þeirra vegum. Aftur heyrðum við um mikilvægi þess að frumkvöðlar fái stuðning, ekki endilega peninga heldur aðstoð við að stofna fyrirtæki, sérfræðiaðstoð á ýmsum sviðum og umhverfi til að vinna saman. Að þeirri kynningu lokinni heimsóttum við tvær hönnunarmiðstöðvar þar sem ýmsir frumkvölar hafa aðsetur.

Fjórði dagurinn var ferðadagur en þá var farið með bíl frá Bled í norðurhluta Slóveníu til Zivinice / Tuzla í Bosníu og Herzegovínu. Í Bosníu sátum við opinn fund með ýmsum hagsmunaaðilum af svæðinu sem sjá tækifæri í koma á óformlegu og formlegu námi til að efla dreifðar byggðir. Það var mjög athyglisvert að heyra af hverju fólk vill gera þetta, hvaða hugmyndir það hefur um framtíðina og hvaða vandamál þarf að vinna með. Á fundinum var einnig unnið með þá aðferðafræði sem verkefnið hefur stuðst við til að draga fram þau atriði sem fólk vill sjá til framtíðar og um leið sjá leiðir til að ná þeim markmiðum, hindranir á þeirri leið og koma með dæmi um hvað er mögulegt að nýta sér. Aðallega er þarna verið að ræða um það sem almennt fók getur gert - ekki hraðbrautir eða einhverjar stórframkvæmdir sem krefjast mikilla peninga. Að loknum þessum fundi var formlegri dagskrá lokið en næsti og seinasti fundur í verkefninu verður haldinn um miðjan maí á Reunion eyju í Indlandshafi.